30.11.1978
Neðri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það hefur farið nú sem oft áður, að það er háð hetjuleg kjarabarátta héðan úr ræðustól á Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar, að við þetta frv., eins og það er fram lagt, sé ýmislegt að athuga.

Að því er tekur til 1. gr. er óviturlegt að vera að gera upp á milli manna, hvort þeir hafi setið lengur eða skemur á Alþingi. Það eiga ekki að vera efnahagslegir hagsmunir manna að sitja lengur, en ekki skemur á Alþingi. Ég held að þetta sé óviturleg meginregla. Það á að gilda ein og sama regla.

Í annan stað er það, að þessi lög ein gildi aftur fyrir sig og með því sé verið að færa fjármuni til manna sem auðvitað vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu s.l. vor. Ég held að þetta sé ekki viturlegt. Ef Alþ. er þeirrar skoðunar að færa þurfi milljónir kr. til einstaklinga, þá sýnist mér vera ýmsir aðrir í þjóðfélaginu sem þá peninga ættu frekar að fá en fyrrv. þm. Ég veit ekki til þess að neinn þm., sem lét af störfum s.l. vor, búi við nauðþurftarstig eða þaðan af lakari kjör, svo að ég held að þetta sé óviturleg samtryggingarlöggjöf sem ekki væri þessari deild til sóma að afgreiða eins og hér er lagt til.

Hitt er svo annað mál, að það mun vera svo að alþm. taka laun frá því að þeir eru kosnir, þó að mestu hefjist störf ekki fyrr en undir haustið. Þann tíma eru þeir á fullum launum þó að full vinna a.m.k. hefjist ekki strax. Það er kannske vit í því að láta launagreiðslur ekki byrja fyrr en 1. sept. og gilda í þrjá mánuði eftir að menn hafa látið af störfum. En það þarf að vera eitthvert samræmi í þessu.

Enn annað mál er það, að það er vel hægt að fallast á að menn, sem út af Alþ. falla, hafi einhverja tryggingu í þrjá mánuði eða svo.

Mér er fullkunnugt um að það hefur valdið mönnum miklum erfiðleikum að falla. Mér er fullkunnugt um það líka, að það er svo, einkum fyrir þá sem lengi hafa setið á Alþ., að þeir eru varla færir um að fara út á hinn almenna vinnumarkað. Þetta eru erfiðleikar sem öll lýðræðisþjóðfélög þekkja, og kosningar geta verið grimmur leikur, eins og allir auðvitað vita. En engu að síður hygg ég að í þessa hluti eigi að fara mjög hægt.

Ég áskil mér allan rétt til að flytja við þetta frv. brtt. Í fyrsta lagi held ég að það eigi ekki að gera upp á milli manna eftir því, hversu lengi þeir hafi setið á þingi. Í öðru lagi held ég að það sé rangt að láta þessi lög gilda aftur fyrir sig. Við höfum nóg annað við þá peninga að gera en fara að greiða þá fyrrv. þm. Að öðru leyti segi ég það, að ég áskil mér allan rétt til þess að flytja frekari brtt. við þetta frv. Samfélagið stendur á mjög viðkvæmum mótum að því er tekur til kjaramála úti um samfélagið allt, og mér hefði nú þótt það standa Alþ. nær að haga sér skynsamlegar á öðrum vettvangi en vettvangi sjálfs sín að þessu leyti.