19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska eftir því, að þessum umr. verði frestað þangað til boðað frv. fjmrh. um tekju- og eignarskatt verður tekið á dagskrá, svo hægt sé að skoða málið í heild, og að ég fái að ljúka ræðu minni þegar það mál liggur fyrir og búið verður að gera okkur grein fyrir því. Mér finnst það vera fádæma dónaskapur við hið háa Alþingi að hæstv. fjmrh. skuli ýmist boða þingmál í sjónvarpsþætti eða leyfa okkur að heyra stuttan útdrátt úr þeim. Ég sé nú ekki að hann sé einu sinni í d. til þess að hægt sé að spyrja hann frekar út í þetta. Hann talar um að jafnvel standi til að þetta frv. verði lagt fram fyrir helgina og það sé tilbúið í skúffu ráðh. Ég vil þess vegna óska eftir því, að ég fái að slá ræðu minni á frest og ljúka henni þegar hitt frv. hefur verið lagt fram. (Forseti: Það hefur komið fram hér áður, að þingfundi verði frestað kl. 3 og hann hefjist að nýju kl. 4. Ef ræðumaður vill nota tímann til kl. 3 er það að sjálfsögðu æskilegt.) Ég er að biðja um að umr. verði frestað þangað til hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram tekjuskattsfrv. Ætlar hæstv. forseti að synja mér um það? (Forseti: Það er ekki á valdi forseta.) Er ekki á valdi hans að ráða dagskrá hér? Ég hélt að það væri forsetans að ráða henni. Ég held að það sé svo sem allt í lagi að leyfa þinginu að sjá þessar tillögur í samhengi.

Því hefur verið lýst yfir af ýmsum hæstv. ráðh. að í heild muni tekjuskatturinn lækka miðað við s.l. ár. Samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. gaf áðan, er augljóst mál og maður sér það á augabragði að a.m.k. á einstaklingum sem eru með almennar launatekjur, mun skattlagningin aukast verulega á þessu ári. Ég held því að nú sé kominn tími til að skoða þessi mál í samhengi. En ég heyri að hæstv. forseti er ekki þeirrar skoðunar, að ástæða sé til þess að umr. um tekjustofnafrv. verði reistar á þeim grunni sem heildarskattlagningin á þegnana í landinu byggi á, og ætlast til þess að Alþ. sé bara afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstj. og að þm. fái ekki að gera sér grein fyrir heildarmyndinni.

Ég harma það vissulega, en það má segja að þetta sé svo sem ekkert í ósamræmi við annað. Fyrir liggur að hæstv. forsrh. hefur ekki djörfung og dug til að flytja stefnuræðu sína, eins og þó eru skýr ákvæði um í þingsköpum. Hélt ég þó að hann gæti komið fyrir sig orði, a.m.k. ef hann nennir. (Gripið fram í: Hann er að leita að stefnunni.) Hann er kannske að leita að henni, já. En það verður þá svo að vera.

Ég vil a.m.k. fara fram á það, að hæstv. fjmrh. sé hér í salnum. Hann stóð upp í upphafi umr. til að gefa okkur skýringar á ákveðnum málaþáttum sem væru í afgreiðslu hjá ríkisstj. Og ég vil tilkynna hæstv. forseta að ég held ræðu minni ekki áfram fyrr en hann er kominn í salinn. (Gripið fram í.) Já, ég sé að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn. Þá er hægt að ræða þau nýju viðhorf, sem upp eru komin, að honum viðstöddum.

Ég vil þá byrja á að vekja athygli á því, að þegar rætt er um skattbyrði í landinu, sem mér hefur heyrst að hæstv. ráðh. geri sér ekki grein fyrir, er það náttúrlega spurningin hversu mikla peninga fólkið, sem á að greiða skattana hefur milli handanna, sem ræður því hvað skattbyrðin er í raun þung. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að á s.l. ári hefur kaupmátturinn minnkað um eitthvað í kringum 5%. Ég geri ráð fyrir því, að ef borið er saman hvernig verðlag hækkaði frá ársbyrjun til ársloka sé það í kringum 61%, en laun hafa varla hækkað meira en sem nemur 53%. Þarna vantar sem sagt tæp 10% upp á. Launin hafa setið eftir miðað við verðbólguna. Þegar við höfum jafnframt í huga að það er einmitt þessi hluti launanna sem er hinar raunverulegu ráðstöfunartekjur fólksins í landinu umfram nauðþurftirnar, þá tökum við eftir því, að þynging skattlagningarinnar á fólkið, sem er með almennu launatekjurnar, a.m.k. einstaklingana, það er nú augljóst eftir þeim tölum sem hæstv. fjmrh. gaf upp áðan, hefur í för með sér tilfinnanlega kaupmáttarskerðingu sem fjöldi heimila í landinu sér ekki fram á hvernig þau komast út úr.

Í miklu stærra mæli sjáum við einmitt hið sama gerast í útflutningsiðnaðinum, þar sem svo fór á s.l. ári að kostnaðarhækkanir urðu eitthvað á bilinu 56 – 58% á sama tíma og tekjuaukningin varð ekki nema í kringum 28%. Þetta hefur nú valdið því, að þessi mikli vaxtabroddur íslensks iðnaðar stendur frammi fyrir algerum greiðsluskorti og jafnvel eru horfur á að til fjöldauppsagna kunni að koma. Þessi iðnaður virðist vera viðkvæmastur fyrir því mikla misræmi og misvægi sem hefur orðið hér á síðustu árum á launum og tekjum annars vegar og kostnaði hins vegar vegna þeirrar óðaverðbólgu sem geisað hefur í landinu.

Einmitt þetta atriði, ég vil segja þetta öryggisleysi fólksins í landinu, ásamt með því að við völd situr ríkisstj. sem boðar skattahækkun á skattahækkun ofan án þess að draga upp heildarmyndina, heldur ætlar að píra þessu í okkur smám saman, drepa okkur hægt og sígandi, — þetta veldur því að krafan um að spilin séu öll lögð á borðið verður hærri en ella. En þetta gefur líka tilefni, úr því nú þetta er komið til orða, að spyrja hæstv. fjmrh. hvenær hann búist við því, að þeim uppsafnaða söluskatti sem ríkið heldur eftir fyrir útflutningsiðnaðinum, verði skilað. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, heldur ríkið þessu fé og hefur gert síðasta hálfa árið, 1979, og enn hafa engin skil verið gerð. Þetta eru peningar sem iðnaðurinn á, en ríkissjóður ekki, og það er kominn tími til að þeim verði skilað. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvenær megi búast við að það verði gert.

Sá orkuskattur, sem verið er að boða, hlýtur að leggjast ofan á þær skattahækkanir sem hér eru boðaðar. Fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. viðskrh., — hann er ekki hér í salnum og má einu gilda, — hefur haft gaman af því að bera saman hver sé skattbyrðin hér á landi og skattbyrði erlendis. Hann hefur ásamt með félögum sínum í ríkisstj. gert afskaplega lítið úr því, hversu mjög skattbyrðin hefur þyngst hér á landi á undanförnum árum. Hæstv. viðskrh. ber sig gjarnan saman við þau lönd þar sem opinber gjöld eru hæst. En hinu gleymir hann alltaf þegar hann talar um þetta, að tala um hver sé kaupmáttur launa í þessum löndum. Hann gleymir því, að það fólk, sem býr í flestum þessum löndum, á miklu, miklu meira fé eftir til frjálsrar ráðstöfunar en hér, venjulegt launafólk. Og það er auðvitað um það sem málið snýst, hvað fólkið á eftir í buddunni, hvernig fólkið á að rísa undir öllum þessum gjöldum. Ég vil bæta við þetta t.d. þeim óhagstæðu lánakjörum sem almenningur í landinu sætir í bönkum landsins, þessum háu vöxtum sem koma afskaplega illa við það fólk sem er að koma undir sig fótunum, hinn almenna launamann sem veltur sér ekki í peningum. Þegar allt þetta safnast saman, útsvarið, tekjuskatturinn, vextirnir, þessar drápsklyfjar allar saman ásamt því öryggisleysi í atvinnumálum sem nú er farið að gera vart við sig, byrjar í ullar- og skinnaiðnaðinum og er að færa sig yfir í byggingariðnaðinn, þá gerir ríkisstj. ekki annað en að tala um iðnþróun. — Iðnþróun á hverju? Það er þá grundvallaratriði að reyna að passa upp á að iðnaðurinn drepist ekki í höndunum á þeim og iðnþróunin verði þá ekki um annað en það, hvernig jarðarförin skuli fara fram. Þetta er kjarni málsins.

Vitaskuld er það rétt, að þjóðarbúið í heild sinni hefur orðið fyrir þungum áföllum vegna hækkaðs olíu- og bensínverðs, hækkaðs orkuverðs. Þess vegna kom mér afskaplega mikið á óvart þegar hæstv. fjmrh. sagði í sjónvarpinu í gær, og ég vona að hann hafi mismælt sig, að það ætti að skera hitaveituframkvæmdir niður á þessu ári. Væri fróðlegt að fá um það nánari upplýsingar. (Forseti: Má ég vekja athygli á því, að það var ákveðið að fresta fundi kl. 15 — 16.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir og sérstaklega snertir iðnaðinn, að Félag ísl. iðnrekenda hefur skrifað alþm. svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Til alþingismanna.

Með hliðsjón af því, að til meðferðar Alþingis eru nú lög nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, vill Félag ísl. iðnrekenda koma á framfæri eftirfarandi aths.:

Félag ísl. iðnrekenda telur að fella eigi niður aðstöðugjald. Óviðunandi er.að iðnfyrirtækjum hér á landi sé gert að greiða skatt sem lagður er á og innheimtur án tillits til afkomu, en slík skattlagning á sér ekki hliðstæður meðal helstu samkeppnislanda okkar. Verði aðstöðugjald hins vegar ekki lagt niður að sinni er fumskilyrði að samkeppnisatvinnuvegum sé ekki mismunað. Í 38. gr. núgildandi laga er gert ráð fyrir því, að iðnaður greiði þrefalt hærra aðstöðugjald en fiskveiðar og 54% hærra gjald en fiskiðnaður. Þessi mismunun er óréttlát og óeðlileg. Iðnaðurinn býr nú við nákvæmlega sömu ytri skilyrði og fiskveiðar og fiskiðnaður og því eiga þessir samkeppnisatvinnuvegir að njóta sömu aðstöðu í landinu. Félag ísl. iðnrekenda vonar að á þessu máli verði tekið á næstunni og nauðsynlegar leiðréttingar gerðar.“

Ég vil jafnframt geta þess, að s.l. laugardag voru þm. Norðurl. e. kvaddir á fund með forsvarsmönnum ullar- og skinnaiðnaðarins fyrir norðan, með fulltrúum starfsfólks hjá verksmiðjum SÍS og fulltrúum Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri, þar sem rætt var um þá geigvænlegu erfiðleika sem ullar- og skinnaiðnaðurinn stendur nú frammi fyrir. Þar var svo hljóðandi samþykkt samhljóða, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur, sem til var boðað af stjórn Iðju og Starfsmannafélagi iðnaðardeildar Sambandsins og haldinn var á Akureyri laugardaginn 15. mars 1980, beinir þeim tilmælum til þm. Norðurl. e., að þeir beiti sér fyrir lausn á þeim vanda sem ullar- og skinnaiðnaður landsmanna á við að stríða. Fundurinn skorar á þingmenn að vinna að því að:

1) tekið verði fullt tillit til stöðu útflutningsiðnaðarins við ákvörðun gengisskráningar,

2) uppsafnaður söluskattur verði endurgreiddur útflytjendum jafnóðum,

3) uppsafnað óhagræði verði greitt til iðnfyrirtækja þannig að iðnaðurinn geti setið við sama borð og aðrar útflutningsgreinar.“

Svo mörg voru þau orð. Ég geri ráð fyrir því — (Gripið fram í.) Ja, Egilsstaðasamþykkt. Ég man nú ekki, það má vera að iðnverkafólk sé ekki í Verkamannasambandi Íslands svo af þeim sökum geri formaður Verkamannasambands Íslands lítið úr þeirri óvissu sem iðnverkafólk stendur nú frammi fyrir um allt land. Og ég verð að segja það, að mér finnst í hæsta máta ósmekklegt þegar með þessum hætti er verið að gera gys að því fólki sem þarna á hlut að máli, en margt af þessu fólki er lægst launaða fólkið í landinu og hefur ekki í önnur störf að venda ef þessi iðnaður verður lagður í rúst af þeirri ríkisstj. sem nú situr og ekki virðist hafa önnur áhugamál, eins og sakir standa, en að finna upp á nýjum ráðum til þess að leggja drápsklyfjar á almenning í þessu landi. Og í þessu sambandi vil ég einnig taka það fram, að ég trúi ekki öðru en hæstv. forseti meti þau viðbótarrök sem hér liggja fyrir og eru annars vegar beiðni þess fólks sem vinnur við þennan útflutningsiðnað. Stéttarfélag þess ásamt með Félagi Ísl. iðnrekenda hefur með þessum hætti snúið sér til alþm. um að einhver viðunandi lausn fáist á þeim málum. Er í því sambandi m.a. vitnað til leiðréttingar á tekjustofnalögum sveitarfélaga. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti sé mér sammála um að þetta eru viðbótarrök fyrir því, að umr. verði frestað til þess að hægt sé að taka þessi mál nú til athugunar í þinginu, að sú n., sem um málið fjallar, félmn., komi saman og ræði þær sérstöku aðstæður sem upp eru komnar. Og það er skoðun mín enn, að til viðbótar þeirri miklu óvissu, sem yfirlýsing fjmrh. áðan setti okkur í, yfirlýsing hans um þá heildarskattheimtu sem verður í landinu á þessu ári, sé það, sem nú bætist við fullgild rök. Því er það ósk mín til hæstv. forseta að umr. verði frestað nú, ég fái að gera hlé á ræðu minni til þess að unnt verði að taka til athugunar það erindi sem borist hefur frá Félagi ísl. iðnrekenda um þetta mál. - (Forseti: Það verður haldið fast við þá dagskrá sem útbýtt var og starfað er eftir hér í dag.)

Það er svo sem ekki við því að búast að Alþ. fái að fjalla um þessi mál í heild eins og hæstv. ríkisstj. er skipuð sem nú situr að völdum í landinu. En ég held ég verði samt sem áður, þó að ég geri mér hvorki miklar vonir um að fá svör samkvæmt efni málsins né svör sem gleðja hjartað, að spyrja hæstv. ráðh., sem hér sitja og allir áttu sæti í þeirri ríkisstj. sem sat við völd þegar fjárlagafrv. fyrir s.l. ár var ákveðið fyrir einu ári, hvort virkilega séu engar fyrirætlanir uppi í ríkisstj. til þess að standa við þá skattalækkun sem lofað var fyrir 1, des. 1978 og átti að koma til framkvæmda á s.l. ári og var látin jafngilda 2% í grundvelli kaupgjaldsvísitölunnar. Þeirri skattalækkun var lofað af ríkisstj. sem þá sat, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Efndirnar urðu engar. Beinu skattarnir voru hækkaðir á s.l. ári, en hins vegar voru laun alls almennings í landinu lækkuð um þessi 2%. Nú langar mig til að spyrja: Er einhver von til þess, að í frv., sem hæstv. fjmrh. ætlar að leggja fram öðru hvorum megin við helgina, sé ætlað að skila launþegum því sem ríkisstj. ranglega tók frá þeim á s.l. ári, eða telur ríkisstj., sem nú situr, að loforðið, sem þá var gefið, skipti engu máli eða hvort nokkur tilraun verði nokkru sinni gerð til þess að standa við það? Ég lít þannig á, að þar sem nýir kjarasamningar hafa ekki farið fram og launamálin hafa ekki verið stokkuð upp sé skuldbinding ríkisstj. í fullu gildi enn, nema hún geri ráðstafanir til þess að hækka almenn laun í landinu um þau 2% sem með þessum hætti voru frá almenningi tekin á s.l. ári.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að samkvæmt því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að enn þá dragi sundur með kostnaðarhækkunum heimilanna annars vegar og launum hins vegar. Þannig er gert ráð fyrir að laun hækki að meðaltali um 42% á þessu ári, en innlent verðlag að meðaltali um 46,5% á milli áranna 1979 og 1980. Þegar haft er í huga að þetta kemur ofan á það misræmi sem var á þessu á s.l. ári, þegar almennt verðlag í landinu hækkaði um yfir 60%, kannske 61%, en launin ekki nema um 53%, má öllum hv. þm. vera fullljóst að það er að bera í bakkafullan lækinn að Alþ. ætli ofan á allt þetta að hækka beina skatta í landinu.

Ég vil sérstaklega lýsa yfir vonbrigðum mínum með þá ráðh. sem eiga að vera í Sjálfstfl., hæstv. forsrh., iðnrh. og hæstv. landbrh., sem hafa öðrum störfum að sinna nú en að vera hér í deildinni. (VG: Er iðnrh. genginn í Sjálfstfl.?) Það má ekki á milli sjá. — Mér finnst miður að þeir skuli þegar vera svo mengaðir af þessum „fýrum“ að þeir skuli ekki kunna sér neinn sóma í þessum efnum. Og ég vil minna á það, að allir þessir þrír hæstv. ráðh., forsrh., dómsmrh. og landbrh., voru á þing kjörnir undir þeirri forskrift og með það loforð á vörum að þeir mundu beita sér fyrir því að beinir skattar yrðu lækkaðir í þessu landi. Með því að standa að því frv., sem hér liggur fyrir, hafa þeir brotið gegn loforði sínu. (Gripið fram í: Dómsmrh. er mættur.) Hann ber það þá til hinna. — Og einkanlega verð ég að segja það, að miðað við fortíð hæstv. forsrh. hlýtur það að valda miklum vonbrigðum að hann skuli ekki hafa meiri skilning á málefnum sveitarfélaganna en þetta frv. ber með sér og það skattalagafrv. sem hæstv. fjmrh. var að skýra frá áðan, því að jafnvel þótt þetta viðbótarprósent verði nú í lög leitt er náttúrlega alls ekki við því að búast að sveitarstjórnir almennt treysti sér til þess að leggja það á þar sem með bæjarmálin fara menn sem hafa einhverja tilfinningu fyrir því fólki, sem í landinu býr, og gera sér grein fyrir þeim drápsklyfjum, sem verið er að leggja á almenning í landinu. Þetta fólk mun að sjálfsögðu vera hikandi við að leggja tólfta prósentið á við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, þótt enginn vafi sé á því að sá nýi meiri hl., sem nú mótar borgarstjórn Reykjavíkur, muni notfæra sér þetta, ef marka má þá stefnu, sem hann tók með fjárhagsáætlun fyrir s.l. ár, og það, sem þaðan hefur heyrst síðan, og ef lítið er á viðbrögð hv. 8. landsk. þm. í þessum efnum.

Ég vil gjarnan minna á það, að sú var tíðin að núv. hæstv. forsrh. gerði kröfur til þess að ríkisvaldið léti nokkuð af tekjum sínum falla til sveitarfélaganna með auknum verkefnum og talaði þá í þeim anda. En nú er svo fyrir honum komið, nú er hann svo heillum horfinn, að hann gerir samtímis áætlanir um að hækka beina skatta sveitarfélaganna og beina skatta ríkissjóðs. í þessu sambandi vil ég einnig taka það fram, að mér finnst hv. 5. þm. Suðurl. vera næsta lítillátur í brtt. sem hann flytur hér, þar sem hann er að gera þann kattarþvott að þetta eina prósent, sem hann greiddi atkvæði með að leggja á landslýðinn, skuli einungis ná til 11/2 millj. kr., þannig að maður sem hefur 2 millj. í árstekjur á s.l. ári nær ekki 200 þús kr. á mánuði, mundi af þeim sökum, ef annað kæmi ekki til, verða að greiða af fyrstu 11/2 millj.

En svo maður reyni að víkja að einhverju sem gleður hjarta manns, þó það sé nú ekki margt frá þessari ríkisstj., verð ég að segja að það gladdi vissulega hjarta mitt í gær þegar ég hlustaði á það í sjónvarpinu að hæstv. fjmrh. gaf út yfirlýsingu um að ríkisstj. hygðist taka vegáætlun til endurskoðunar í því skyni að auka framkvæmdamáttinn frá því sem áður hefur verið áætlað. Þetta kom fram í svari við fsp. frá Ellert B. Schram ritstjóra Vísis og gladdi vissulega hjarta mitt. Það er þó einn ljós punktur, eitt mál sem samflokksmenn mínir hafa fengið í gegn í ríkisstj., ráðh. þrír. Þeim hefur tekist að koma þeirri stefnu Sjálfstfl. á framfæri í ríkisstj. að of lítið hefur verið gert í vegamálum fram að þessu, að of skammt var stefnt með vegáætluninni sem var lögð fram í fyrra og að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild skuli nú stefna að því að leggja fram fé til þess að auka framkvæmdamátt vegáætlunarinnar. (Gripið fram í: Það hefur verið Haukdal sem hefur fengið þetta.) Já, þó það hafi komið frá honum skal ekki lasta það. Sennilega er þetta frá Haukdal. Hann er ættaður að vestan. Þeir hafa bara ekki skilið hann hinir. — En þetta eru vissulega góðar fréttir. Ég verð að óska hæstv. fjmrh. og ríkisstj. til hamingju með þetta um leið og ég óska eftir því að fá nánari útlistanir á því, fyrst þetta liggur nú fyrir, — það má gjarnan gera undir næsta dagskrárlið ef það þykir betur henta, — hvernig þessum málum er varið.

En í þessu sambandi og einkum vegna þess, að fyrst varð hæstv. félmrh. við 2. umr. þessa máls til þess að ræða almennt um launakjörin í landinu, langar mig að spyrjast fyrir um hvernig samningamálin við opinbera starfsmenn standa. Ég las í blöðunum í dag að ríkisstj. vissi ekki almennilega hvernig hún ætlaði að snúa sér í málinu. Þó man ég ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi lofað því fyrir svo sem 10 dögum að um síðustu helgi mundi þetta verða ljóst. Mér skildist að ríkisstj. ætlaði að ræða þetta yfir helgina og menn sem þar sætu og þótt þetta væri flókið mál væru þeir fljótir að átta sig, fljótir að glöggva sig. Ég veit að hæstv. forsrh. hefur verið hrósað fyrir að hann sé fljótur að taka ákvarðanir, sé ekki hræddur við að taka ákvarðanir, svo ég þykist vita að ríkisstj. viti nokkuð hvað hún ætli að gera í þessum málum.

Það er m.a. komið fram, að eitt innlegg í þetta mál á að vera að auka framlög til elliheimila, og er síst að lasta það, eins og fram kom í þessum fræga sjónvarpsþætti í gær. Eitt og annað kemur í ljós. En mig langar að spyrja hvernig þessi mál standi, hvort hæstv. fjmrh. ætlar að halda fast við að semja ekki við opinbera starfsmenn fyrr en samningar hafa tekist á hinum almenna launamarkaði, hvort það sé alveg ófrávíkjanleg stefna ríkisstj. Og vegna þess að ég vil ekki vera að hnýsast í innanflokksmál ykkar kann ég ekki við að spyrja formann Verkamannasambandsins, hv. 7. þm. Reykv., hvernig honum lítist á ef ríkisstj. ætlar að etja honum á foraðið. Eða lítur hann ekki eins og ég þannig á, að BSRB sé raunverulegt stéttarfélag sem vel gæti einu sinni brotið ísinn og markað stefnuna í kjaramálunum í staðinn fyrir að koma alltaf á eftir? (Gripið fram í: Ég á eftir að sjá það.) En ég álít á hinn bóginn að þetta geti allt staðið til bóta. Kristján Ragnarsson er nú farinn vestur og er að framfylgja stefnu ríkisstj. í launamálum fyrir vestan. Þó ég læsi blaðaskrif vandlega um þessi mál tók ég ekki eftir því, hvort hann var sendur þangað sem sérlegur fulltrúi útvegsmanna eða ríkisstj. Ég held að mönnum hafi alveg láðst að spyrja hann að því. En eitt er víst að launastefnan er sú sama, nefnilega að það skuli ekki til neinna grunnkaupshækkana koma á þessu ári þó svo að kostnaðarhækkanirnar hafi orðið miklu, miklu meiri en launahækkanirnar.

Ég veit að hv. alþm., sem tala við marga og fylgjast vel með, eru kunnugir högum lands og þjóðar, tala við menn úr öllum stéttum, gera sér grein fyrir því, að það er víða þröngt núna. Af þeim sökum veitti ekki af því að hækka þær viðmiðunartekjur, sem miðað var við í maímánuði 1977, krafist var í febrúar- og marsmánuði 1978, lofað var í sept. 1979, ítrekað var fyrir kosningarnar í haust og hamrað var á allan janúarmánuð. Það veitti nú ekki af því, vegna þess að menn hafa nóg við peningana að gera, að hækka grunnkaupið duglega, þó að ég á hinn bóginn geti ekki verið svo ósanngjarn að unna ríkisstj. ekki þess sannmælis, að eins og búið hefur verið að atvinnuvegunum, og þá á ég sérstaklega við útflutningsatvinnuvegina, er staða þeirra alls ekki slík að þeir geti staðið undir grunnkaupshækkunum að neinu ráði. Staðan er orðin þannig. Auðvitað er mála sannast að hinn almenni borgari í landinu vill ekkert frekar en að ráðist verði gegn verðbólgunni með raunhæfum aðgerðum. En því miður liggur það fyrir í fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram, og er einnig í samræmi við aðrar aðgerðir ríkisstj., að varla er að búast við því að neitt !át verði á verðbólgunni á þessu ári.

Annars gat ég ekki annað en brosað að því þegar hæstv. forsrh. birtist í sjónvarpinu — hér liggur fyrir fjárlagafrv. þar sem stendur að verðlagshækkanir til 1. júní eigi ekki að vera nema 7% — og segist ætla að binda sig við þetta, en sama daginn las maður í blöðunum að hann hækkaði brennivínið um 12%. Og ekki þarf að tala um þær hækkanir sem hæstv. iðnrh. hefur ýmist boðað eða látið fram koma. Það getur verið lítill vandi að ætlast til þess af öðrum að þeir haldi að sér höndum, en ríkið gengur svo sjálft á undan með margvíslegar hækkanir til allra sinna stofnana.

Hæstv. fjmrh. talaði um heildarskattana áðan. Ég vil ítreka að samkvæmt skattstigum verður um mjög verulegar skattahækkanir að ræða hjá fjölda manns. Það er náttúrlega augljóst gagnvart einstaklingnum og sér hver einasti maður samstundis. Ég sé að hv. 3. þm. Austurl. hristir höfuðið. Nú væri skemmtilegt að fá töflu yfir það, hvernig þessi 35% skattstigi kemur í öllum dæmum út, þar sem áður var ýmist 30 eða 40% skattstigi, t.d. hjá einstaklingum, og bera saman miðað við eðlilega skattgjaldsvísitölu, það væri býsna skondið, og t.d. taka þjóðartekjur inn í dæmið, ég tala nú ekki um — því að hv. þm. veit rétt eins og ég að þynging skattbyrðarinnar er líka undir því komin — hverjar eru launatekjurnar í landinu það ár sem skattarnir eru greiddir, borið saman við það sem áður var. Ég veit að ef við mundum í sameiningu gera á þessu ýtarlegan samanburð, taka launatekjurnar eins og þær voru á síðasta ári ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, 1978, taka á árinu 1979 beinu skattana miðað við þær launagreiðslur sem voru í landinu og framleiðslukostnað og mundum gera slíkt hið sama nú á þessu ári, — þá veit ég að hv. þm. mun átta sig á því eins og ég, — því hann er vel heima í þessum málum, hann hefur bara ekki athugað þennan þátt málsins, — að hér er um verulega þyngingu skattbyrðar að ræða. Einungis ef maður ber saman persónuafslátt einstaklinga var hann á s.l. ári 310 400 kr., en hér er gert ráð fyrir að hann verði 440 þús. kr. Ég fæ ekki séð hvernig þetta mætti verða til lækkunar, þó ekki sé annað tekið. Einnig getum við tekið og rætt um það fólk sem útflutningsframleiðslan byggist nú mest á, þ.e. konurnar í frystihúsunum, og við getum reynt að gera okkur grein fyrir því, hver skattbyrðin verður hjá því fólki á þessu ári og því síðasta. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hv. þm. muni komast að sömu niðurstöðu og ég um að þetta fólk, sem vinnur allt árið um kring í frystihúsunum, fær þyngri skatta núna en áður. Það er alveg augljóst eftir þeim tölum sem hér liggja fyrir og þarf ekki að ræða um það. Eða hversu mætti það vera að skattbyrðin þyngdist á engum þegar fyrir liggur að hún léttist á sumum og í heild er hún meiri en áður? (Gripið fram í: Þetta er rétt álitið.) Já, ætli það ekki. Þess vegna held ég að hv. þm. eigi að halda sér við það.

Gallinn við þetta mál er náttúrlega sá, að í ýmsum tilvikum er afskaplega hætt við því að þessi þynging komi illa niður. En fyrir menn, sem voru að fá þetta í hendur núna fyrir u.þ.b. tveim klukkustundum, er náttúrlega erfitt að átta sig á málinu í heild, einkanlega þar sem ég efast um að hæstv. ríkisstj. sé búin að gera það sjálf og viti í rauninni út í hvað hún er að fara, enda er það græðgin sem stjórnar ferðinni.

Ég verð að ítreka vonbrigði mín yfir því, að hæstv. forseti skuli ekki sjá sér fært að fresta þessari umr. Ég veit, að hann finnur sjálfur að þar er um sanngirnismál að ræða, og efast ekki um að hann mundi vilja gera það. En hann er ekki einn í ráðum. Hæstv. félmrh. stendur yfir honum og passar að hann sýni hvergi lipurð né elskulegheit og það þó mikið sé í húfi. Verður þá við svo búið að standa. En það verður fróðlegt að lesa þær töflur sem væntanlega fylgja því frv. sem hæstv. fjmrh. boðaði áðan um skattstigana. Það verður fróðlegt að lesa þær töflur sem því hljóta að fylgja, þar sem sýnt verður fram á á hvaða fólki léttist skattar, eins og hann og ýmsir aðrir vilja halda fram. Ég skildi innlegg hans í málið svo áðan, að hann tryði þessu sjálfur, og þá verður fróðlegt að sjá það.