19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

124. mál, söluskattur

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frsm. fyrir hans ágætu orð áðan. Ég vil taka undir það með báðum síðustu ræðumönnum, hversu gífurlegt óréttlæti ríkir í ýmsum málefnum landsbyggðarinnar. Það hlýtur að koma inn á þetta mál, sem hér er til umr. Þó vil ég aðeins drepa á 1. gr. þessa frv., sem hér er til umr., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vöruflutningar, þar með talinn flutningskostnaður innanlands með vöruflutningabifreiðum, skipum eða flugvélum, sem reiknaður er inn í endanlegt kostnaðarverð vöru. Enn fremur fólksflutningar almennra leigubifreiða á bifreiðastöðum, eftir því sem ráðh. ákveður nánar.“

Ég verð að segja það eins og er, að mér varð ekki fyllilega ljóst alveg strax hvað þarna var átt við. Hins vegar skýrðist það þegar ég las grg. Nú kom það fram í máli hv. flm. frv., að þessi frv.-flutningur er fyrst og fremst gerður í því skyni að koma til móts við landsbyggðarfólkið. En í greininni er ekkert nánar einskorðað hvaða flutningar þetta eru. Samkv. greininni eru það allir flutningar á landinu frá Reykjavík, til Reykjavíkur, milli staða úti á landi, þannig að greinin eða forsendur frv. eru ekki eingöngu þau rök, að verið sé að koma til móts við landsbyggðarfólk. Ég fæ ekki séð að um það sé að ræða eingöngu. Í þessum orðum felst ekki að ég sé á nokkurn hátt að mótmæla frvgr., síður en svo.

Athugum aðeins lögin um söluskatt. Það hefur verið tíundað hér, en það gerir ekkert til þó að það sé endurtekið. — Í 7. gr. eru taldir upp fjöldamargir liðir sem eru undanþegnir söluskatti. Það er 7. gr., en þar stendur:

„Eftirtalin starfsemi og þjónusta er undanþegin söluskatti.“ Ég fer ekki að lesa þá löngu romsu, en í 3. mgr. stendur: „Vöruflutningar, enn fremur fólksflutningar almennra leigubifreiða á bifreiðastöðvum, eftir því sem ráðh. ákveður nánar.“

Í frvgr. er þetta skilgreint nánar.

Í 9. gr. söluskattslaganna segir svo, með leyfi forseta: „Söluskattur miðast við heildarendurgjald eða heildarandvirði vöru, starfsemi og þjónustu án frádráttar nokkurs kostnaðar eða þjónustugjalds, án tillits til þess, í hverju greiðsla er fólgin, og þótt um sé að ræða skipti gegn vöru eða þjónustu. Söluskattur samkv. þessum kafla laganna telst þó ekki með heildarandvirðinu.“

Mér dettur í hug í þessu sambandi, það er aðeins ábending, hvort ekki þurfi að athuga 9. gr. með tilliti til þeirra breytinga sem hér er lagt til að gera á 7. gr. Ég minni aðeins á þetta. Til að þessir hlutir skiljist nákvæmlega hefði ég heldur viljað bæta við greinina, sem hér er um að ræða, eitthvað á þá leið: „Þó skal ekki leggja söluskatt á þann hluta vöruverðs sem stafar af flutningskostnaði innanlands. — Svo má skilgreina þetta nokkru nánar með tilliti til þeirra raka sem færð eru fyrir frv.

Í sambandi við smásöluverslunina vitum við náttúrlega öll að hún á í gífurlegum erfiðleikum. Menn eru búnir að spjalla um þetta fram og aftur mörg undanfarin ár, og ég dreg enga dul á að þar eru mörg vandkvæði. Ég tek t.d. eitt atriði sem er gífurlega stórt hvað það snertir. Það er birgðahaldið, það eru vaxtagjöldin. Þau eru gífurlegur baggi á þessari starfsemi.

Að öðru leyti vil ég leggja áherslu á að að svo miklu leyti sem vöruflutningar eru hluti vöruverðs eigum við að leggja höfuðáherslu á að reyna að skipuleggja flutningana um landið betur en hingað til hefur tekist. Að sjálfsögðu ber að fagna þeirri viðleitni að starfsemi Skipaútgerðar ríkisins skuli vera sinnt með þeim hætti sem gerst hefur allra síðustu ár. Það hefur verið reynt að bæta og skipuleggja þann rekstur á þann veg að hann þjónaði landsbyggðinni betur en áður hefur verið, og að auðvitað hlýtur þessi skipulagsstarfsemi að vera gerð í því skyni að ná vöruverðinu niðúr, eins og ég sagði áðan, með tilliti til þess hversu stór þáttur flutningskostnaður er í vöruverðinu. Skipulagsstarfsemi þyrfti að framkvæma ekki síður í landflutningunum. Þeir eru gífurlega kostnaðarsamir og umfangsmiklir. Ég hygg að það sé því miður enn þá óverulegur hluti af heildarmagninu fluttur með skipum að því er lýtur að þeim flutningi sem við erum að tala um sérstaklega hér. Skipaútgerð ríkisins er náttúrlega rekin sumpart á okkar framfæri allra. Ég sé ekki vit í öðru en að reyna að nýta þá starfsemi til fulls.

Fyrst við erum að tala um flutninga má minna á fólksflutningana sem gerast hér innanlands. Mér finnst alveg furðulegt að maður verður iðulega vitni að því, að hver rútan á eftir annarri fer héðan úr Reykjavík með 10, 15, — 20, manns innanborðs og e.t.v. neðan við það. Svo að ég minni á hluta af kjördæmi hv. flm. þessa frv. í sambandi við fólksflutninga, þá hef ég eiginlega furðað mig á því að fólksflutningar t.d. á Strandir skuli ekki vera skipulagðir þannig að það sé ekið með fólkið í veg fyrir Norðurleið. Þá væri mjög auðvelt að stórfjölga ferðunum t.d. á Strandirnar, svo að dæmi sé tekið um það sem næst er hv. flm. frv. þessa. Þó að þetta mál komi ekki beint inn á það eru þetta hlutir sem ekki er auðvelt að sundurskilja gersamlega.

Varðandi efni frv., að söluskattur verði ekki tekinn af þeim hluta vöruverðs sem má rekja til flutningskostnaðar, vil ég ekki neita því, að það sé framkvæmanlegt. Að sjálfsögðu fer málið til n., og ég vil æskja að það verði athugað, að framkvæmdin á þessu verði athuguð og sömuleiðis hversu miklar fjárhæðir þarna er um að ræða, menn reyni að einhverju leyti að ráða í það. Ekki mun hægt að fá það út nákvæmlega, hygg ég, en að menn reyni að gera sér grein fyrir framkvæmdinni og þeim fjárhæðum sem þar er um að tefla.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, en vænti þess, að áðurnefnd atriði komi til athugunar í nefnd.