24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka fram, að ég ætla ekki að ræða neitt sérstaklega um barnsfaðernismál þeirra hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Vestf. Ég gleðst þó með öðrum yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. viðskrh., að orkuskattur verði ekki lagður á olíu­kaup fiskiskipanna. Þá vil ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að vekja máls á þessu máli hér, hefja þessar umr., því að hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem þingið hlýtur að þurfa að fylgjast verulega vel með.

Mér þótti það heldur slæmt þegar ég hlustaði á hæstv. viðskrh., hve lítinn skilning hann virðist hafa á launa­málum sjómanna og þeim hlutaskiptareglum sem þar gilda. Menn verða að hafa hugfast að laun sjómanna miðast við afla og það hvort árferði er gott eða slæmt. Það er þess vegna algerlega út í bláinn að fara að miða laun þeirra við tekjur á síðasta ári. Þessu hefur verið svarað hér í d., og ég skal ekki frekar orðlengja það, en ég vil nefna að þar mættu menn líta í eigin barm. Ef sagt væri t.d. við fyrrv. hæstv. ráðh., að þeir hefðu haft svo mikil laun á síðasta ári að þeir þyrftu að taka á sig aukna kjaraskerðingu á þessu ári, þá er ég viss um að færi um ýmsa sem hafa setið í þeim hálaunahópi. (Gripið fram í: Þeir mundu segja af sér.) Ja, við skyldum vona það.

Það er ljóst að Verðlagsráðið er að líkja eftir markaðn­um. Sá er munur á Verðlagsráði sjávarútvegsins og Sex­mannanefndinni, sem verðleggur landbúnaðarvörur, að Sexmannanefndin vinnur nánast með sjálfvirkum hætti og ef endar ná ekki saman standa íslenskir skatt­greiðendur undir þeim mun sem myndast. Þessu er öðru­vísi varið í sjávarútveginum. Þar er um að ræða útflutn­ingsvörur að langmestu leyti, og þar koma erlendir markaðir til skjalanna. Það þýðir ekkert fyrir okkur að brýna raustina og heimta hærra verð. Þar er það hið kalda markaðslögmál sem gildir.

Það, sem einkum hefur þó vakið athygli í þessum umr., eru þau atriði sem snúa að því, hvort gengið verði látið síga hraðar af þessu tilefni eða ekki. Það er haft eftir hæstv. forsrh., og hann reyndar ítrekaði það áðan í ræðu sinni, að góð afkoma frystihúsanna undanfarin ár gerði það að verkum að þau þyldu meiri áföll en ella. Hins vegar verður að koma fram enn einu sinni, að eftir hæstv. sjútvrh., sem því miður er fjarstaddur, er haft að hann telji að það verði að bregðast við þessu vandamáli með hröðu gengissigi. Það verður þess vegna fróðlegt að fylgjast með framvindu mála og sjá hvor hefur betur, hæstv. forsrh. eða hæstv. sjútvrh.

Þá vakti það að vonum athygli, að þegar hæstv. viðskrh. beindi orðum sínum til fréttamanna, þess efnis að þeir ættu ekki að spyrja spurninga eins og þeirra hvenær gengisbreytingar ættu sér stað, var hann um leið að snupra hæstv. samráðh. sinn og flokksformann, Steingrím Hermannsson, því að sá hinn sami hefur ein­mitt í dagblöðum látið hafa eftir sér þau ummæli sem þessar umr. byggjast m.a. á.

Við skulum huga betur að því, hvað gengissigþýðir. Það þýðir að sjálfsögðu bættan hag útflutningsgreinanna um stundarsakir, en síðan koma í ljós ókostirnir: hærra verð innfluttrar vöru, sem að vísu hefur tiltölulega lítil áhrif á ríkissjóð því að ríkissjóður fær þá um leið hærri tolltekj­ur. Þetta eykur að sjálfsögðu allan innlendan tilkostnað, hefur í núverandi launakerfi áhrif á launahækkanir, sem eru bundnar verðhækkunum, og síðan koll af kolli. Þessa eilífðarvél þekkja allir hv. þm. Eftir stendur að ef valin verður leið gengisfellingar eða hraðara gengissigs en reiknað var með í upphafi ársins verður verðbólgan öllu meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagaforsendunum, en þar er gert ráð fyrir 46.5% verðbólgu ef borið er saman meðaltal fyrra árs og meðaltal yfirstandandi árs. Sem sagt: Hæstv. ríkisstj. hefur núna um þetta að velja. Ef farið verður að því, sem hæstv. sjútvrh. bendir á og gerir nánast tillögur um, leiðir það til enn meiri verðbólgu en hér hefur verið að undanförnu.

Þetta allt saman kemur að sjálfsögðu ekkert á óvart. Hv. 1. þm. Vestf. gerði grein fyrir því, að það var skoðun okkar sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar að þjóðin þyrfti að ráðast að rótum verðbólgunnar miklu fastar og hraðar en gert hefur verið á undanförnum árum. Hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki valið þá leið. Hún hefur valið aðra leið — leið Framsfl. og Alþb. um niðurtaln­ingu. Þess vegna held ég að hún hljóti að missa af strætis­vagninum, því að nú eru þau hættumerki á lofti að hæstv. ríkisstj. getur séð að ef ekki verður að gert muni verð­bólguþróunin verða örari en hún hefur verið undanfarin ár.

Það eru jafnframt önnur teikn á lofti, önnur hættu­merki, önnur rauð ljós. Þ. á m. má nefna ákvörðun Verðlagsráðs, sem hefur ályktað gegn niðurtalningarað­ferðinni á ýmsum forsendum, en augljóslega á þeim for­sendum m.a. að vonlaust sé að ráðast aðeins gegn verð­inu þegar menn ætla að koma verðbólgunni fyrir kattar­nef. Verðið er afleiðingin, það sem birtist. Sjúkdómurinn er allt annar.

Í öðru lagi, og það vil ég nefna til þess að við áttum okkur á málinu í heild sinni, hefur fallið dómur í máli BHM sem hefur jafnframt áhrif í þessu máli öllu. Niðurstaða þess dóms var á þá leið, að ekki skyldu koma til fram­kvæmda grunnkaupshækkanir, en verðbætur væru upp allan launastigann. Þetta hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á þá kjarasamninga sem nú standa yfir, og auðvitað verður hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir því, hvernig hún ætlar að gera tillögur um lausn þess vanda sem kjara­samningarnir valda óneitanlega.

Þegar reynt er að gera sér grein fyrir, hvað sé til ráða, sýnist manni á umr., sem hér hafa farið fram, að hæstv. ríkisstj. ætli að halda að sér höndum. Ekkert hefur komið fram í umr. sem bendir til þess, að til séu tillögur hvernig leysa eigi vandamálin. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að kjör manna markast ekki aðeins af launum, heldur einnig af sköttum, af því sem hið opinbera tekur til sín. Á síðustu dögum hefur það verið að gerast í þingsölum æ ofan í æ að fram hafa komið frv. sem skerða ráðstöfunartekjur almennings. Þar með er verið að rýra kjör launamanna í landinu, og það er hæstv. ríkisstj. sem stendur að þeirri kjararýrnun. Ég held að eðlilegast sé að á hv. Alþ. fari fram umr. um þessi mál og jafnvel í víðara samhengi en tilefni gæti verið til af ræðu hv. 1. þm. Vestf., sem hóf umr. í þessu máli. Menn verða að gera sér grein fyrir öllum þáttum þessa máls. Ég er ansi hræddur um að hæstv. ríkisstj. standi nú á mjög alvarlegum tímamótum.

Ég vil í lokin benda á að hæstv. ríkisstj. hefur sett sér miklu æðra markmið í verðbólgumálum en nokkur önn­ur ríkisstj. hefur gert á umliðnum árum og jafnvel ára­tugum. Hún hefur sett sér það markmið að árið 1982 verði verðbólgan komin niður í það sem hún gerist í nágrannalöndunum, en hún var þar um það bil 10–12% á síðasta ári. Ef taka á mark á hæstv. forsrh. þegar hann biður menn að lesa stjórnarsáttmálann bæði kvölds og morgna í framtíðinni verða menn líka að gera sér grein fyrir því, hvort sáttmálann á að lesa sem stefnuyfirlýsingu árið 1982 eða sem hreina brandarabók sem menn henda gaman að á því ári. Ríkisstj. stendur frammi fyrir ákvörðunum núna sem skipta sköpum, — ákvörðunum um hvort takast á við sjálfa verðbólguna eða hvort leitað verður leiða með því að magna hana og fá þannig hjálp um stundarsakir, sem hlýtur þó að enda með skelfingu þegar til lengri tíma er litið.