17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

116. mál, fjárlög 1980

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þær umr., sem hér hafa staðið í dag, hafa gengið nokkuð vítt og breitt eins og eðlilegt er, og m.a. hefur hér komið til tals hin bláa bók ríkisstj., stjórnarsáttmáli núv. stjórnarflokka. Þegar hv. 1. þm. Reykn. vekur athygli á því, að hæstv. forsrh. hefur vanrækt að kynna þetta plagg með eðlilegum hætti fyrir þjóðinni með því að stofna til útvarpsumræðna, þá stendur hæstv. forsrh. hér upp og bregður fyrir sig vafasömum lögskýringum sér til afsökunar. En margt er nú breytt frá því sem áður var, því eitt sinn var það svo að hæstv. forsrh. bar ekki kinnroða fyrir bláum bókum sem hann bar ábyrgð á, þvert á móti.

Hv. 1. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Norðurl. e. hafa rætt almennt um fjárlagafrv., sem hér er til umr., og skýrt eðli þess og hvers má vænta um árangur af slíku frv. þegar samþykkt verður og að lögum verður orðið. Ég sé ekki ástæðu til nú að fara að ræða frv. á sama grundvelli, og síst af öllu vil ég fara að endurtaka eitthvað af því sem þessir hv. þm. hafa sagt. Ég mun því bregða á það ráð að ræða aðeins eitt atriði, en það er þess eðlis að ég hygg að það sé lærdómsríkt að athuga það mál. En það er eina málið, sem segir um í bláu bók hæstv. ríkisstjórnar að þurfi að leggja, eins og það er orðað, sérstaka áherslu á. Þetta eru orkumálin. Og ef við víkjum nokkrum orðum að orkumálunum, þá verður ekki sagt, með tilliti til þess sem stendur í stjórnarsáttmálanum, að ráðist sé á garðinn þar sem hann er lægstur, því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. stendur að sérstök áhersla verði lögð á aðgerðir í orkumálunum.

Ég mun nú víkja að þýðingarmiklum þætti í orkumálunum, þar sem er það fjármagn sem Orkusjóði er ættað. Í júní 1979 gerði orkuráð fjárlagatillögur sínar fyrir Orkusjóð árið 1980. Hér var um að ræða till. um fjármögnun sveitarafvæðingar, styrkingar dreifikerfa rafmagns í sveitum, jarðhitaleitar og hitaveituframkvæmda. Að gefnu tilefni samþykkti orkuráð 7. febr. s.l. að beina því til iðnrh., að hann beitti sér fyrir því, að till. þær um fjárframlög í Orkusjóð á árinu 1980, sem fram höfðu komið í fjárlagafrv. í okt. 1979, Tómasarfrv., og í des. 1979. Sighvatsfrv., yrðu teknar til endurskoðunar og þeim breytt í samræmi við till. orkuráðs á fundi þess 1. júní 1979, sem sendar höfðu verið iðnrn. með bréfi, dags. 19. júní 1979.

Þessi tilmæli orkuráðs hafa nú verið virt að vettugi með fjárlagafrv. því sem hér liggur fyrir. En hvað er nú hér að ske? Það er þess virði að við athugum það nokkru nánar. Till. orkuráðs í júní s.l. gerði ráð fyrir 800 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til sveitarafvæðingar, en frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir 415 millj. kr. lántöku til sveitarafvæðingar. Till. orkuráðs gerði ráð fyrir 1700 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til styrkingar dreifikerfa rafmagns í sveitum landsins, en frv. þetta gerir ráð fyrir 800 millj. kr. lántöku í þessu skyni. Till. orkuráðs var um 900 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til jarðhitaleitar, en frv. þetta gerir ráð fyrir 600 millj. kr. lántöku til jarðhitaleitar. Þá gerði till. orkuráðs ráð fyrir 2000 millj. kr. lántöku til hitaveituframkvæmda, en frv. þetta gerir ráð fyrir 500 millj. kr. lántöku til hitaveituframkvæmda.

Till. orkuráðs um þessa fjármögnun Orkusjóðs nam samtals 5.400 millj. kr., en frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir til sömu hluta 2.315 millj. kr. eða nær 50% minna. Í till. orkuráðs skyldu 3.400 millj. kr. vera framlag úr ríkissjóði, en 2 þús. millj. kr. aflað með lántöku, en ekkert af því fjármagni, sem ætlað er samkv. þessu frv. til þessara hluta, á að koma úr ríkissjóði, heldur skal þess alls aflað með lántöku, að upphæð 2315 millj. kr.

Samkv. frv. þessu er Orkusjóði ætlað að taka lán sem síðan skal ráðstafað sem óafturkræfum framlögum. Slíkt er óhæf ráðstöfun og ábyrgðarlaus gagnvart Orkusjóði.

Hin sérstaka áhersla, sem ríkisstj. leggur á aðgerðir í orkumálum, kemur vissulega fram með sérstökum hætti í þessum efnum. Ríkisstj. sker niður um nær 50% till. orkuráðs, í stað þess að það hefði þurft að hækka þær um 50% vegna hækkunar verðlags sem hefur orðið frá því í júní s.l., svo að þær héldu því framkvæmdamagni sem þá var gert ráð fyrir.

Ég skal nú víkja lítið eitt nánar að þessu. Till. orkuráðs fyrir árið 1980 voru við það miðaðar, að í ár verði tengd samveitum öll sveitabýli þar sem kostnaður við lagningu er minni en sem svarar 6 km eins vírs línu að meðaltali á hvert býli. Þetta er áætlað að kosti um 600 millj. kr. Hér er alls um að ræða um 40 býli. Að auki var lagt til að 200 millj. kr. yrði varið í viðbætur við eldri veitur, þ.e. tengingu nýrra notenda á svæðum sem þegar eru rafvædd. Ekki má dragast lengur að tengja samveitum þau fáu býli sem eftir eru og talið er rétt að tengja á annað borð. Bið þess fólks, sem þar býr, eftir rafmagni er þegar orðin allt of löng. Átakið, sem eftir er í rafvæðingu sveitanna, er svo lítið, að ekki er áhorfsmál að það á að ljúka því á einu ári.

Orkuráð gerði hinn 1. mars 1979 samþykkt um átta ára áætlun um endurnýjun rafdreifikerfis í sveitum landsins. Þar var lagt til við iðnrh., að varið yrði árlega á næstu átta árum frá og með 1980 fjárhæð, sem að framkvæmdamætti jafngilti 1100 millj. kr. á verðlagi í byrjun árs 1979, til styrkingar dreifikerfa í sveitum. 1 samræmi við þessa samþykkt orkuráðs lagði ráðið til að á árinu 1980 yrði varið 1700 millj. kr. í þessu skyni. Að höfðu samráði við Rafmagnsveitur ríkisins var áætlað að sú fjárhæð hefði 1980 sama framkvæmdamátt og 1100 millj. kr. höfðu í byrjun árs 1979.

Í fjárlagafrv. því sem hér er til umr., er þessi fjárhæð lækkuð um 900 millj. kr. eða í 800 millj. kr. og þar að auki gert ráð fyrir þessum 800 millj. kr. sem lánsfé, en ekki óafturkræfu framlagi eins og orkuráð lagði til. Styrking dreifikerfis í sveitum er forsenda þess, að unnt sé að dreifa raforku þar er nægi til fullrar hitunar, svo að leggja megi niður hitun með olíu. Hvarvetna í þéttbýti eru hitaveituframkvæmdir nú í gangi eða í undirbúningi, þar sem jarðhiti er á annað borð fáanlegur, en annars staðar ýmist fjarvarmaveitur eða styrking dreifikerfis rafmagns fyrir raforku, sem gerir rafhitun mögulega. Átta ára áætlunin er hliðstæð framkvæmd í strjálbýlinu, og augljóst er að olíuhitun helst þar löngu eftir að henni er hætt í þéttbýlinu, ef einungis á að verja 800 millj. kr. til þessara mála á árinu.

Að mati orkuráðs voru átta ár í rauninni hámark þess tíma sem ætla mætti til að styrkja rafdreifikerfi sveitanna. Niðurskurður úr 1700 millj. kr. á ári táknar að öðru jöfnu að framkvæmdatími lengist úr 8 árum í 17 ár. Þetta er með öllu óviðunandi. Það verður ekki hjá því komist að ljúka verki þessu það snemma að strjálbýlið þurfi ekki að búa við olíuhitun löngu eftir að þéttbýlið hefur tekið innlenda orku í notkun til upphitunar húsa.

Í fjárlagafrv. þessu er gert ráð fyrir að Orkusjóður verði látinn taka 800 millj. kr. að láni, í stað þess að till. orkuráðs gerðu ráð fyrir 1700 millj. kr. óafturkræfu framlagi úr ríkissjóði. Er þá gert ráð fyrir að í þessu efni sé farin hin sama leið og farin hefur verið við hina eiginlegu sveitarafvæðingu, að ekki sé um annað að ræða en að fjármagna styrkingu dreifikerfisins með óafturkræfum framlögum. Orkusjóði er því ekki fært að taka lán í þessu skyni. Honum er ekki fært að ráðstaf slíku fé sem óafturkræfu framlagi. Ekkert dugar því í þessum efnum annað en beint óafturkræft framlag úr ríkissjóði.

Mikil verkefni eru fyrir hendi í jarðhitaleit. Fjármagn hefur skort til jarðborana. Upphitunarkostnaður með olíu er nú slíkur, að það er nánast þjóðhagslega fásinna að láta fjármagn vera flöskuháls í leit að jarðhita til húshitunar. Þarf ekki að rökstyðja slíkt með mörgum orðum. Þess vegna eru till. orkuráðs um fjármagn til jarðhitaleitar árið 1980 við það miðaðar, að unnt sé að sinna öllum þeim verkefnum sem jarðborar ríkisins komast yfir.

Í samræmi við þetta sjónarmið lagði orkuráð til, að á árinu 1980 væri 900 millj. kr, varið til jarðhitaleitar. Af þessum 900 millj. kr. var gert ráð fyrir að 150 millj. kr. færu til að bora rannsóknarholur á norðanverðu Snæfellsnesi, í grennd við Ísafjörð og víðar um vestanvert landið. Talið er aðkallandi að leita af sér allan grun um nýtanlegan jarðhita á þessum slóðum áður en endanleg stefna er mörkuð í húshitunarmálum þéttbýlisstaðanna þarna. Jarðhitadeild Orkustofnunar hefur tekið slíka almenna jarðhitaleit, þ. á m. hitastigulsboranir, með í fjárlagatillögum sínum undanfarin ár. Könnunarboranir á ofangreindum stöðum voru einnig með í till. hennar fyrir 1980, en voru skornar niður. Er því mikilvægt að fé til þeirra fáist úr Orkusjóði, enda er e.t v. á margan hátt eðlilegra að slíkt fari um sjóðinn.

Í fjárlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlast til að Orkusjóður fái aðeins 600 millj. kr. til jarðhitaleitar. Þá gerir fjárlagafrv. ráð fyrir að þessi upphæð sé fengin að láni, en í till. orkuráðs var gert ráð fyrir 900 millj. kr. framlagi ríkissjóðs í þessu skyni.

Þó að þessu framlagi sé ráðstafað að miklu leyti í formi lána verða mikil afföll af slíkum lánum þegar jarðboranir bera ekki árangur í heitu vatni, en þá eru lán þessi ekki endurgreidd af lántakendum. Með tilliti til þessa og erfiðrar eigin fjárhagsstöðu Orkusjóðs er mjög mikilvægt að framlög ríkisins til jarðhitaleitar séu óafturkræf framlög úr ríkissjóði.

Eitt meginviðfangsefnið í orkumálum á næstu árum hlýtur að vera að koma upp hitaveitum á þéttbýlisstöðum, hver svo sem orkugjafinn er. Á fjárlögum ársins 1979 voru Orkusjóði ætlaðar 330 millj. kr. til lána til hitaveituframkvæmda. Auk Orkusjóðs var gert ráð fyrir að Lánasjóður sveitarfélaga lánaði til hitaveituframkvæmda, og samkv. lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 var honum og Orkusjóði ætlað að lána samtals 960 millj. kr. Telja verður eðlilegt að öll fjármögnun ríkisins til orkuframkvæmda gangi í gegnum Orkusjóð, en stærstu orkufyrirtækin fjármagni framkvæmdir sínar eftir sem áður með erlendum lánum.

Í fjárlagatillögum orkuráðs fyrir árið 1980 var lagt til að Orkusjóður yfirtæki hluta Lánasjóðs sveitarfélaga í hitaveitulánum, enda hefur sá sjóður ærnum öðrum verkefnum að sinna. Í samræmi við það var lagt til að Orkusjóður fengi 2000 millj. kr. til að lána í hitaveituframkvæmdir árið 1980, eða rúmlega tvöfalda þá fjárhæð sem honum og Lánasjóði sveitarfélaga var ætlað að lána á síðasta ári. En í þessu fjárlagafrv. eru Orkusjóði ætlaðar 500 millj. kr. í þessu skyni, og er augljóst að 500 millj. kr. eru allt of lítið. Það gildir hið sama um hitaveituframkvæmdir og jarðhitaleitina, að það er meiri háttar þjóðhagslegt glappaskot að láta fjárskort tefja það að olía sé leyst af hólmi sem orkugjafi til upphitunar.

Gert er ráð fyrir að tekið verði að láni það fjármagn sem Orkusjóði er ætlað til hitaveituframkvæmda. Er það í samræmi við till. orkuráðs, enda gert ráð fyrir að fjármagn þetta endurláni Orkusjóður.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir till. orkuráðs til fjárlaga um fjármögnun Orkusjóðs og till. þessa frv. um sama efni. Þessi samanburður leiðir í ljós furðulegan hlut. Ef haldið er áfram að kryfja þetta mál til mergjar kemur ekki betra í ljós.

Á árinu 1979 voru Orkusjóði veitt 1325 millj. kr. til þeirra þátta orkumálanna sem hér hafa verið ræddir. Samkv. frv. því, sem við nú ræðum, eru ætlaðar til sömu hluta, eins og ég sagði áður, 2315 millj. kr. Hér er um að ræða hækkun er nemur 990 millj. kr. eða um 74.4% hækkun. Í þessari hækkun felst þá hin sérstaka áhersla sem lögð er á aðgerðir í orkumálum samkv. stjórnarsáttmálanum. Og hvílík áhersla. Um leið nemur t.d. hækkun hreinna ríkisframkvæmda 77.9%, hækkun launagreiðslna hjá ríkinu 77.3%, hækkun almannatrygginga 80.6%, svo eitthvað sé nefnt. Og til endema má það teljast, að samkv. því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er ekki um neitt beint framlag að ræða úr ríkissjóði til Orkusjóðs vegna þeirra þátta orkumálanna sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, — ekki neitt úr ríkissjóði. Þetta er einsdæmi. Slíkt hefur aldrei komið fyrir áður. Og þetta gera sömu menn sem ætla að leggja sérstaka áherslu á þessi mál. Og hér er samt um að ræða fjármagn sem Orkusjóði er ætlað að ráðstafa að mestu sem óafturkræfu framlagi, nema því sem veita skal sem lán vegna hitaveituframkvæmda. Orkusjóði er ætlað að taka lán með þeim vaxtakjörum sem við vitum hver eru nú og afhenda það fé sem óafturkræft framlag.

Þeir þættir orkumálanna, sem hér hafa verið gerðir að umræðuefni, eru þeir þýðingarmestu til þess að vinna að því að olía verði leyst af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsa. Þegar þetta er haft í huga verða menn að líta á það sem hrein öfugmæli sem segir í stjórnarsáttmálunum um þetta efni, þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérstök áhersla verði lögð á aðgerðir í orkumálum, m.a. með það að markmiði að innlendir orkugjafar komi sem fyrst í stað innfluttrar orku og að unnt verði með viðunandi öryggi að tryggja afhendingu orkunnar til notenda.“

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fara fleiri orðum um þetta mál hér. Nú keppast allir og í öllum flokkum um að lýsa mikilvægi þess, að olían sé leyst af hólmi sem orkugjafi til upphitunar húsa. Auðvitað er þetta svo mikilvægt, að það er hafið yfir öll tvímæli. Og hæstv. ríkisstj. segist ætla að leggja sérstaka áherslu á að vinna að þessu.

Þetta mál er tvíþætt. Annars vegar þarf nú þegar að gera ráðstafanir til þess að létta byrðar þeirra sem búa við hinn óhæfilega upphitunarkostnað á olíuhitunarsvæðunum. — Það þarf að gera með því að greiða niður olíuverðið. Hæstv. ríkisstj. fer sér hægt í þessu efni. Það er búið að bíða síðan um miðjan febrúar eftir umsögn frá iðnrh. um frv. sem við fjórir þm. berum fram í Ed., þm. úr öllum flokkum. Það er búið að tilkynna iðnn. Nd. að von sé á þessari umsögn. Það var gert um miðjan febrúar. En sagt var að það væru veikindi í iðnrn. og þar væru miklar annir. Það mætti spyrja: Hvernig er heilsufarið í iðnrn. í dag? Og hvenær verða annirnar svo litlar að húsráðendur þar og ríkisstj. í heild hafi tíma til þess að sinna aðkallandi vandamálum þeirra sem búa við hinn óbærilega upphitunarkostnað? Ég skal ekki fara að ræða þetta. Þetta er önnur hlið þessa máls. Hin hliðin er sú að leysa olíuna af hólmi sem orkugjafa, og það verður ekki gert nema með framkvæmdum. Það þarf að gera með skipulegum, markvissum framkvæmdum. Og það þarf að gera þannig, að þessu verkefni sé lokið — ekki einhvern tíma í framtíðinni, heldur á t.d. fjórum árum, eins og við tíu þm. Sjálfstfl. höfum lagt til með flutningi sérstakrar þáltill, um þetta efni. En hæstv. núv. ríkisstj. gerir heldur ekkert umtalsvert í þessu efni. Hún gerir minna en hefur verið gert áður, eins og ég hef hér rakið. Þetta er mikið áhyggjuefni.

En fyrst það er svo um þá hluti, sem ríkisstj. þykist ætla að leggja sérstaka áherslu á, — og kannske leggur hún sérstaka áherslu á þetta, þó hún geti ekki gert betur, — hvernig halda hv. þm. þá að ríkisstj. geti framkvæmt hlutina á öðrum sviðum og hver haldið þið að verði þar árangurinn af störfum þessarar hæstv. ríkisstj.?