10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, einkum í tilefni þess sem hæstv. landbrh. sagði áðan. Hann fullyrti að ég hefði ekki þær upplýsingar um hag þjóðlífsins, eins og hann komst að orði, sem mér bæri skylda til. Ég hef að sjálfsögðu ekki rætt við alla bændur, en ég hef rætt við nokkra bændur og ég verð að segja það, að í þeim er annað hljóð en hér heyrist. Auðvitað ber að viðurkenna það og á því stendur ekki, að á vissum stöðum hafa bændur átt við erfiðleika að etja, og það er auðvitað líka rétt, að að nokkru sé komið til móts við þá þar sem er um staðbundinn vanda að ræða. En þetta mál er bara miklu, miklu stærra en það.

Hæstv. ráðh. talaði áðan um að árið 1978 hefði verið erfitt. Það hygg ég raunar að hafi verið mismæli, því að árið 1978 er besta ár sem íslenskur landbúnaður hefur nokkurn tíma fengið. Árið 1979 var hins vegar af ýmsum sökum erfitt. En ég spyr: Hvernig er komið þeirri atvinnugrein, og er ástæða til að vera sérstaklega stoltur af því þegar ástandið er þannig að harðærið, harðindin skapa erfiðleika? Það skilja allir. En þegar góðærið skapar orðið enn þá meiri erfiðleika en harðærið, er þá ekki vissulega ástæða til að staldra við og spyrja: Hvert erum við að fara, hvert stefnir? Er ekki ástæða til að breyta um stefnu? Ég held að það gefi auga leið. Sá vandi, sem hér er verið að ræða, er kominn til vegna og mikillar framleiðslu, framleiðslu sem við þurfum að borga með til þess að koma á markað erlendis.

Það verður auðvitað aldrei hjá því komistð bændur eigi sitt undir sól og regni, eins og þar segir. Það verður aldrei hjá því komist, og auðvitað verða bændur eins og aðrar atvinnustéttir að taka nokkra áhættu af árferði. Það er aldrei hægt að tryggja einn eða neinn fyrir öllu slíku. Það á auðvitað að koma til móts við menn þar til þess að jafna út þannig að sveiflurnar verði ekki of miklar. Sjómenn eiga sitt undir aflabrögðum og tíðarfari. Bændur eiga sitt undir tíðarfarinu líka og í veg fyrir það verður aldrei hægt að koma, nema ætlunin sé að setja bændur atgerlega á framfæri ríkisins og gera þá að hreinum ríkisstarfsmönnum.

Hv. þm. Jón Helgason tók þannig til orða: Ég fyrirverð mig ekki fyrir að vera bóndi, sagði hann. Auðvitað á hann að vera stoltur af því eins og hver maður sem vinnur heiðarlega fyrir sínu brauði. En sá útúrsnúningur, sem stöðugt er á ferðinni þegar rætt er um landbúnaðarmál og afstöðu Alþfl. til landbúnaðarmala, er að Alþfl. sé að fjandskapast við bændur. Þetta er grundvallarmisskilningur. Það er stefnan í landbúnaðarmálum sem Alþfl. hefur verið að berjast gegn og mun berjast gegn meðan hún er óbreytt. Við munum berjast fyrir því, að þessu verði komið á skynsamlegri grundvöll. Það er mergurinn málsins. Það er enginn að fjandskapast við bændastéttina. Ég hef að vísu sagt og segi enn, að mér þykja forustumenn bænda of miklir barlómsmenn, vegna þess að hjá bændum sjálfum heyri ég ekki þetta sama hljóð og frá þeim sem heyrist í í fjölmiðlunum.

Og aðeins að lokum: Hv. þm. Jón Helgason vék að fjölmiðlaljósinu og hverjir böðuðu sig þar. Það er alveg rétt sem hann sagði að því er mig varðar, að ég hafði atvinnu af því. Ég tel ekkert óheiðarlegt við það, að ég var starfsmaður sjónvarpsins og hafði það að atvinnu að koma þar fram. En samanburður eins og hann var með úr þessum ræðustól áðan, hann hélt ég satt best að segja og vonaði að væri fyrir neðan virðingu þessa ágæta þm. Málflutningur af því tagi er ekki sérstaklega háreistur.