19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

6. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er 6. mál. þessarar hv. d., flutt á þskj. 6 og fjallar um staðfestingu á brbl. frá 16. okt. 1979 um breyt. á lögum nr. 107 frá 30. des. 1978, um sérstakt tímabundið vörugjald.

Þessi brbl., sem leitað er staðfestingar á og gefin voru út 16. okt. 1979, voru fyrst gefin út í septembermánuði s.l. af þáv. hæstv. fjmrh. Eftir þingrofið, sem átti sér stað í október mánuði, eins og menn minnast, þurfti að endurútgefa þessi brbl. þar sem ekki gafst tækifæri til að fjalla um þau í þinginu áður en þingrofið fór fram.

Brbl. voru endurútgefin í óbreyttri mynd frá því sem þau höfðu fyrst verið gefin út í sept. að öðru leyti en því, að í upphaflega brbl.-textanum var gert ráð fyrir að heimila ríkisstj. að stofna til tímabundins samnings við Seðlabanka Íslanda um 41/2 milljarðs kr. lán vegna greiðsluvandkvæða ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þótti eðlilegt, þegar þessi brbl. voru gefin út, að taka þá heimild út úr brbl. um sérstakt tímabundið vörugjald, enda átti sú heimild ekkert skylt við hið sérstaka tímabundna vörugjald, og setja hana inn í önnur brbl., um lántökuheimildir ríkisstj., en frv. til staðfestingar á þeim brbl. er nú til meðferðar í hv. Ed.

Eins og menn muna var ástæða upphaflegrar brbl.setningar um sérstakt tímabundið vörugjald frá því í september mánuði s.l., sem frv. þetta er flutt til staðfestingar á, sú, að þá var fyrir séð fyrir alllöngu að ekki mundi takast að standa við áætlun fjárlaga um afkomu ríkissjóðs á því ári, og var talið af þáv. hæstv, fjmrh. að til þess að hægt væri að ná endum saman skorti nýjar tekjur, a.m.k. 7 milljarða kr. Samkomulag varð í ríkisstj. um að afla þess fjár með tvennum hætti. Annars vegar með nýrri tekjuöflun og hins vegar með því að ná samningum við Seðlabankann um tímabundið lán að upphæð 41/4 milljarður sem greiðast ætti upp á þremur fyrstu mánuðum ársins 1980 og ætti að vera lokið að greiða 1. apríl það ár. Ein af þeim nýju tekjuöflunum, sem gengið var út frá í þessu sambandi, fólst í þeirri brbl.-setningu sem gerð var í september. s.l. um þetta sérstaka tímabundna vörugjald sem leitað er staðfestingar á hér. Breytingin, sem gerð var af hæstv. fyrrv. ríkisstj., felur í sér hækkun á vörugjaldi úr 18% í 24% og er þá átt við hið almenna vörugjald, en það er efnisatriði 1. gr. í frv. þessu.

Á ákvæðum laganna um sérstakt tímabundið vörugjald voru jafnframt gerðar þær breytingar að nokkrir vöruflokkar voru felldir úr hærri gjaldflokki, 30% vörugjaldi, aðrir alveg undanskildir vörugjaldi. Þar er um að ræða hljóðfæri ýmiss konar, sem vörugjaldi var alfarið aflétt af, og áhöld til íþróttaiðkana. Í 2. gr. þessa frv. er þannig fjallað um afnám vörugjalds af íþróttaáhöldum og í 3. gr. frv. er fjallað um afnám vörugjalds af tilteknum hljóðfærum.

4. gr. frv. er tæknileg útfærsla á því, hvernig þessum breytingum á sérstöku tímabundnu vörugjaldi verði fyrir komið.

Áætlaðar tekjur af vörugjaldshækkuninni og þeim vörugjaldsbreytingum, sem 2. og 3. gr. gera ráð fyrir, eru 310 millj. kr. á mánuði. Í fjárlagafrv. bæði hæstv. fyrrv. fjmrh. og fjárlagafrv. núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að þessi breyting á sérstöku tímabundnu vörugjaldi standi ekki aðeins til 1. apríl n.k., heldur til ársloka, en tekjur af þessu sérstaka tímabundna vörugjaldi til 1. apríl n.k. munu renna í það að greiða Seðlabanka Íslands afborgun af því láni sem hann veitti ríkissjóði með því samkomulagi sem við hann var gert í haust. — Til upplýsingar vil ég aðeins geta þess, að frá þeim lánssamningum hefur verið gengið við Seðlabanka Íslands.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.