30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil nú í allri vinsemd mælast til þess við hv. þdm., að þeir séu ekki að eyða tíma í að ræða um þingsköp nú, þar sem annað mál bíður hér afgreiðslu. Það þingskapamál, sem hér er um að tefla, er að mínum dómi ósköp einfalt. Við höfum mörg fordæmi við að styðjast um það, að forseti hefur verið leystur frá störfum að eigin ósk. Oftast nær og kannske alltaf nema í þessu tilfelli hefur það verið vegna þess að forseti hefur orðið ráðherra.

Það er a.m.k. í þremur tilfellum, sem ég man eftir, sem slíkt hefur átt sér stað. Í fyrsta skipti sem það gerðist var þegar Björn Jónsson varð ráðh. 1909. Þá var samþykki deildarinnar veitt, að vísu með afbrigðum, en ekki formlegu leyfi. Annað skiptið var þegar Steingrímur Steinþórsson varð forsrh., hann var forseti Sþ. Misminni mig ekki því meir, þá hygg ég að það hafi dregist í nokkra daga að kjósa forseta í hans stað og var ekki að því fundið. Þriðja tilvikið, sem ég man eftir í svipinn, hygg ég vera það þegar Jóhann Hafstein varð ráðh.

Í þeim tveimur tilfellum, sem ég nefndi síðast, virðist hafa verið litið svo á að það, að maðurinn varð ráðh., hefði þessa afleiðingu, þó að það sé ekki alveg sjálfgefið. En með kosningu nýs forseta hefur verið talið að samþykki hlutaðeigandi deildar eða Sþ. væri veitt, þó að það væri ekki formlega borið undir deildina.

Ég get fullvissað þm. um að það verða engin vandkvæði á að leysa þetta mál. Við höfum tekið upp, og það átti sér fyrst stað í tíð vinstri stjórnarinnar, skynsamlegri og mannlegri — vil ég segja — háttu um skipun forseta, þannig að bæði stjórn og stjórnarandstaða ættu menn í forsetastólnum. Að vísu hefur það hingað til verið svo, að stjórnarandstaða hefur aðeins átt menn í varaforsetastól. En auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu og mun þekkjast frá þingum annarra þjóða, að stjórnarandstaða geti líka tekið þátt í aðalforsetastarfi. Þessu er að vísu nokkuð öðruvísi hagað þar sem aðeins er ein málstofa. En ég hygg að þess sé ekki langt að minnast t.d. í Danmörku, að það var ekki stjórnarstuðningsmaður sem skipaði aðalforsetastól í danska þinginu.

Ég get fullvissað hv. þdm. um, eins og forseti hefur þegar tekið fram, að frá þessu máli verður gengið á næsta fundi deildarinnar, á mánudag, og það er ekki langur tími eftir því að bíða. Og það er áreiðanlegt, að störf deildarinnar í dag geta gengið með eðlilegum hætti þó að dragist að ganga frá þessu formlega atriði fram á mánudag. Þess vegna vil ég endurtaka beiðni mína til hv. þdm., að þeir séu ekki að eyða tíma í þetta mál, sem e.t.v. er í hugum sumra stórt, en annarra ekki.