24.03.1980
Efri deild: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta því við í sambandi við það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að tala um hér áðan, að þau frv., sem Alþfl. lagði fram og hann gat um, áttu að sjálfsögðu að koma til skoðunar hjá launþegasamtökunum. Það var ætlun okkar. En þau komu aldrei til umr. í þinginu og því var ekki nauðsynlegt að það yrði gert. Það er skýringin á því, að þau hafa ekki verið tekin til umfjöllunar af hags­munasamtökunum.

Þá vil ég ítreka það, að formaður Verkamannasam­bandsins hefur enga heimild haft til þess að leggja fram eitt eða annað í nafni Verkamannasambandsins hér á Alþ. Hvað útsvarshækkunina snertir er ég alveg sannfærður um að það yrði kolfellt í framkvæmdastjórn Verka­mannasambandsins að mæla með slíkri lífskjaraskerð­ingu. Ég er næstum því viss um að þegar á hólminn væri komið ætti formaður Verkamannasambandsins í miklu sálarstríði, því að það er nokkur ábyrgð, sem maður tekur á sig, sem er í kjarasamningum, að ætla sér að sitja líka hinum megin við borðið til þess að taka af fólkinu fjármuni sem verða óhjákvæmilega til þess að rýra kjör þess.