11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

74. mál, Sölustofnun lagmetis

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör, sem hann flutti hér og voru undirbúin, eins og hann gat um, í tíð fyrrv. iðnrh. En því er ekki að leyna, að mér hefði þótt æskilegt að svörin hefðu verið ítarlegri og nákvæmari varðandi ýmsa efnisþætti. T.d. kom ekki fram hver hefði í raun og veru tekið þá ákvörðun, að hið opinbera fyrirtæki samkv. eignarhlutdeild, Norðurstjarnan í Hafnarfirði, ákveður að segja sig úr sölustofnun lagmetis. Þótt núv. stjórnendur Sölustofnunar lagmetis meti það, að sú uppsögn muni ekki koma til framkvæmda í raun, þá er það aðeins þeirra mat. Mér finnst á engan hátt hafa verið nægilega upplýst, hvernig þessi ákvarðanataka um Norðurstjörnuna hefur átt sér stað og hverjir hafa markað þar hina opinberu stefnu.

Í öðru lagi finnst mér skorta á nákvæmari upplýsingar varðandi aðra spurninguna, um skiptingu fjármagns milli markaðsöflunar og sölustarfsemi, sem sérstaklega var spurt um. Enn fremur skortir á að svarað sé hvernig menn hyggist greiða það tap sem hefur orðið vegna söluskrifstofu stofnunarinnar í New York. Það komu upplýsingar um hver áætlaður halli væri, en ekki var upplýst hvernig eða hverjir ættu að standa straum af því að greiða hann. Í því sambandi held ég að það sé óeðlilegt, eins og reyndar kom fram síðar í svari hæstv. ráðh. að væri reyndin, að fjölmargir útflutningsaðilar á þessu sviði greiða gjald til Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins, sem síðan er notaður til að fjármagna þessa söluskrifstofu sem starfar fyrst og fremst í þágu þeirra fáu fyrirtækja sem eru í Sölustofnun lagmetis, en alls ekki í þágu þeirra fjölmörgu fyrirtækja og útflutningsaðila sem greiða til sjóðsins. Það er algjörlega óeðlileg skipan og getur ekki verið til frambúðar, að fjölmargir aðilar séu knúnir til þess að greiða í Þróunarsjóð tiltekinnar útflutningsgreinar, en hafi síðan enga möguleika til að hljóta styrki og greiðslur úr sjóðnum nema þeir gangi í Sölustofnun lagmetis, sem þar að auki virðist nú vera að fækka fyrirtækjum í. Ég vil þess vegna við þetta tækifæri skora á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því — og óska eftir upplýsingum hvort hann sé reiðubúinn til þess — að starfsemi Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins verði algjörlega endurskipulögð og þá helst á þann veg, að allir þeir aðilar, sem greiða í sjóðinn, hafi möguleika til þess að fá þaðan styrki án nokkurra frekari skilyrða en almennra skilyrða um að fjármagnið komi að notum við að efla útflutning þessara vörutegunda.

Það alvarlegasta í svörum hæstv. ráðh. fannst mér hins vegar vera það, að samkv. þeim svörum virðist enginn aðili hafa yfirlit yfir þær erlendu kvartanir sem borist hafa vegna gallaðrar framleiðslu Íslendinga á þessu sviði. Þrátt fyrir það, að hér starfar sérstök sölustofnun, og þrátt fyrir starfsemi ráðuneyta á þessu sviði og eftirlitsstofnana er enginn sem getur upplýst það, hve margar kvartanir hafi borist, hvers eðlis eða frá hverjum. Við höfum enga heildarsýn yfir það, hve alvarlega þessum málum kann að vera komið. Við búum þrátt fyrir þessi svör við það, að þær margvíslegu blaðafregnir, sem ég vék að hér í upphafi míns máls, standa eftir óhaggaðar. Þær hafa falið í sér miklu alvarlegri tíðindi um gallaða framleiðslustarfsemi á þessu sviði heldur en vikið var að í þeim svörum sem hæstv. ráðh. flutti. Ég held að það sé mjög brýnt að taka starfsemi Sölustofnunarinnar til endurskoðunar og eftirlitsstarfsemina alla, og mér er til efs að þær breytingar, sem vikið var að í svörum hæstv. ráðh., dugi.

Að lokum vil ég bæta því við, að það eru þrír þættir sem mér sýnist fyrst og fremst þurfa að taka á í þessu máli. Það er í fyrsta lagi sú endurskoðun á starfsemi Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins sem ég hef þegar vikið að. Það er í öðru lagi upplýsingastarfsemi og eftirlit með gölluðum útflutningi og yfirlit yfir þær kvartanir sem kunna að berast. Í þriðja lagi vil ég svo endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að meðan Sölustofnun lagmetisiðnaðarins er jafnveikburða og raun ber vitni sé nauðsynlegt að breyta þeim ákvæðum í lögum um stofnunina sem veita henni einkaleyfi til útflutnings á þeim markaðssvæðum þar sem ríkið eða opinberar stofnanir annast einar gerð viðskiptasamninga. Ég held að það sé óeðlilegt, miðað við núverandi aðstæður, að við bindum slíkan útflutningsrétt við stofnun af þessu tagi og þau fyrirtæki sem hana mynda. Þar til stofnunin hefur fengið sterkari sess held ég að nauðsynlegt sé að við leyfum öllum þeim, sem hafa á annað borð möguleika til þess að flytja út íslenskt lagmeti til þessara landa eða annarra, að stunda þá útflutningsstarfsemi. Það er fullkomlega óeðlilegt að með lögum um þessa stofnun sé þannig verið að loka fyrir þessa möguleika. Ég skora því á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir endurskoðun laganna um Sölustofnun lagmetis til þess að hægt sé að efla útflutning þessara vörutegunda án þess að erfiðleikar í starfsemi stofnunarinnar sjálfrar séu þar hindrun í vegi.