20.03.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Mitt erindi hér í ræðustól þarf ekki að vera langt, en ég tek undir þá ræðu sem frsm. flutti hér, hv. þm. Stefán Guðmundsson, 3. þm. Norðurl. v. Ég get tekið undir hvert einasta orð sem hann sagði. En ég vil aðeins til frekari áherslu koma inn á annað svið, sem snertir nýtinguna ekki síður, og það varðar stjórnun fiskveiðanna, hvernig við förum að þessu öllu saman.

Við vitum öll, sem höfum áhuga á þessu máli, að mikið vantar á að fiskur sá, sem sjómenn okkar veiða, komi að landi í því besta ástandi sem hann getur verið. Er það af ýmsum orsökum. Stundum eru veiðiferðir of langar og fiskur skemmist af þeim sökum. Stundum er hreinlega um trassaskap í meðferð að ræða. Reyndar verður það alltaf að nefnast trassaskapur, ef fiskinum okkar, þessu ágæta hráefni, er spillt. En þá er að leita orsaka til alls þessa og reyna síðan úr að bæta. Of stórir farmar eiga stundum sök í þessu efni. Það er troðið í skipin, jafnvel komið með lausan fisk á þilfari. En hvers vegna gerum við þetta? Ég tel að orsakanna sé að leita í sjálfri stjórnun fiskveiðanna að verulegum hluta. Á ég þá fyrst og fremst við þorskinn, sem er okkar langdýrasta hráefni. Eins og nú er háttað er visst tímabil á ári sem við megum veiða þorsk ótakmarkað. Síðan koma önnur þar sem ýmist er um algera stöðvun að ræða eða aðeins lítill hluti aflans, þ.e. 15%, í hverri veiðiferð má vera þorskur. Ég hef vilj­andi nefnt þorskinn einan til þess að einfalda mál mitt, en þetta á við um aðrar tegundir, og í ræðu minni hér tala ég frá sjónarmiði togara. Það á að vísu við um bátana líka, það sem ég segi, en til þess að einfalda þetta allt haga ég þessu svona.

Þar sem þorskurinn er eftirsóttastur og dýrastur okkar botnfiska er næsta mannlegt að hver og einn reyni að hrifsa til sín sem mest magn af honum þann tíma sem hann hefur leyfi til þess. Þetta hefnir sín aftur þegar farið er að vinna þann afla sem tekinn er við slíkar kringum­stæður. Þá kemur sem sagt í ljós að varan er ekki eins góð og æskilegt væri. Við vinnslu freistast menn til þess að verka í sem dýrastar pakkningar, senda frá sér afurð sem er ekki í hæsta gæðaflokki, eins og hráefni okkar á alltaf að vera. Markaður gæti fallið af þeim sökum. Þetta skilur hver og einn.

Og hér má skjóta inn, að þessi tímabilaaðferð mis­munar stórlega þeim sem veiðar stunda, vegna þess að þeir, sem næstir sitja bestu fiskislóðum, hljóta að fá langmest í sinn hlut. Það skal þó ekki eftir talið að öllu leyti. En eitthvert sanngirnissjónarmið verður þó að vera á meðan við teljum okkur þurfa að takmarka veiðar, sem ég geri ráð fyrir að flestir séu sammála um. Það er reynd­ar vikið að því í grg. með þessari þáltill., en þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er öllum orðið ljóst, að hafið er ekki sá brunnur sem endalaust verður ausið úr. Því verður að leggja stóraukna áherslu á gæði og fullnýtingu þess hráefnis sem þaðan fæst. Hvernig það nýtist, sem úr hafinu er dregið, er ekki einkamál þeirra er að veiðum og vinnslu starfa. Það er hagsmunamál þjóðarinnar allrar, að þar sé vel og skynsamlega að staðið.“

Undir þetta geta væntanlega allir tekið. En þá er að leita þeirra leiða sem bestar eru hvað varðar stjórnunina. Auðvitað eru uppi fjölmargar hugmyndir um aðferðir, og það er hægt að þekkja hvaðan hver hugmynd kemur, hvort hún kemur að austan, vestan, sunnan eða norðan. Það er jafnvel hægt að segja með nokkurri nákvæmni úr hvaða hreppi hugmyndin er komin. Þetta er auðvitað það erfiðasta: Landshlutapólitíkin grípur inn í, vægðar­laus eins og hún alltaf er.

Lítum nú aðeins á hvernig til hefur tekist með þá stjórnunaraðferð sem uppi hefur verið höfð. Árið 1979 lögðu fiskifræðingar okkar til að leyft yrði að veiða 250 þús. tonn af þorski. Sjútvrh. ákvað að veiða mætti 290 þús. tonn, þ.e. fyrrv. sjútvrh. Í árslok, þegar dæmið var gert upp, höfðum við veitt 350 þús. tonn af þorski, þ.e. 60 þús. tonnum meira en ráðh. lagði til og 100 þús. tonnum meira en fiskifræðingarnir, vísindamennirnir okkar, vildu að veitt yrði. Hvernig líst ykkur á nákvæmni þessarar aðferðar?

Nú erum við búnir að heyra fyrstu hugmyndir hæstv. núv. sjútvrh. og reyndar er þegar farið að framkvæma þær. Aðferðin sýnist mér lík. Það er hert á bönnum. Tímabilin eru lengd og eitt tímabil, júlímánuð, er sér­staklega bent á að þá verði ekki leyfðar þorskveiðar. En það munu flestir vita, að í júlímánuði 1979 henti okkur það sem er e.t.v. best að kalla slys að þessu sinni, þegar eyðilagður var þorskur í stórum stíl, bæði um borð í veiðiskipum og einnig í vinnslustöðvum.

Nú er það auðvitað góðra gjalda vert að setja sérstakt bann á júlímánuð í ár. En ég vil hér og nú láta þá skoðun mína í ljós, að hér sé verið að færa til slys, sem varð í júlí árið 1979, og við fáum jafnvel tvö slys í staðinn, bæði í júní og ágúst á þessu ári. Þess vegna held ég að við verðum að finna aðra og haldbetri stjórnunaraðferð.

Við Austfirðingar höfum komið fram með okkar hugmyndir hvað stjórnun fiskveiða varðar sem og aðrir landshlutar. Okkar hugmyndir hafa fengið slæmar undirtektir. Þó ætla ég að leyfa mér hér á hinu háa Alþingi að nefna þær. Þetta er kvótafyrirkomulag. Nú geri ég ráð fyrir að einhverjir hv. þm. hrökkvi við í sætum sínum, en það verður að hafa það. Hugmynd okkar var sú, að deilt yrði niður á hvert skip ákveðnu magni, ekki endilega jafnt, heldur fengju þeir, sem næst væru bestu fiskislóðum, sinn hlut betur mældan. M.ö.o.: við vildum koma fram af fullri sanngirni.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þessar till. okkar. En síðar hefur mér verið bent á að heppilegra mundi að beita kvótaaðferðinni þannig, að eðlileg — takið eftir: eðlileg afkastageta fiskvinnslustöðva yrði látin ráða. Og til þess að útskýra orðið eðlilegur er kannske rétt að tala um það, að víða á landinu er farið að flytja inn fólk í stórum stíl til þess að krafsa eitthvað í bakkann. En hvor þessara aðferða sem er hefur þann kost, að þá veit hver og einn í upphafi árs, hvaða hlutur honum er ætlaður, og þarf ekki að böðlast áfram eins og naut í flagi, spillandi ágætu hráefni þann tíma sem frelsið varir á miðunum. Með þessu vinnst það einnig, að þær hámarkstölur, sem við veljum í upphafi árs, standast, og það er ekki svo lítið atriði.

Það yrði stærsta slys í okkar þjóðarsögu, ef við eyddum þorskinum okkar. Við munum öll hvernig fór um síldina og hversu hart það áfall var. En reynum nú að hugsa okkur ef þorskurinn fengi sömu útreið. Slíkt áfall þyldum við alls ekki.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli reynt að bregða hér upp mynd sem ég held að væri vert að skoða og skoða vandlega. Sumir telja að vísu að það sé allt í lagi, það sé nógur fiskur í sjónum og við eigum bara að keppast um að veiða. Ég vil eindregið vara við slíku hugarfari. Og algert lágmark hlýtur það að vera og krafa, að sá fiskur, sem við veiðum, verði nýttur til fulls og verði besta vara sem boðin er á hinum harða alþjóðlega fiskmarkaði.