19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta um að ræða eingöngu um þingsköp, því að ég hef beðið um orðið hér á eftir. En út af þeirri aths., sem hv. 1. þm. Reykn. gerði, er ekki hægt að neita því, að hér er um mjög óvenjulega málsmeðferð að ræða. Þau ár, sem ég hef átt sæti á Alþ., hefur venjan verið sú, ef stjórnarandstaða eða fjölmargir þm. hafa óskað eftir tilteknum fresti, að þá hefur umyrðalaust verið orðið við því. Í þessu tilfelli er því um mjög óvenjulega neitun að ræða hjá hæstv. 1. varaforseta þessarar d. sem er starfandi forseti. Ég ætla ekki að álasa þeim manni sem er í forsetastól — hann grípur hér inn í um miðja þessa umr. — þó að hann fari ekki að breyta frá því sem sá forseti sagði áður en hann gekk til forsetastóls. Ég get ekki verið með neina gagnrýni á hann. Hitt er svo mikið vafamál, þó að fjvn. sé mikilvæg nefnd, að starfandi forseti fari úr forsetastól á fjvn.-fund. Það held ég að sé fátítt og ég veit ekki dæmi þess. Hitt er líka — margt gerist nú á tímum — að það mun vera einsdæmi að fjvn.-maður hafi ekki sést í fjvn. í heilan mánuð, eins og gerðist nú fyrir skömmu. Ég þarf ekki að nefna þennan fjvn.-mann, ég veit að Pálmi Jónsson þekkir hann.