19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. landbrh. áðan vil ég gjarnan segja það, að ég kannast ekki við þau vinnubrögð, a.m.k. ekki af minni hálfu, hvorki sem forseta í þessari hv. d. þann tíma sem ég gegndi forsetastörfum hér, 1970–1971, né heldur kannast ég við þau vinnubrögð af minni hálfu þegar ég gegndi embætti fjmrh., að ég gerði tilraunir til þess að keyra mál í gegnum þingið öðruvísi en það væri í fyllsta samkomulagi við stjórn og stjórnarandstöðu. Við skulum gera okkur grein fyrir hlutverki stjórnarandstöðunnar, það er ekki síður mikilvægt en hlutverk hinna, sem skipa meiri hl. Alþingis og mynda ríkisstj. Ég fullyrði að slík vinnubrögð sem hér eru viðhöfð afa aldrei þekkst í minni tíð.

Mér er hins vegar ljóst að fjvn. hefur oft setið á fundum í nágrenni alþingishússins, þegar fundir hafa verið hér í hv. þd. eða í Sþ. Það er búið að óska eftir frestun á afgreiðslu mála af hálfu tveggja þingflokka. Fjvn. situr að störfum til þess að reyna að koma áfram vinnu vegna fjárlagafrv. sem ríkisstj. hefur lagt megináherslu á að verði afgreitt fyrir páska. Síðan er ágreiningsmál tekið hér til umr. og keyrt áfram eins og raun ber vitni. Þetta eru að mínum dómi einsdæmi sem við eigum að forðast.

Ég ítreka enn tilmæli mín til forseta, að hann beiti sér fyrir því, eftir að hann hefur frestað hér þingfundi, að náð verði um það samkomulagi milli ríkisstj., milli þess ráðh. sem flytur þetta mál og stjórnarandstöðunnar, með hvaða hætti málið verði látið ná fram að ganga í þessari hv. þd.