18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

86. mál, hefting landbrots

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. frsm., að hér er um mikilsvert mál að ræða sem ekki hefur verið sinnt nægilega að mínu mati. Ég flutti á s.l. ári till. til breytinga á lögum um varnir gegn heftingu landbrots, og var það samþ., á þá leið, að það væri landgræðslustjóri sem færi með yfirstjórn þessara mála. Mér finnst þetta svo mikilvægt mál, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að það heyri undir landgræðslustjóra eins og önnur slík verkefni. Þetta var gert í svipuðum tilgangi og þessi þáltill. fjallar um, þ.e. að reynt verði að gera sér heildarmynd af því, hvernig ástandið er í þessum málum, þar sem við sjáum víða hvað landið er að eyðast af völdum vatna. Þeir, sem eiga að skipta því fjármagni sem á hverju ári er veitt til þessara mála, eru í miklum vandræðum, þar sem þörfin er ákaflega brýn víða, miðað við það fjármagn sem fyrir hendi er.

Þessi þáltill. gengur sem sagt í sömu átt, þ.e. að menn geri sér grein fyrir því, hvað hér er um stór verkefni að ræða. Þá er þess frekar að vænta, að fjármagn verði veitt til þessa verkefnis í samræmi við þörfina.