18.10.1978
Efri deild: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

13. mál, stjórnarskipunarlög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég kem aðeins hér upp til þess að lýsa undrun minni á því, hver vinnubrögð eru viðhöfð hér í deildinni eða á Alþingi varðandi flutning mála. Við störfum hér í tveimur deildum, og í Nd. hefur nýlega verið flutt frv. um lækkun kosningaaldurs. Nú rétt á eftir er flutt svo til samhljóða frv. hér í Ed., þ.e.a.s. um sama mál. Þetta mundi sjálfsagt lagast — þessi vinnubrögð — ef við gerðum Alþ. að einni deild. En ég furða mig á því, af hverju þessi háttur er á hafður.

Umr. um 18 ára kosningaaldur hafa verið áberandi á undanförnum árum, alveg frá því að Alþfl. tók þetta mál upp í stefnuskrá sína, en ég held það hafi verið árið 1965, sem þm. Alþfl. tóku fyrst upp þessa till. á Alþingi. Mig minnir að fyrst hafi þetta komið í stefnuskrá stjórnmálahreyfinga ungra manna á sambandsþingi Sambands ungra jafnaðarmanna árið 1960 sem haldið var í Keflavík. Síðan fóru fram allmiklar umr., sérstaklega innan Sambands ungra sjálfstæðismanna, og var þar eindregið lagst gegn þessu. Hins vegar er það ánægjulegt fyrir okkur kratana að sjá að hvert stefnumálið á fætur öðru, sem við flytjum eða berum fram, nýtur æ meira fylgis, og nú er það svo að þm. Alþb. hafa gerst sporgöngumenn Alþfl. í þessum efnum. Vissulega er það þakkarvert, og við skulum vona að þetta verði til þess að fleyta málinu fram til þess, að 18 ára kosningaaldur verði að veruleika.

Kosningaaldur hefur verið að lækka. Það hefur verið rakið hér ágætlega af fyrri ræðumanni. Fyrir tilstuðlan Alþfl. var það fyrir allnokkru — það var í viðreisnarstjórninni — að kosningaaldurinn var lækkaður úr 21 ári í 20 ár.

Ég vil lýsa ánægju minni með þá þróun sem nú á sér stað, að nú virðast æ fleiri ætla að samþ. þessa breytingu, og vona að málið nái fram að ganga nú á næstunni.