22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara langt út í deilur um höfundarrétt að þessu frv. við hv. 8. þm. Reykv. Hann hefur þegar kvatt sér hljóðs tvisvar sinnum til að tileinka sér frv., fyrst á síðum Morgunblaðsins og síðan hér í þessari deild. Venjan er hins vegar sú, að það er yfirleitt 1. flm. frv. sem er aðalhöfundur þess. Þetta frv. er flutt óbreytt frá því í fyrra, og þá var Gylfi Þ. Gíslason 1. flm. þess. Ég efast ekkert um réttmæti þeirra orða Ellerts Schram, að hann sé höfundur þessa frv. Mér dettur það ekki í hug. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar, að 1. flm. hefði verið höfundur frv. eða þeir í sameiningu. Heiður þeim sem heiður ber, ef um heiður er að ræða í þessu tilviki, og þá er það á hreinu.

Þetta frv., sem mönnum verður ákaflega tíðrætt um, gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu, að Kjaradómur taki að sér að ákveða laun alþm. Það hefur komið hér fram, að þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt, og það hefur mjög verið vikið að þessari gagnrýni í ræðum hv. þm. sem úr þessum stól hafa talað. Áður en mér hlotnaðist sá heiður og sú upphefð að skreppa hér inn fyrir dyr, eins og það var orðað hér áðan, átti ég nokkurn þátt að þessari gagnrýni. Ég geri ráð fyrir að flestum sé það ljóst. Gagnrýni mín beindist einkum og sér í lagi að tveimur atriðum og gerir það raunar enn: í fyrsta lagi því, að alþm. eða Alþ. skuli sjálft hafa ákvörðunarvald um þessi laun, og í öðru lagi að skattahlið þessa máls, þar sem ýmislegt virtist ekki vera alveg á hreinu. En nú hefur komið fram hér í umr. greinilegur vilji manna til að koma því máli á hreint og er það vissulega vel.

Ef mig misminnir ekki, þá var það þannig að laun alþm. voru miðuð við þriðja hæsta flokk opinberra starfsmanna hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Síðan gerðist það, að mig minnir — og leiðréttir það þá einhver ef það reynist rangt, að laun í þriðja efsta flokki Bandalags háskólamanna fóru upp fyrir þriðja efsta flokk hjá BSRB, og þá mun hafa verið tekin um það ákvörðun hér, að þm. tækju allt í einu laun eftir launaflokki Bandalags háskólamanna, sem í þessu tilviki reyndist hærri en þriðji efsti launaflokkurinn hjá BSRB. Að þessu beindist einnig gagnrýnin, og þetta hygg ég að hafi orkað tvímælis, þó vera megi að þetta sé ekki umdeilanlegt beint út frá orðanna hljóðan.

Ég tel það hreint enga minnkun eða neins háttar valdaafsal þó að ákvörðunarvald um laun þm. sé fært til annars aðila, til aðila sem hefur það hlutverk að lögum að ákveða laun ýmissa annarra hópa í þjóðfélaginu. Ég held þvert á móti að þetta yrði til þess, að Alþ. gæfi ekki lengur þann böggstað á sér sem fyrir hendi hefur verið og hefur óspart verið notaður og kannske ekki að ástæðulausu.

Það hafa margir þeirra, sem hér hafa talað, fullyrt að ef Kjaradómur fjallaði um þessi mál mundi það leiða til verulegrar launahækkunar hjá alþm. og jafnframt hækkunar á kostnaðargreiðslum. Verði reynslan sú, ef þetta frv. nær að verða að lögum, að alþm. ofbjóði örlæti Kjaradóms, sem ég hygg að sé lítil ástæða til að óttast, a.m.k. hygg ég að opinberir starfsmenn yfirleitt hafi ekki þá reynslu af störfum Kjaradóms að hann sé sérstaklega örlátur, — ef mönnum ofbýður þetta og þykja launin og þessar kostnaðargreiðslur ætla að rjúka upp úr öllu valdi, þá er að sjálfsögðu opin leið að breyta þessu í gamla horfið, það horf sem það er nú í, ef breytingin þykir ekki gefast vel. Auðvitað gefur það auga leið.

Hv. 1. þm. Austurl. ræddi hér ýmsa aðra þætti þessa máls, m.a. þá reglu, að þeir, sem gegna öðrum embættum á vegum ríkisins, halda nú 60% af launum sínum. Hann var þeirrar skoðunar, að þessa reglu ætti að afnema og menn ættu ekki að þiggja tvenn laun hjá ríkinu, og ég er í grundvallaratriðum honum sammála. Ég hygg að þetta hafi nokkuð lengi verið svona og auðvitað er starfsorka og starfsvilji manna ákaflega misjöfn og sumir eru sjálfsagt tveggja manna makar og aðrir jafnvel þriggja. En ég held að það eigi við um þetta sem endranær, að það er bágt að þjóna tveimur herrum og bágt er að vera beggja þjónn og báðum tnír. Ég held að það komi óhjákvæmilega niður á öðru starfinu ef menn gegna tveimur stöðum. Það er líka, að ég hygg, tvíeggjað að leyfa mönnum að geyma sér stöður um árabil, um aldur og ævi jafnvel, á meðan þeir sitja á þingi. Það þýðir einfaldlega það, að einhver annar einstaklingur verður að búa við það öryggisleysi að geta hvenær sem er, hvenær sem hinum aðilanum þóknast misst starf sitt og stöðu.

Það var hnyttilega vikið að því áðan, að hv. 1. þm. Austurl. hefði nefnt það dæmi, að ekki gæti sami maðurinn gegnt læknisembætti og prestsembætti. Ég held að við ættum að huga aðeins nánar að þessu, vegna þess að ég held raunar að í þessum efnum verði seint fundin sú regla sem allir geta sætt sig við, alls staðar á við og allir geta unað. Ég held t.d. að það muni vera allalgengt víða um landið, að prestar gegni einnig störfum kennara, kemur til af brýnni nauðsyn og yfirleitt held ég að það sé hreint ekkert við það að athuga.

Hv. 1. þm. Austurl. hefði líka geta nefnt annað dæmi. Sjálfur hefur hann setið í ríkisstj. árum saman. Þá hefur hann gegnt embætti ráðh. og jafnframt verið alþm. Þetta er í rauninni alveg það sama. Ég held að þessa reglu mætti vissulega athuga. Ég held að hún orki tvímælis og í raun réttri held ég, og byggi það á samtölum við ýmsa sem hafa gegnt þessum tveimur embættum samtímis, að vera bæði ráðh. og alþm., að það sé í rauninni hverjum venjulegum manni ofætlun, ef þeir ætla að gegna báðum störfunum vel, og yfirleitt held ég að það verði á kostnað þingmennskunnar og á kostnað fyrst og fremst sambandsins við kjósendur.

Það hefur verið talað um það hér að banna þm. að vinna aukastörf, hverju nafni sem þau nefnast nánast. Þetta er sjálfsagt virðingarverð hugmynd. En gallinn er bara sá, að þetta er útilokað í framkvæmd —gjörsamlega útilokað. Það er auðvitað hægt að meina mönnum að gegna opinberum störfum, en að öðru leyti er ekki hægt að framkvæma þetta. Menn verða að gera sér grein fyrir því, hvað er draumur og hvað er veruleiki í þessum efnum. Í raunveruleikanum yrði aldrei hægt að banna mönnum þetta, vegna þess að það er ekki hægt einu sinni að banna mönnum að hugsa, sem betur fer. En ég get vel tekið undir það, að menn megi ekki taka tvenn laun hjá ríkinu samtímis, það eigi a.m.k. að vera meginregla að svo sé ekki og að það sé þá á hreinu, um leið og menn gefa kost á sér í framboð til Alþingis liggi þetta fyrir klárt og kvitt. En ég held að samþykkt þessa frv. yrði til verulegra bóta. Ég sé ekki að Alþ. mundi á neinn hátt setja niður við það, að þessi ákvörðunarréttur færist annað. Ef það reynist gefa þá slæmu raun, að launin hækki upp úr öllu valdi og menn vilja ekki una því, þá er auðvitað hægt að breyta aftur í hið fyrra horf.