06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Þetta mál hefur mikið verið rætt að undanförnu og hafa skoðanir verið skiptar. Við frv. hafa komið ýmsar aths. og þá einkum að því er varðar stjórnaraðildina. Ég hygg að það, sem fram kemur í frv., fari alveg að kröfum alþýðusamtakanna um það, hvernig skuli fara með þessi mál. Ef farið verður að þynna þetta frekar út, þá tel ég það ógæfu, og eins og ég skýrði frá í framsöguræðu minni hafa ýmsir helstu forustumenn alþýðusamtakanna lagt til að þetta yrði eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að BSRB eigi fulltrúa í stjórninni, enda yrði þessi fræðslustarfsemi alveg óháð þeim samtökum og einnig óháð Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að öll fræðslan lúti að því að uppfræða meðlimi Alþýðusambands Íslands, og þar eru sjómenn að sjálfsögðu meðtaldir, en í Sjómannasambandi Íslands eru undirmenn á flotanum.

Ástæðan fyrir því, að við komum með þetta í frv.formi, er að skólinn, Félagsmálaskóli alþýðu, sem hefur starfað í 3 ár, hefur þurft að vera upp á náð ríkisvaldsins kominn og verið skammtað mjög naumt, þannig að ekki hefur tekist að halda uppi þeirri fræðslu sem þyrfti að vera og við höfum fyrir okkur að á sér stað annars staðar á Norðurlöndum fyrir aðildarsamtök og félaga verkalýðssamtakanna þar.

Það var gert að umræðuefni hér, að deila mætti á verkalýðsfélögin almennt fyrir það, hvað þau væru óvirk að fræða meðlimi sína um hin ýmsu málefni þjóðfélagsins og að því er lýtur að lögum um stéttarfélög, vinnudeilur o.fl. Vissulega er hægt að gera það. En eins og ég rakti í framsöguræðu minni hafa þessi mál mjög horft til betri vegar á undanförnum árum. Nú er fyrst hafið reglubundið fræðslustarf hjá verkalýðsfélögunum, ekki aðeins innan Menningar- og fræðslusambands alþýðu, heldur hjá hinum einstöku verkalýðsfélögum, og ég er sannfærður um að því betur sem að þessum málum er staðið, því betur standa félögin að vígi við að móta ákveðna stefnu við gerð kjarasamninga, hinir einstöku félagar verða virkari í því, og svo líka það, að nauðsynlegt er að félagar stéttarfélaganna fræðist vel um stjórnkerfið og einnig þjóðarbúskapinn. Hitt er annað, að ekki eru allir með þessu. Sumir vilja láta þetta vera eins og það hefur verið, þannig að Alþýðusambandið eða Menningar- og fræðslusamband alþýðu sé alfarið upp á náð ríkisins komið án nokkurra laga er segi til um það, hvernig skólinn á að starfa, án nokkurra laga, er geri það að verkum að hægt verði að hefja reglubundið skólahald, — skólahald sem krefst af ríkisvaldinu ákveðinna fjármuna er það vart kemst hjá að láta í té.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson taldi í ræðu sinni að þetta mætti vera eins og það hefði verið, að því tilskildu að ríkissjóður legði til starfseminnar 100 millj. kr. Ég vil benda á það, að ekki er alltaf í landinu ríkisstj. sem vinveitt er alþýðusamtökunum og örlát að láta stórar fúlgur í slíka starfsemi. Sé ég ekki annað en ef til valda kemur ríkisstj. sem er andstæð þessu verkefni, þá getur hún kippt undan því fótunum miklu fremur en ef sérstök lög eru til að binda hendur ríkisvaldsins.

Hér hafa farið fram heimspekilegar vangaveltur um hvort eigi að kenna í skólanum kommúnisma eða eitthvað í þeim dúr. Ég vil taka það fram, að það er ekki tilgangur flm. að svo verði, heldur verði, eins og segir í grg., að gefa fólki kost á því að vera virkara í stéttarfélögunum. Við trúum því, að því betur sem verði gert í þeim efnum, því betur verði verkalýðshreyfingin í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu þjóðfélaginu. Við skulum gera okkur ljóst að hlutverk stéttarfélaganna, hlutverk alþýðusamtakanna er feikilega mikið í nútímaþjóðfélagi, og við þurfum að gera okkar til þess að það verði rækt á þann veg sem best má verða fyrir þjóðarheildina.

Ég vil svo aðeins svara því, sem hv. þm. Jón G. Sólnes, sem fór burt skömmu eftir að þetta mál kom fyrst til umr., spurði um, hvers vegna gert sé ráð fyrir að nemendur séu fullra 17 ára þegar þeir fara í skólann. Hugsunin að baki þessari grein var sú, að menn hefðu verið einhvern ákveðinn tíma úti á vinnumarkaðnum og þekktu eitthvað til þess veruleika sem þar er.

Ég sé ekki að það sé ástæða til þess að fjölyrða frekar um þetta mál við 1. umr., en heiti á menn að veita frv. góðan framgang. Þeir menn, sem eru því samþykkir að það þurfi að efla styrk verkalýðssamtakanna og gera þau betur í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu, gera hugsuninni um Félagsmálaskóla alþýðu aðeins óreiða með því að leggjast gegn þessu frv., og þykir mér miður að þeir skuli eiga samleið í þeim efnum, hv. þm. Jón G. Sólnes og Ólafur Ragnar Grímsson. En kannske stendur það til bóta.