19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég er því samþykkur að frv. það, sem hér liggur fyrir og er til 1. umr., um verðjöfnunargjald af raforku, nái fram að ganga fyrir jól og verði lögfest þannig að tekjur af þessu gjaldi verði óskertar á næsta ári eins og til stendur og lagt er til í þessu frv.

Það er sannarlega afar brýnt að jafna þann mikla mun sem er á raforkuverði í landinu. Frv. þetta og lög um verðjöfnunargjald af raforku hafa miðast við að það væri kleift. Hins vegar hefur skort nokkuð á að lögin hafi náð tilgangi sínum á þeim árum sem þau hafa verið í gildi og framlengd frá ári til árs. Verðmunur á raforku á almennum taxta Rafmagnsveitnanna og Rafmagnsveitu Reykjavíkur hins vegar er nú eitthvað milli 53 og 54%. Það er að sjálfsögðu miklu meiri munur en svo, að við það sé unandi, þó að nokkuð hafi dregið úr þessum verðmun frá því sem var á árinu 1978. Þessi verðmunur á raforku er þó hreinir smámunir hjá þeim gífurlega verðmun sem er á upphitunarkostnaði í landinu, annars vegar á hinum svokölluðu olíusvæðum, þar sem menn þurfa að kynda hús sín með hinni dýru olíu, og hins vegar á hitaveitusvæðum, en þessi munur er a.m.k. fimmfaldur og það þótt tekið sé tillit til olíustyrks sem síðasta ríkisstj. hækkaði að raungildi nærri tvöfalt.

Um verðjöfnunargjald af raforku urðu miklar umr. hér í þinginu á síðasta vetri, ekki síst vegna þess að þá var lagt til að gjaldið yrði hækkað um 6%, eða úr 13% í 19%. Það var þá skilyrt að tekjur af þeirri viðbót færu alfarið í að draga úr verðmun á almennum töxtum, en gengju ekki í almennan rekstur Ratmagnsveitnanna, þar sem óvissa kynni að rík ja um að gjaldið yrði notað til þess að draga úr verðmun. Þessi hækkun verðjöfnunargjaldsins var liður í viðleitni síðustu ríkisstj. til að jafna raforkuverð, eins og tilskilið var í stjórnarsáttmála, en sú ríkisstj. hafði ýmis önnur áform til þess að ná fram því verðjöfnunarmarkmiði og þ. á m. að ná fram stofnun á einu raforkuöflunarfyrirtæki, nýrri landsvirkjun. Einnig var þá lagt til, og lá fyrir þegar frv. var flutt um verðjöfnunargjald af raforku í des. 1978, að sá háttur yrði upp tekinn að ríkissjóður legði Rafmagnsveitunum til eigið fjárframlag, en það hafði ekki gerst þá um langt árabil. Þegar ég mælti fyrir sams konar frv. í des. 1978 treysti ég því, að till. um 600 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til Rafmagnsveitnanna næði fram að ganga. Upp kom í þáv. ríkisstj. nokkur ágreiningur um þetta mál, þar sem fram kom andstaða hjá þáv. fjmrh. við að taka þetta framlag inn að fullu á því ári, og það var ekki fyrr en við afgreiðslu lánsfjáráætlunar hér í þinginu, þegar komið var fram undir vor, að samþykkt var með meiri hl. atkv. að svo skyldi gert. Þetta ásamt hækkun verðjöfnunargjaldsins varð til þess að unnt var að draga úr þeim verðmun, sem ég gat um áðan, og lækka hann úr 88% í 53.5%.

Ástæðurnar fyrir bágri fjárhagsstöðu Rafmagnsveitnanna eru fleiri en ein. Hæstv. iðnrh. hefur hér getið um meginástæðuna, sem er sú, að Rafmagnsveitunum hefur á umliðnum árum verið gert að ráðast í óarðbærar framkvæmdir í stórum stíl og að fjármagna þær nær einvörðungu með óhagstæðum lánum. Ef ég man rétt, er gert ráð fyrir að vextir og afborganir af lánum Rafmagnsveitnanna nemi um 11/2 milljarði kr. á næsta ári, og því hafa Rafmagnsveiturnar verið neyddar til þess af eiganda sínum, ríkissjóði, að afla tekna að hluta til með óhóflega háum gjaldskrám, auk árvissra erfiðleika varðandi fjármögnun þeirra framkvæmda sem þeim hefur af Alþ. verið gert að ráðast í. Auk þeirrar byrði, sem lögð er á viðskiptavini Rafmagnsveitnanna, hefur þetta leitt til að framkvæmdir, sem Rafmagnsveiturnar hafa staðið fyrir, hafa verið í óvissu. Þær hafa orðið kostnaðarsamari fyrir bragðið og af því leitt margháttað óhagræði.

Af hálfu Alþb. var í síðustu ríkisstj. lögð á það rík áhersla að snúið yrði við blaðinu varðandi fjármögnun Rafmagnsveitnanna. Tókst um það samkomulag í síðustu ríkisstj. við undirbúning fjárlaga á síðasta hausti að þarna yrði breytt verulega og róttækt um stefnu á þann hátt að ríkissjóður stæði frá og með árinu 1980 að fullu undir félagslegum framkvæmdum sem Alþ. ákvæði hverju sinni að Rafmagnsveiturnar skyldu ráðast í.

Það var mat stjórnar Rafmagnsveitnanna að af þeim framkvæmdum, sem hún gerði till. um á s.l. vori að Rafmagnsveiturnar tækju að sér, væru um 60% félagslegs eðlis og mundi ekki skila arði. Þetta hefði þýtt, ef þessi stefna hefði náð fram að ganga, sem ég raunar vona að verði þrátt fyrir óvissu sem nú ríkir, að þá hefði ríkissjóður þurft að leggja Rafmagnsveitum ríkisins til um 21/2 milljarð kr. af þeim 4000 millj. sem gert var ráð fyrir að varið yrði til framkvæmda á vegum Rafmagnsveitnanna.

Um það tókst sem sagt samkomulag í síðustu ríkisstj. að ríkissjóður tæki þetta á sig, en í fjárlagafrv. þáv. fjmrh., Tómasar Árnasonar, var þó aðeins gert ráð fyrir 1000 millj. kr. framlagi í þessu skyni, en jafnframt gert ráð fyrir að starfshópur fjárlaga- og hagsýslustofnunar, iðnrn. og Rafmagnsveitnanna færi yfir málin og legði mat á þetta nánar og gerði sínar till. til fjvn. og Alþ. til að framfylgja þessari stefnumörkun, sem ég gat um, og að hún endurspeglaðist í endanlegri fjárlagagerð fyrir árið 1980.

Ég vænti þess, að við þessa stefnumörkun verði staðið þegar um fjárlög verður fjallað og þau afgreidd. Öðruvísi er ekki hægt að snúa frá~þeirri óheillaþróun, sem verið hefur í þessum málum, og tryggja viðskiptavinum Rafmagnsveitnanna sanngjarnt raforkuverð sem þeir eiga heimtingu á.

Það eru mér vonbrigði, að ég sé ekki betur en í því fjárlagafrv., sem hér var lagt á borð hv. þdm. fyrir nokkrum dögum. hafi framlag ríkissjóðs til Rafmagnsveitanna verði lækkað úr 1000 millj. kr. í 400 millj. kr. Ég les þetta út úr fjárlagafrv. og vænti að það verði leiðrétt ef þarna er rangt með farið, því að þetta væri sannarlega veruleg öfugþróun. Og ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort ekki megi treysta því, að núv. ríkisstj. standi fast við þá stefnumörkun sem ráðh. Alþfl. stóðu að á s.l. hausti að fram skyldi ganga varðandi fjármögnun framkvæmda Rafmagnsveitnanna.

En í ljósi þeirrar óvissu, sem nú ríkir um þetta mál og ekki verður skorið úr fyrr en af nýrri ríkisstj. eða Alþ. með afgreiðslu fjárlagafrv., finnst mér að orðalag það, sem er í fyrirliggjandi frv., sé ekki nægilega skýrt þar sem talað er um, með leyfi hæstv. forseta, það sem segir í 1. gr.: „Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða.“ Ég tel að hér sé um of óljóst orðalag að ræða og þurfi að kveða skýrt á um að þetta gjald verði notað einvörðungu í því skyni að jafna þann verðmun sem er á almennum töxtum hjá RARIK og raunar einnig hjá Orkubúi Vestfjarða.

Ég hef ekki í máli mínu fjallað sérstaklega um vanda Orkubús Vestfjarða. Hann er á margan hátt hliðstæður vanda RARIKs og ég get vísað til orða minna um erfiðleika þeirra varðandi þann vanda sem Orkubú Vestfjarða á nú við að etja. Hann er m.a. til kominn vegna þeirrar miklu framleiðslu á raforku með olíu sem þar fer fram og mun fara vaxandi uns tekist hefur að tengja Vesturlinu, tengja orkuveitusvæðið á Vestfjörðum við landskerfið. Er augljóst að Orkubú Vestfjarða á við vaxandi erfiðleika að etja.

Ég geri ráð fyrir að flytja í iðnn. þessarar hv. þd. brtt. um orðalagið í þessu frv. til að tekin verði af tvímæli um nýtingu á þessu verðjöfnunargjaldi. Ég treysti því, að það þurfi ekki að verða til að tefja framgang málsins í þessari d. né heldur afgreiðslu þess fyrir jól, vegna þess að það ætti að vera nokkuð sjálfsagt mál að þessu gjaldi yrði varið í því skyni að draga úr verðmismun. Ekki er þó hægt að treysta því á meðan ekki liggur ljóst fyrir hvaða stefna verður ofan á varðandi fjármögnun framkvæmda Rafmagnsveitnanna og úrlausn á þeim mikla vanda sem þær eiga við að etja, þeim mikla fjárhagsvanda sem þar blasir við og hæstv. iðnrh. mun þekkja mörgum öðrum betur.