19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál, sem er oft búið að bera á góma á hv. Alþingi.

Auðvitað getum við tekið undir að þetta verðjöfnunargjald ætti að vera í annarri mynd til þess að það mætti kalla raunverulegt verðjöfnunargjald. Ég get vel tekið undir það, einmitt vegna þess að við, sem búum við það að borga hæsta raforkuverð í landinu, þ.e.a.s. notendur á orkusöluverði RARIK, greiðum vitanlega stærsta skerfinn af þessu verðjöfnunargjaldi, því miður.

Ég vil benda á að það er alveg rétt ábending, sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl., að það er örlítið annað í 1. gr. núna eins og hún kemur fyrir en var þegar Alþ. gekk frá verðjöfnunargjaldinu á s.l. vori. Það vantar inn í 1. gr. heimild til þess að nota gjaldið til meiri jöfnunar á raforkuverði en kemur fram í greininni. Það stendur hins vegar í aths. með lagafrv. Má e.t.v. segja að þar komi tilgangurinn fram umfram það sem kemur fram í greininni.

Ég vil taka undir það, sem kom áðan fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að við hv, þm. þurfum auðvitað að taka til höndum til að lagfæra eitt stærsta búsetuvandamál hér á landi, þ.e.a.s. þennan mikla aðstöðumun sem fólk býr nú við sem þarf að nota olíu til húsahitunar við þær aðstæður sem eru í landinu nú. Þetta er heilög skylda okkar að leiðrétta, og við erum kjörnir á Alþ. til þess að leiðrétta það. Ég vona að okkur takist það á því þingi sem nú er hafið.

Ég ætla að segja ykkur lítið dæmi um þetta. Ég greiddi fyrir stuttu hitaveitureikning af fjögurra herbergja íbúð sem ég hef hér í Reykjavík. Reikningurinn var fyrir þrjátíu og þriggja daga notkun. Hann var 4517 kr. Þegar ég kom nokkrum dögum síðar heim til Ólafsvíkur lá á gólfinu hjá mér olíunóta frá Olíufélaginu fyrir 40 daga áfyllingu að upphæð 147 000 kr. Þetta er aðeins dæmi um hvað hér er um hrikalegt byggðavandamál að ræða fyrir þá íbúa landsins sem búa við lakari aðstöðu.

Ég vildi aðeins nota tækifærið til að koma þessu hér að, einmitt vegna þess að þetta var nefnt áðan og er vissulega umhugsunarefni þegar við hv. þm. erum að ræða um mál eins og jöfnun á orkuverði. Þess vegna er nauðsynlegt að menn hugsi málið djúpt. Og ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að þetta mál verður að fá rétta meðferð hér á hv. Alþ., þó að við getum fallist á að eftir aðstæðum verðum við að framlengja það verðjöfnunargjald sem hér liggur fyrir frv. um framlengingu á.