24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst á margan hátt óeðlilegt að leggja fram brtt., sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur flutt, rétt fyrir atkvgr., án þess að þm. hafi getað kynnt sér þær. Í sjálfu sér geta þm. ekkert annað gert en greitt atkv. á móti þeim, því að ljóst er að menn þurfa að átta sig á skatt­lagningu sendiráðsstarfsmanna áður en þeir samþykkja svona till. Það er gerð breyting í tekjuskattslögunum um meðferð skattlagningar á þessa aðila, og ég held að alveg nauðsynlegt sé að líta á þetta mál í samræmi við það.

Að öðru leyti varðandi aðstöðugjaldsmálið finnst mér eðlilegt að gjaldfærsla myndi aðstöðugjaldsstofn. Hún er að verulegu leyti leiðrétting á vörunotkun. Hún getur réttilega, eins og hv. þm. sagði, verið bakfærsla á fjár­magnstekjum. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir að svokölluð tekjufærsla dragist frá, sem er miklu stærra mál fyrir atvinnureksturinn en gjaldfærslan, og er vel fyrir því séð. Ég er því mótfallinn þeirri till., að gjaldfærslan sé dregin frá aðstöðugjaldsstofni, á þeim forsendum að hún er að verulegu leyti leiðrétting á vörunotkun og á að mynda aðstöðugjaldsstofn eins og hvað annað. Hitt er svo annað mál, að aðstöðugjaldið er út af fyrir sig svo vitlaus skattur í heild sinni að erfitt er að rökstyðja það. Það lítilræði, sem þarna bætist við, breytir því ekki miklu. En þetta er skattur sem skiptir sveitarfélögin verulegu máli og verð­ur ekki afnuminn í einu vetfangi. Það væri þó vissulega þess virði að gera ýmsar alvarlegar tilraunir til að leggja þennan skatt af, því að skatt, sem byggist á veltu, er út af fyrir sig erfitt eða ekki hægt að rökstyðja.

Ég vildi aðeins koma með þessar aths. og vil nú skora á hv. þm. að draga till. sínar til baka a.m.k. til 3. umr. (Gripið fram í: Þetta er 3. umr.) Þetta er 3. umr. Fyrst engin umr. er eftir vil ég eindregið leggja til að till. verði felldar.