11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

74. mál, Sölustofnun lagmetis

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Sú fsp., sem hér er fram borin, hefur legið alllengi fyrir þinginu án þess að hún kæmi hér á dagskrá. Hún kom fram í tíð fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. iðnrh. En jafnskylt er að svara henni nú, og ég vænti þess, þó að svarið hafi verið tekið saman fyrir allnokkru, að það sé í fullu gildi í meginatriðum. Ég hef raunar litið yfir það með tilliti til þess sem verið hefur að gerast í þessum efnum nú undanfarnar vikur, þó að það sé ekki margt frásagnarvert á þessu stigi. Aðstoð við svör við þessum fsp. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar veitti m.a. Sölustofnun lagmetis, en sölustofnunin er sem kunnugt er sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald, eins og kveðið er á um í lögum. Stofnaðilar hennar eru íslenska ríkið og atvinnurekendur í niðursuðu- og niðurlagningariðnaði. Það má segja, að viss atriði í fsp. sem slíkum varði efnislega aðildarverksmiðjurnar sjálfar, en þó er ekki um að ræða að það hindri svör við þeim efnisatriðum sem hér eru fram komin. En ég tel eðlilegt að við umr. um þessi mál og athugun þeirra átti menn sig á því, að hér er um sölusamtök sjálfstæðra fyrirtækja að ræða sem eiga þarna hlut að máli með íslenska ríkinu.

Ég mun þá svara þeim fsp. sem hér liggja fyrir, og þá 1. fsp., sem er þannig: „Hvaða ástæður lágu til þess, að Norðurstjarnan í Hafnarfirði hefur ákveðið að segja sig úr Sölustofnun lagmetis, og hverjir tóku þá ákvörðun?“

Svarið er þannig: Í bréfi Norðurstjörnunnar hf., dags. 28. des. 1979, segir stjórn fyrirtækisins upp aðild sinni að Sölustofnun lagmetis sökum óvissu um skipan markaðsmála á Bandaríkjamarkaði. Stjórn Sölustofnunar lagmetis fjallaði um efni bréfsins á fundi sínum 7. jan. s.l. og var Norðurstjörnunni hf. ritað bréf 8. jan. og gerð grein fyrir sjónarmiðum stjórnar stofnunarinnar. Af umr. þeim, sem fram hafa farið um málefni Sölustofnunar lagmetis og samskipti Sölustofnunar lagmetis og Norðurstjörnunnar hf., er það staðföst skoðun forráðamanna Sölustofnunar lagmetis, að eigi muni koma til raunverulegrar úrsagnar árið 1981 og Norðurstjarnan hf. verði með traustari aðildarfélögum samtakanna. Fram undan er lokasamningagerð af hálfu Sölustofnunar lagmetis í Bandaríkjunum um sölu á léttreyktum síldarflökum, Kipper snacks, sem er meginframleiðslutegund Norðurstjörnunnar hf. Þar með er stefnt að því að fullnýta framleiðslugetu Norðurstjörnunnar þetta árið og lagður frekari grundvöllur að sölu ársins 1981. Á undanförnum vikum hafa þessi mál verið til meðferðar á vegum Sölustofnunar lagmetis og það, sem þar hefur gerst, m.a. varðandi þá söluskrifstofu sem vikið er að síðar í þessari fsp., ætti frekar að leiða til þess en ekki, að Norðurstjarnan verði áfram aðili að Sölustofnun lagmetis eins og vænst er af stjórn Sölustofnunarinnar.

2. fsp. er þannig: „Hversu miklu fjármagni hefur verið varið til markaðsöflunar og sölustarfsemi á vegum Sölustofnunar lagmetis frá upphafi?“

Svarið við fsp. er þannig: Til starfsemi Sölustofnunar lagmetis hefur hið opinbera varið tæpum 120 millj. kr. í samræmi við lög nr. 48/1972. Samkv. þeim skyldi varið í 5 ár, tímabilið 1973–1977, 25 millj. kr. á ári til uppbyggingar starfsemi Sölustofnunar lagmetis. Tekjur stofnunarinnar af eigin starfsemi nema 315 millj. kr. frá upphafi, en heildarkostnaður af sölu- og markaðsstarfsemi, innkaupaþjónustu o.fl. 442 millj. kr.

3. fsp.: „Hver var kostnaður vegna söluskrifstofu Sölustofnunar lagmetis í New York og hversu mikið var greitt úr Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins til þessarar starfsemi?“

Svar: Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins hefur staðið straum af öllum kostnaði vegna söluskrifstofu Sölustofnunar lagmetis í New York, Iceland Waters Industries Ltd. Ákvörðun um stofnun söluskrifstofunnar var tekin í byrjun árs 1976 og raunveruleg starfsemi hafin á miðju því ári. Hér var um að ræða markaðsátak til þriggja ára, er síðan var framlengt um eitt ár, og skyldi varið til þess talsverðu fé úr Þróunarsjóði samkv. sérstakri áætlun. Samkv. þeirri áætlun var gert ráð fyrir að fyrirtækið næði svo mikilli veltu 1979 að það stæði undir eigin kostnaði. Með starfsemi Iceland Waters Industries Ltd. fengust mikilvægar upplýsingar um Bandaríkjamarkaðinn. Sett var upp umboðsmanna- og dreifikerfi fyrir sölu á vörumerki Sölustofnunar lagmetis, Iceland Waters, og ný sambönd við einkamerkisfyrirtæki náðust. Þrátt fyrir þann ávinning tókst ekki að ná fullnægjandi veltu og tók stjórn Sölustofnunar lagmetis ákvörðun um það á miðju ári 1979 að loka söluskrifstofunni í lok síðasta árs. Heildarvelta fyrirtækisins frá upphafi til ársloka 1979 er tæpar 3 millj. dollara, en rekstrarhalli, sem að stórum hluta ætti frekar að kallast stofnkostnaður, áætlast sama tíma bil tæpir 400 þús. dollarar. Þetta stofnkostnaðarfé hefur verið yfirfært úr Þróunarsjóði eftir þörfum og þá á mismunandi gengi. Nú standa yfir samningaviðræður um að nýta þá viðskiptalegu hagsmuni, er unnist hafa með rekstri söluskrifstofu Sölustofnunar lagmetis.

Um er að ræða að tryggja, að við haldist sölusambönd, umboðsmannakerfi og fleiri markaðsatriði, með samstarfssamningi án beinnar fjárhagslegrar áhættu fyrir Sölustofnun lagmetis. Ég get bætt því við, að ég hef fengið munnlegar upplýsingar nú nýverið frá stjórnarformanni Sölustofnunar lagmetis, Heimi Hannessyni lögmanni, um það, að frá þessum samningum hafi nú verið gengið og að hans mati á viðunandi hátt.

4. fsp.: „Hverjar voru skuldir söluskrifstofu Sölustofnunar lagmetis í New York, þegar henni var lokað, og hvernig verða þær greiddar?“

Svar: Endanlegt uppgjör 31. des. 1979 fyrir Iceland Waters Industries Ltd. liggur ekki fyrir, en samkv. bráðabirgðatölum er óyfirfært frá Íslandi af rekstrarhalla 60 þús. dollarar, sem er þá skuld fyrirtækisins um áramótin og verður gerð upp á þessu ári.

5. fsp.: „Hver var kostnaður af starfsemi Sölustofnunar lagmetis á árinu 1979 og tekjur stofnunarinnar það ár og hver er fjárhagsstaða hennar nú?“

Svar: Samkv. bráðabirgðatölum voru heildargjöld Sölustofnunar lagmetis 128 millj. kr., en tekjur 111 millj. kr., þannig að áætlað rekstrartap er 17 millj. kr. fyrir árið 1979. Greiðslufjárstaða er lakari en æskilegt er, og mun eiginfjárstaða fyrirtækisins væntanlega vera neikvæð um 7 millj. kr í lok árs 1979. Eiginfjárstaða Þróunarsjóðs í lok sama tímabils er hins vegar mun betri eða 250 millj. kr.

6. fsp.: „Hverjar hafa verið tekjur Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins þau ár sem hann hefur starfað, hvernig greinast þær eftir útflutningsþáttum og hvernig hefur sjóðseign verið ráðstafað eftir árum?“

Svar: Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins starfar samkv. áðurnefndum lögum og er hlutverk sjóðsins að efla lagmetisiðnaðinn, m.a. með því að stuðla að tæknilegri uppbyggingu iðnaðarins, þróun vinnsluaðferða og vörutegunda og markaðsöflun erlendis.

Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins hefur haft tekjur af útflutningsgjöldum saltaðra grásleppuhrogna og útflutningsgjöldum lagmetis, og átti sú ráðstöfun að gilda hið sama 5 ára tímabil og ríkisstyrks naut við. Lögin voru síðan framlengd um 3 ár, ákvæði um ríkisstyrk voru ekki framlengd en Þróunarsjóði tryggðar tekjur í 3 ár til viðbótar.

Samkv. hinum endurskoðuðu lögum hefur Þróunarsjóður tekjur af þrennu:

1) 1% útflutningsgjald af lagmeti.

2) 2% útflutningsgjald af söltuðum grásleppuhrognum.

3) 3% útflutningsgjald af frystum og söltuðum matarhrognum.

Tekjur Þróunarsjóðs til ársloka 1979 hafa verið sem hér segir: Lagmeti 84 millj. 362 þús. kr. Er það 25% af tekjum sjóðsins. Söltuð grásleppuhrogn 200 millj. 677 þús. kr. Eru það 58% af tekjum. Þorskhrogn og matarhrogn 57 millj. 840 þús. kr. eða 17% af tekjum sjóðsins. Samtals eru þetta tekjur sem nema 342 millj. 879 þús. kr.

Fyrsta heila starfsár Þróunarsjóðsins, þ.e. árið 1973, fór að miklu leyti í það að fá yfirsýn yfir brýnustu verkefnin og skipuleggja framkvæmd þeirra. Helsta verkefni sjóðsins til þessa hefur verið vöruþróun. Þá hefur sjóðurinn einnig annast hönnun umbúða, merktra sameiginlegu vörumerki samtakanna, svo og gerð margvíslegs kynningarefnis. Hann hefur styrkt verksmiðjur til ýmiss konar tilraunastarfs, veitt fé til hagræðingarathugana, upplýsingasöfnunar og ýmislegs er iðnaðinn varðar. Þá veitti hann fé til stofnunar söluskrifstofu í Bandaríkjunum sem áður greinir. Sjóðurinn hefur greitt laun sérmenntaðra starfsmanna sinna.

Erfitt er að meta árangurinn af því starfi sem þegar hefur verið unnið á vegum sjóðsins, enda eru þróunarverkefni oft vanþakklátt verk þar sem árangurinn er vandmetinn og kemur að jafnaði ekki strax í ljós. Íslendingar verja tiltölulega minna fé til slíkra rannsóknarstarfa en nágrannar þeirra.

Ráðstöfun tekna Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins árin 1972–1979 hefur verið sem hér greinir í eftirtalin verkefni:

1) Tímabundin markaðsverkefni 22 millj. 77 þús. kr., til söluskrifstofu í Bandaríkjunum 71 millj. 983 þús. Samtals í markaðsverkefni 94 millj. 60 þús. kr.

2) Þróun nýrra vörutegunda að upphæð 28 millj. 783 þús. kr.

3) Hönnun nýrra umbúða og gerð vörumerkis 13 millj. 567 þús. kr.

4) Styrkir til framleiðenda 9 millj. 250 þús. kr., ráðgjöf og hagræðingarverkefni 3 millj. 374 þús. kr. Samtals í slík verkefni 12 millj. 621 þús. kr.

5) Laun sérmenntaðs starfsfólks að upphæð 36 millj. 935 þús. kr., skrifstofu- og stjórnarkostnaður 10 millj. 384 þús. kr. Samtals í slík verkefni 47 millj. 319 þús. kr. Útgjöld eru því samtals 196 millj. 350 þús.

7. fsp.: „Hvers vegna hafa lagmetisiðjur, sem ekki eru í Sölustofnun lagmetis, ekki haft möguleika á að njóta styrks úr Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins?“

Svar: Samkv. upphaflegri reglugerð Þróunarsjóðs frá 27. apríl 1973 má einungis veita fjárframlög til aðila Sölustofnunar lagmetis, en hins vegar hefur aldrei á það reynt að aðilar utan samtakanna hafi sótt um styrk. Telja verður að það samræmist fullkomlega markmiðum sölusamtakanna að hafa slík ákvæði í reglugerð Þróunarsjóðs, enda hvetur það nýjar verksmiðjur til þátttöku í samtökunum. Jafnljóst er og, að ef um er að ræða hagsmunamál iðnaðarins í heild, stæði ekki á stuðningi Þróunarsjóðs, hverjir svo sem aðstandendur styrkumsóknar væru.

8. og 9. fsp. verður svarað í sameiningu, en þær eru svo hljóðandi: „Hvert var heildartjón aðildarverksmiðja Sölustofnunar lagmetis vegna gallaðra vörusendinga á tímabilinu 1978–1979 og hvernig hafa greiðslur slíkra skaðabótakrafna verið fjármagnaðar?“ — Hve margar kvartanir hafa borist um gallaðar vörusendingar á tímabilinu 1977–1979 og frá hverjum hafa þær borist?"

Svör: Ekki er kleift að gefa yfirlit yfir fjölda kvartana eða heildartjón aðildarverksmiðja Sölustofnunar lagmetis 1978–1979. Til þess telur Sölustofnun lagmetis sig hafa mjög takmarkaða aðstöðu og er hér um að ræða mál er varðar hvert einstakt fyrirtæki þó það snerti heildarhagsmuni. Hvert einstakt fyrirtæki ber fjárhagslega ábyrgð framleiðslu sinnar. Almennt orðað hafa kvartanir þær, sem upp hafa komið á árinu, ekki verið margar né stórar og málin leysts á fullkomlega viðskiptalegan hátt hverju sinni fyrir báða aðila.

Eina stóra vandamálið, sem upp hefur komið, er kvörtun frá Sovétríkjunum vegna gaffalbita í upphafi árs 1979. Það mál var leyst með beinum samningum framleiðenda og seljanda annars vegar og kaupanda hins vegar. Setti framleiðandinn að fullu á sinn reikning þann kostnað,130 millj. kr., er kaupandinn taldi sig hafa orðið fyrir, og á það raunar einnig við um öll hin smærri tilfelli. Því er við að bæta, að varðandi Lagmetisiðjuna Siglósíld á Siglufirði, sem er ríkisfyrirtæki og varð fyrir hnekki af völdum þessa tjónamáls frá umræddu fyrirtæki á Akureyri, þá var um það tekin ákvörðun að bæta þeirri verksmiðju það beina tjón sem hún hafði orðið fyrir. Tengist það mál fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár.

Í árslok 1979 kom kvörtun frá umboðsmanni Sölustofnunar lagmetis í Þýskalandi varðandi niðursoðna rækju. Taldi umboðsmaðurinn gæði vörunnar ekki vera samkv. samningum eða gæðin a.m.k. umdeilanleg. Samningar um það efni eru nú á lokastigi, en ljóst er að beint markaðstjón hefur ekki orðið að mati viðkomandi fyrirtækis.

Óhöpp og tjón, sem lagmetisiðnaðurinn hefur orðið fyrir á undanförnum árum og fyrirspyrjandi vék hér að, hafa vissulega dregið verulega úr bjartsýnustu vonum um skjóta uppbyggingu þessarar iðngreinar. Erfiðleikarnir, sem við er að glíma, eru margvíslegir, smæð heimamarkaðar veitir fyrirtækjum ekki þá kjölfestu sem rennir traustum stoðum undir þessa framleiðslu hjá nágrannaþjóðum. Starfsreynsla og þekking er af skornum skammti og eftirliti hefur vissulega verið ábótavant. Iðnrn. hlutaðist til um það á s.l. ári, eftir að upp komu umrædd tjónamál varðandi gaffalbita sérstaklega, að eftirlitsmál með framleiðslunni yrðu tekin til sérstakrar meðferðar, og nú hefur í samráði við sjútvrn. og eftirlitsstofnanir fiskiðnaðarins og lagmetisiðnaðarins verið endurskoðuð reglugerð um eftirlit, framleiðslu og útflutning á lagmeti. Er sú reglugerð nú tilbúin til útgáfu og verður væntanlega birt mjög fljótlega. En opinbert eftirlit eitt nægir ekki. Auka þarf þekkingu manna við framleiðslu og koma þarf á stöðugu eftirliti í verksmiðjunum sjálfum. Hér er mikið verkefni fyrir vel menntað fólk í matvælafræðum. Fyllri vinnsla sjávarafla hefur e.t.v. aldrei verið eins brýn og einmitt þú og lagmetisiðnaðurinn kemur vissulega inn í þá mynd og þau verkefni sem þar blasa við. Til eru markaðir fyrir ýmsar þær vörutegundir sem lagmetisiðnaðurinn framleiðir. Nægir að minnast á lifur og rækju, en gæði framleiðslunnar verða að vera í fyrirrúmi. Endurskipulagning og endurbætur í lagmetisiðnaði verða að taka mið af því.

Herra forseti. Ég tel þessum fsp. svarað þó að fara mætti mörgum fleiri orðum um þetta efni og stöðu lagmetisiðnaðarins almennt. Þar er þörf á þróunarátaki, og iðnrn. mun fyrir sitt leyti vinna að því að kanna bæði vandamál og möguleika þessarar iðngreinar á næstunni.