11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

74. mál, Sölustofnun lagmetis

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð þar sem þingsköp leyfa ekki viðamiklar umræður um svona flókið mál í fyrirspurnatíma.

Ég vil taka undir og staðfesta það sem hæstv. ráðh. sagði, að þessi uppgjörsmál Þróunarsjóðs og Sölustofnunar lagmetis voru til athugunar í fyrra og þau hafa verið leyst í samráði milli þessara þriggja aðila: iðnrn., ríkisendurskoðunar og stjórnar Sölustofnunar lagmetis, þannig að ég hygg að þar séu allir sáttir.

Ég vil aðeins gera örstuttar athugasemdir við það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Hann taldi að verðmætisaukning væri lítil í lagmeti á hráefni. Þetta er ekki rétt. Verðmætisaukning á hráefni er oft á milli tvö- og þreföld í lagmeti. t.d. í gaffalbitunum er um að ræða tvö- eða þreföldun á verði síldarinnar ef hún væri flutt út í tunnum. Þarna er því um að ræða allverulegt mál. (Gripið fram í: Það haggar ekki því sem ég var að segja.) „Nei, ég er ekki að segja það. Ég er bara að benda á þetta í framhaldi af því sem þú sagðir.

Í sambandi við það sem sagt var hér um ákvörðun Norðurstjörnunnar, þá er það rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að stjórn Norðurstjörnunnar byggir úrsögn sína á óvissu á Bandaríkjamarkaði. Ég vil í því sambandi skýra frá því, að þegar ég tók við stjórnarformannsstöðu í þessu fyrirtæki voru 4 millj. dósa óseldar frá þessari verksmiðju og höfðu verið óseldar í marga mánuði, ef ekki ár, af framleiðslu hennar, og hún var lokuð. Þá hefði stjórn Norðurstjörnunnar, held ég, frekar átt að segja sig úr Sölustofnuninni vegna óvissu um sölu á Bandaríkjamarkaði.

Að lokum aðeins þetta um lagabreytingar. Við höfum um nokkurra mánaða skeið verið að endurskoða lögin um Sölustofnun lagmetis. Þau komu hér til endurskoðunar á Alþ. fyrir rúmum tveimur árum, og þá voru sett ákvæðin um Þróunarsjóð sem hv. þm. Ólafur Ragnar hefur mikið við að athuga núna. Þau voru sett hér á hinu háa Alþingi. Þessi lög hafa verið í endurskoðun að undanförnu, og ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um það, að þau þurfa endurskoðunar við í samræmi við reynsluna. En ég vil leggja áherslu á það sem kom fram í hans máli, að ég bið menn að íhuga hvort það sé rétt stefna að við förum að láta einstaka lagmetisframleiðendur bjóða vöru sína þar sem einn kaupandi er fyrir. Mundi það t.d. auðvelda okkur fisksölu til Sovétríkjanna ef einstök hraðfrystihús byðu fisk þangað? Ég held að menn þurfi að íhuga hvað þeir eru að gera í þessum efnum, og ég þekki ekkert land sem þannig stendur að sölumálum til þessara landa þar sem einn kaupandi er.