05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

336. mál, störf byggðanefndar

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Það kemur í ljós að n. þessi hefur enn eigi lokið störfum og þar af leiðandi ekki enn skilað áliti. Upplýsingar eru um það, að formaður n. hafi gert drög að lokaskýrslu og ekki vitað hvort n. mundi fallast á þau drög, en e.t.v. styttist þó eitthvað tíminn þangað til n. lýkur störfum sínum.

Út af þessu er kannske ekki margt að segja annað en það, að ég lít á byggðamálin það stórum augum og þýðingarmiklum, að ástæða hefði verið til fyrir þessa n. að vinna nokkru skarpar að þessu verkefni en hér sýnist hafa verið gert. Það er full ástæða til þess, að jafnþýðingarmiklum málaflokki sé sýndur sá sómi af þingkjörinni n., að hún reyni að ljúka störfum á skemmri tíma en hér er um að ræða, sem eru 41/2 ár, þannig að ég get naumast annað en átalið það og tel að það sé raunar virðingu Alþingis ekki fyllilega samboðið vegna þess að þessi hv. n. er kjörin af Alþingi.

Nú sagði einn nm., hv. þm. Helgi F. Seljan, að n. hefði starfað vel á fyrsta hluta síns æviskeiðs eða á vinstristjórnarárunum fyrri, eftir stjórnarskiptin hefði dregið mjög úr fundahaldi og dofnað yfir starfi n., og hann hafði eftir formanni nefndarinnar að það væri vegna þess að þá hefði ekki árað fyrir stefnu í byggðamálum. Nú væri e.t.v. ástæða til þess að spyrja hvað hér er verið að segja. Er verið að halda því fram t.d., að hæstv. fyrrv. ríkisstj. undir forsæti Geirs Hallgrímssonar hafi horfið frá byggðastefnunni? Er verið að gefa það í skyn, að sú stjórn og þeir stjórnarflokkar, sem þá voru við völd, hafi ekki viljað styðja byggðastefnu eins og gert var af vinstri stjórninni fyrri? Ég tel að þetta sé rangt, og mér þætti betur að hv. þm. Helgi F. Seljan gerði grein fyrir því í hverju þetta er fólgið. (HFS: Ég vitnaði í formann n.) Ef þetta er allt saman rakið til formanns n., hæstv. núv. landbrh., þá skal ekki farið langt út í þá sálma þar sem hann er ekki hér viðstaddur. En ég vil t.d. nefna eitt atriði, fjárveitingar til Byggðasjóðs sem í tíð fyrrv. ríkisstj. voru í fyrstu ákveðnar 2% af útgjöldum fjárlagafrv., höfðu verið 1% í tíð fyrri vinstri stjórnar. Ég vil nefna það, að í lok síðasta stjórnartímabils var gerð nokkur breyting á þessum lögum, þannig að ráðstöfunartekjur sjóðsins skyldu vera sem svaraði 2% af útgjöldum fjárlagafrv. Fyrsta fjárlagafrv. núv. hæstv. vinstri stjórnar felur það í sér að brjóta þessi lög í raun, enda þótt með talnaleik sé verið að fara í kringum málið og með talnaleik settar tölur í frv. sem eiga að sýnast uppfylla þetta ákvæði. Ég ætla ekki að skýra það frekar, en þegar slíkt sem þetta er sagt, þá er heppilegra að því fylgi einhver rökstuðningur.

Ég skal ekki lengja þetta mál mikið. Ég tel að hér sé um svo þýðingarmikið mál að ræða og enn sé svo mikið óunnið á sviði byggðamála, sem að full ástæða sé til að þessi hv. n., sem kjörin var fyrir 41/2 ári, ljúki starfi sínu. Ef hún treystir sér ekki til að ljúka því, þá verði að einhverju leyti skipt um menn í þessari nefnd.

Ég skal ljúka máli mínu, hæstv. forseti, en við, sem búum á landsbyggðinni, þurfum að standa vörð um okkar hagsmuni eins og allir í þessu þjóðfélagi, um leið og við lítum á hagsmuni þjóðfélagsins í heild. En við búum við það í ýmsum greinum að bera meiri kostnað, hafa dýrari þjónustu, minni þjónustu og erfiðari samgöngur en sá hluti þjóðarinnar sem býr í aðalþéttbýlinu. Við eigum því láni að fagna að njóta ýmissa annarra kosta sem hér skulu ekki metnir til verðs. Þess vegna þarf að móta heildstæða stefnu í sambandi við byggðamálin og ljúka því verki sem þessari n. var ætlað fyrir 41/2 ári.