04.12.1978
Efri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

94. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Menntamrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á undanförnum árum munu menntmrn. hafa borist öðru hverju samþykktir frá ýmsum félagasamtökum, einkum frá Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda og Æðarræktarfélagi Íslands, um að lög um fuglaveiðar og fuglafriðun frá 1966 yrðu tekin til endurskoðunar, einkum með það í huga að auðveldara yrði að fækka svokölluðum vargfuglum, þ.e. svartbaki og hrafni.

Í lok marsmánaðar 1976 boðaði rn. til fundar með fulltrúum nokkurra félagasamtaka samkv. beiðni þeirra, auk þess fuglafriðunarnefnd og formann eiturefnanefndar. Var boðað til þessa fundar til að ræða málin og skiptast á skoðunum, enda vitað að þær væru nokkuð misjafnar. Í framhaldi af þessum fundum mun rn. hafa tekið ákvörðun um að fram færi endurskoðun á lögunum. Í ársbyrjun 1977 skipaði síðan menntmrn. þrjá menn í n. til að endurskoða lögin: Ásgeir Bjarnason þáv. alþingisforseta, formann Búnaðarfélag Íslands, dr. Arnþór Garðarsson, formann fuglafriðunarnefndar, og Runólf Þórarinsson stjórnarráðsfulltrúa, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Í skipunarbréfi var tekið fram að n. ætti í störfum sínu að hafa samráð við stjórn Æðarræktarfélags Íslands, Dýraverndunarsambands Íslands, Fuglaverndarfélagsins, Hins ísl. náttúrufræðifélags og aðra þá aðila sem hún héldi rétt að ráðgast við. Markmiðið með endurskoðuninni væri fyrst og fremst að leita leiða til þess að tryggja eðlilega vernd fuglalífs í landinu og þá þannig að skynsamlegt hlutfall héldist milli hinna ýmsu tegunda, en eins og kunnugt væri þá hefði sumum mávategundum fjölgað mjög að undanförnu til tjóns fyrir sumar aðrar fuglategundir.

Þessi n. tók síðan til starfa, og þar eð n. taldi sig þurfa að gera mjög verulegar breytingar á lögunum tók hún það ráð að endursemja hin eldri lög frekar en að fara að leggja fram frumvarpsbákn um breytingar á gömlu lögunum.

Nefndarmenn urðu sammála um tiltekin ákvæði frv., og það er það frv. sem hér liggur fyrir.

Frv. þetta skiptist í sex kafla og eru fyrstu tveir kaflarnir hvað mikilvægastir, annars vegar um rétt veiðimanna, en um það fjallar l. kaflinn, og svo aftur Il. kafli, sem fjallar um rétt fuglanna, þ.e. friðunarákvæði.

Í 5. gr. er m. a, tekið fram sem stefnuyfirlýsing í 2. tölul., að öllum íslenskum ríkisborgurum séu heimilar fuglaveiðar í afréttum og almenningum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Þetta tel ég afar mikilvægt stefnumarkandi ákvæði. Eins er í 3. tölul. tekið skýrt fram, að öllum íslenskum ríkisborgurum séu fuglaveiðar heimilar í íslenskri landhelgi utan netlaga lögbýla. Þetta er einnig mikilsvert stefnumarkandi ákvæði.

Í Il. kafla frv., sem fjallar um friðunarákvæði, er gengið út frá því sem meginreglu, að allar villtar fuglategundir í landinn séu friðaðar allt árið, en síðan eru gerðar undantekningar frá þessari meginreglu eins og fram kemur í öðrum tölul. greinarinnar. Ég efast ekki um að um þessi ákvæði reynist erfitt að ná fyllsta samkomulagi allra aðila, því að ég hef orðið var við að um þessi mál eru mjög skiptar skoðanir. Og ég efast ekki um að svo verði einnig hér á Alþingi. Alþm. hafa alltaf sýnt fuglum himinsins meiri áhuga en flestum öðrum dýrum og varið til þess drjúgum tíma á þingfundum, og ég efa ekki að svo verður enn.

Ég hef ekki séð ástæðu til þess að gera breytingar á tillögum nefndarinnar. Það táknar að sjálfsögðu ekki að ég þurfi alfarið að vera samþykkur hverju einstöku atriði í frv., en ég hef talið rétt, eins og var reyndar afstaða fyrirrennara míns, þáv. menntmrh. Vilhjálms Hjálmarssonar, að leggja frv. fram óbreytt eins og n. sendi það frá sér. Frv. var sem sagt flutt á síðasta þingi, en varð þá eigi útrætt og er nú endurflutt.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv, menntmn.