04.12.1978
Efri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

94. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get nú ekki sagt að það hafi komið mér beinlínis á óvart, en ég tók eftir því, að hv. 4. þm. Norðurl, e., Stefán Jónsson, hafði áhuga á því að drepa ýmsar fuglategundir hér á landi aðrar en vargfugla, og get ég út af fyrir sig skilið það út frá þeim sjónarmiðum öðrum sem hann hefur í ýmsum málum.

En í sambandi við þetta mál vil ég fyrst lýsa þeirri skoðun minni, að ég er ekki að tala um það út frá því sjónarmiði, hvort ýmsum sportveiðimönnum þykir betra eða verra að hér skuli ýmsar fuglategundir friðaðar, og á erfitt með að skilja setningar eins og þær, þegar talað er um veiðiskap á fuglum sem er stundaður af mestri tillitssemi, og a.m.k. frábið mér sjálfum slíkt tillit.

Ég vil víkja beint að efni þessa máls, og það er það, að í 8. gr., 2. tölul. a, er talað um að allt árið skuli vera heimilt að veiða 5 fuglategundir: kjóa, svartbak, silfurmáf, sílamáf, hrafn. Ég hef þrásinnis endranær lýst áhuga mínum á því, að hettumáfur kæmi í þennan hóp a.m.k., og vil taka undir þau orð, sem fram komu í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., að hettumáfurinn er mikill vargur í fuglavörpum. Reynsla er fyrir því frá fjölmörgum stöðum á landinu, að kríuvörp hafa lagst niður vegna ágangs þessa fugls, og augljóst öllum þeim sem fylgst hafa með fuglalífi, að hettumáfurinn er mestur vargur í véum þar sem mófuglinn er annars vegar. Segja má að hann drepi hvað sem fyrir verður, og einkanlega og sér í lagi er lóuungunum hætt fyrir hettumáfunum. Og hann er að því leyti verri vargfugl en t.d. svartbakur, að það er þó ekki nema tiltölulega lítill hluti svartbakanna sem leggur fyrir sig að leggjast í vörp, þar sem svo virðist sem það sé tegundareinkenni á hettumáfinum. Ég vil beina því til þeirrar þingnefndar, sem þetta mál tekur til meðferðar, hvort ekki sé hægt að fallast á að taka hettumáfinn þarna undir a-lið.

Samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er hettumáfurinn nánast friðaður hér á landi, þar sem einungis má hreyfa við honum frá 1. sept. til 1. mars. Á hinn boginn vitum við um það, að fjölmargir náttúruunnendur, sem hafa fylgst með atferli þessa fugls, hafa á eigin ábyrgð reynt að útrýma honum í nágrenni sinn og spilla fyrir því að hann kæmi ungum upp. Ég hygg að við svo búið megi ekki lengur standa, að þessi mesti vargur mófuglanna sé lögverndaður að þessu leyti, að mönnum skuli ekki frjálst að leggja til atlögu við hann.

Hettumáfurinn er ekki gamall fugl hér á landi, hann er nýlega til kominn. Ef ég tala um Norðurl. e., þar sem ég er kunnugastur að þessu leyti, þá muni ekki vera nema 30–40 ár síðan hann byrjaði að verpa þar. (Gripið fram í: 1936. Þm. var ekki fæddur þá.) Ég geri nú ekki ráð fyrir því, að hv. 4. þm. Norðurl. e. bindi sína fróðleiksfýsn við það, hvenær hann var fæddur, en það má hugsa sér það, ef maður lítur á sjálfan sig sem miðdepil alheimsins, þá miði maður tímatalið við fæðingu manns sjálfs, og get ég út af fyrir sig skilið það þegar svo stendur á. En ég sagðist vera kunnugastur á Norðurl. e. og stend við það og hef haldið þar uppi spurnum um þessi mál. Ég hef rætt þetta mál við náttúruverndarmenn og bændur víða um landið og ber allt að sama brunni í þeim efnum.

Ég vek athygli á því, að í 10. gr. þessa frv. er talað um að eigi megi taka egg hettumáfa nema fyrsta varp. Ég elska mjög eftir því, að það ákvæði verði numið á brott úr þessari grein, en tel ekki eðlilegt að ég flytji um þetta sérstakar brtt. við 1. umr. málsins, þó ég á hinn bóginn geri mér grein fyrir því, að ég verði kominn af þingi þegar þetta mál kemur til 2. umr. og þess vegna örðugra fyrir mig að fylgja því eftir en ella. Ég verð þess vegna að beina tilmælum mínum til þeirrar n. sem þetta mál tekur til meðferðar, að hún athugi um það, hvort hún geti orðið við þeim tilmælum sem ég hér tala um.

Í sambandi við 25. gr., þá er þar veitt undanþága í sambandi við tortímingu fugla með eitri eða svæfandi lyfjum, og er í því sambandi talað um svartbak og hrafn. Er að sjálfsögðu mjög mikilsvert að sú grein haldist, og skil ég orðalagið svo, að þar sé skírskotun til þeirra fuglategunda sem felast í a-lið 2. tölul. 8. gr. Ég kann sögur af því, mjög átakanlegar, hvernig það getur ráðið úrslitum um það að endur komi ungum sínum upp, að eitrað sé fyrir þessa varga og þá ekki síður hrafninn en svartbakinn.

En þegar við ræðum um það, að nauðsynlegt sé að eitra fyrir hrafn, rétt sé að hann sé réttdræpur allt árið um kring til þess með því að forða öðrum fuglategundum frá tortímingu eða til þess að hindra að hrafninn ráðist á unglömb eða folöld þegar við fæðingu, þá er rétt að hafa það í huga einnig, að til þurfa að koma miklu strangari reglur en nú eru um umgang á sorphaugum og meðferð sorps, ekki síst í kringum ýmis skólahús og aðrar opinberar stofnanir. Þannig held ég að mönnum sé ljóst, svo ég taki dæmi, að það mikla, hrafnager, sem orðið hefur á síðustu árum t.d. í Suður-Þingeyjarsýslu, hefur valdið því, að endur sjást jafnvel ekki á miklum stöðuvötnum vegna þess að þeir eiga sér griðland, hrafnarnir, í þessum sorphaugum og sækja svo að andarungunum eða eggjunum.

Ég held að þetta allt saman þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar og að þetta frv. út af fyrir sig komi ekki að fullu haldi, nema því fylgi annað um meðferð á úrgangi og sorpi.

Hér er talað um að breyta nokkuð veiðitímum á ýmsum fuglum. Ég sé að þarna er talað um að einungis sé heimilt að veiða álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda frá 1. sept. til 19. maí. Ég er ekki viss um að þessi ákvæði séu til bóta, tel að rétt kunni að vera að færa þarna veiðitímann nokkuð fram, eins og ég hygg að sé í gildandi lögum.

Í sambandi við andaveiðar vil ég láta mér nægja að segja það, að ég hef ekki orðið var við að slíkur fjöldi af öndum sé nú orðið hér á landi, að ástæða sé beint til þess að ætla þeim sérstakan veiðitíma, eins og þarna er gert, og mundi vel geta fallist á að endur yrðu a.m.k. um skeið alfriðaðar meðan stofninn væri að ná sér á strik. Ég held að það sé enginn vafi á því, að sumum stofnum andategunda er verulega hætt, og þó að hægt sé að benda þar á einstakar tegundir sem virðast standa sig vel finnst mér að það gefi ekki beint tilefni til þess, að það sé ástæða fyrir okkur að heimila miklar veiðar á þeim. Öndin er nú einu sinni mjög varnarlaus fugl. Henni hefur gengið afskaplega illa að koma ungum sínum upp og því verr sem meira af vargfugli vex upp í kringum mannabústaði, og ég held að við eigum að taka tillit til þess og gefa því gaum. hvað við getum gert til þess að auka á líkindi fyrir því, að endur setji meiri svip á landið en verið hefur um skeið.

Þá er ég kominn að rjúpunni. Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að svo lítið er orðið af rjúpu þar sem hennar helstu lönd voru áður að ástæða er til að láta kenningar fuglafræðinga um þann fugl lönd og leið og reyna nú með samverkandi aðgerðum að slá skjaldborg um þennan fugl.

Ég geri ráð fyrir að það kunni að vera erfitt að ná samkomulagi um það, að Alþingi fyrirskipi alfriðun rjúpu um nokkurra ára bil, 3–5 ár eða 10 ár, eftir því sem mönnum kann að sýnast. Verður þá að hörfa í það vígið, að einstökum héruðum sé heimilt að banna rjúpnaveiðar innan sinna lögsagnarumdæma. Ég hef haldið uppi spurnum um það hjá fjallmönnum og gangnamönnum norðanlands og sunnan nú á þessu hausti, hvort þeir hafi séð mikið af rjúpu, og af þeim fjölda sem ég hef spurt, ekki afskaplega margir menn, hefur aðeins einn þeirra orðið var við rjúpu þannig að það sé umtalsvert á löndum þar sem fyrir 10–20 árum var mikill fjöldi af þessum fugli.

Ég átti kost á því á þessu sumri að fara út í Fjörður með fuglafræðingi. Þar greindi hann um 40 fuglategundir, en engin rjúpa var þar á meðal, og segir það sína sögu, einkanlega þegar þess er gætt að þar eru afskaplega mikil og góð rjúpnalönd. Bændur við Reykjaheiði, þar sem mikið hefur verið um rjúpu, hafa sömu sögu að segja, að sumir þeirra sáu enga rjúpu nú í haust. Hefur svo verið um einhver ár, að fleiri eða færri gangnamanna hafa komið heim án þess að sjá þennan fugl, en aðrir séð fáar. Athyglisverð skoðun á þessu, gerð af Héðni Ólafssyni bónda á Fjöllum í Kelduhverfi, þar sem hann hefur skrifað hjá sér á hverju ári í alllangt árabil þann fjölda rjúpnahreiðra sem hann hefur séð frá sínum híbýlum, segir sömu sögu. Þar fækkar rjúpu markvisst frá ári til árs. Það er því óhjákvæmilegt að taka þetta mál til algjörlega nýrrar endurskoðunar, og er ástæða til að fagna því sérstaklega, að meiri hl. þeirrar n., sem samdi þetta frv., skyldi ekki hafa fallist á að færa rjúpnaveiðitímann fram til 1. sept.

Ég tek það satt að segja ekki alvarlega þótt menn séu að gera því skóna, hvort rétt kunni að vera að setja heimildir í lög um að menn megi skjóta spóa, tjald eða — (Gripið fram í.) Hv. þm. minntist á tjald, en það hefur þá verið mismæli. (Gripið fram í.) Ég bið afsökunar ef ég hef misskilið. (Gripið fram í.) Hvort það var í bréfi, ég skal ekki segja um það, en hvernig sem það mal er vaxið, þá tek ég það ekki alvarlega þótt hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi talað um spóa og lóur sem hugsanlega veiðifugla, enda lýsti hann sjálfur yfir að hann mundi ekki hafa gaman af slíkum veiðiskap. Fagna ég þeim ummælum sem lýsa því aftur, að hann muni ekki gerast forgöngumaður þess, að slík heimild verði tekin í lög um fuglaveiðar og fuglafriðun.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. minntist á það, að til greina gæti komið að leyfa þeim sem það vildu að fækka nokkuð álftum þar sem þær yllu miklu tjóni. Ég hef að vísu mjög takmarkaða samúð með því sjónarmiði þótt álftir valdi nokkru tjóni. Á hinn bóginn er mér kunnugt um það, að í Suður-Þingeyjarsýslu fellur mikill hluti álftastofnsins á hverjum vetri, og telja sumir að það sé af hungri. En hversu svo sem það mál er vaxið, þá er ljóst, að aðeins lítill hluti álftastofnsins kemst upp, en mikill hluti hans fellur á hverju vori, sennilega úr hungri. Af þessum ástæðum má segja að til greina geti komið að taka þarna upp nokkuð svipaðan hátt og verið hefur á um hreindýraveiði, og út frá því sjónarmiði má um þetta mál ræða. En ég er ekki sérlegur hvatamaður þess samt sem áður, og má vera að ég sé of rómantískur til þess að ég geti fengið mig til að ljá því jáyrði að aftur verði heimilaðar veiðar á álftinni.

Þegar rætt er um frv. til l. um fuglaveiðar og fuglafriðun fer ekki hjá því að maður verði að átelja hið háa Alþ. fyrir það, hversu naumt það hefur verið á fé til útrýmingar á minki og hversu naumt þeim mönnum, sem staðið hafa fyrir útrýmingu hans og hvers konar vargfugla, hefur verið skammtað fé. Það liggur fyrir að fjöldi duglegra og vanra minkaveiðimanna telur sig ekki hafa efni á að halda uppi því eftirliti sem nauðsynlegt er til þess að halda minkastofninum niðri víða um land. Í sumum héruðum er hann verulegur vargur í véum og skiptir þar jafnvel um þegar farið er frá svæði eins minkaveiðimanns yfir til hins næsta. Sums staðar er það svo, að minkurinn veður uppi, að því er virðist án þess að nokkurt alvarlegt átak sé gert til þess að eyða honum, jafnframt því sem einstök dæmi eru til um að bændur líti á mink sem hlunnindi í jörð sinni og séu ófúsir á að leyfa minkaveiðimönnum að fara um þau. Þessum málum verður að gefa betri gaum. Við afgreiðslu fjárl. er nauðsynlegt að ætla verulega aukið fé til útrýmingar minki og vargfuglum og er vonandi að það frumkvæði, sem hæstv. menntmrh. sýnir með því að leggja þetta frv. fram, nái til hins, að beita sér fyrir auknum fjárveitingum í þessu skyni við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1979.

Ég vil svo að síðustu aðeins drepa á það, að ekki væri síður ástæða til að endurskoða þá löggjöf sem í gildi er um seladráp og setja um það nokkuð fastar reglur, hversu með skuli fara, hvernig heimilt sé að veiða seli. Sumar aðfarir, sem þar hafa verið hafðar í frammi hin síðustu ár, eru ekki mönnum til sóma.

Svo vil ég að síðustu aðeins segja það, að þótt forfeður okkar hafi í sínum lögum haft ýmis ákvæði um það, að heimilt væri að skjóta fleiri fugla en nú er, er þar ekki saman að jafna. Fram undir þetta hefur verið nauðsynlegt fyrir menn að skjóta fugla sér til matar til þess að treina fram lífið. Fuglaveiðar nú eru eingöngu sportveiðiskapur og skipta engu í sambandi í framfærslu að öðru leyti en því, að sennilega munu flestir sportveiðimenn frekar vera verr búnir undir það en áður að framfæra sjálfa sig því þeir munu í fæstum tilfellum veiða fyrir kostnaði. Þess vegna er þar ólíku saman að jafna og ætti að vera okkar metnaður að ganga svo um okkar náttúru, að þeir fuglar, sem okkur eru kærastir, geti óhræddir flogið frá einni þúfu til annarrar án þess að óttast að við sitjum þar í leyni og reynum að fækka lífdögum þeirra.

Ég vil sem sagt að lokum aðeins draga þetta saman. Ég óska þess í fyrsta lagi, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki til athugunar að hettumáfur verði settur í sama hóp og kjói, svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur og hrafn. Og það er það sem ég legg mesta áherslu á. Í öðru lagi þætti mér það mjög horfa til bóta ef á það væri hægt að fallast, að einstök héruð gætu alfriðað rjúpu innan sinna lögsagnarumdæma tímabundinni friðun. Þetta er það sem ég legg mesta áherslu á, en þætti að sjálfsögðu gott ef hitt gæti fylgt með, að endur yrðu alfriðaðar.