25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega hvort rétt er eða rangt að greitt sé til Búnaðar­þings úr almannasjóðum, eins og hér er um talað. Ég hef mína skoðun á því eigi að síður. En mig langar til að gera örstuttar aths. út af tvennu sem kom fram.

Mér finnst ekki æskilegt að þeir fulltrúar bændastétt­arinnar, sem hér telja sig vera á þingi, séu að setja ofan í við hv. þm. sem vilja leita sér upplýsinga um tiltekin mál eða málaflokka. Fróðleikur allur er af hinu betra og menn eiga ekki að vanmeta fsp. eða vera með skítkast í garð þm. þó að þeir vilji leita sér upplýsinga um hin tilteknu mál. Ég tel það vera af hinu góða og sýni ­þveröfugt við það sem hv. þm. Egill Jónsson var að tala um — að menn vilja kynna sér málin og vita hvernig þau standa. Ég get bætt því við, að ég vissi fyrir löngu hvernig þessu máli var háttað, en auðvitað er það svo í öllum flokkum að menn vita mismunandi mikið. — Mér finnst það sem sagt ekki vera neitt málefnum bænda eða full­trúa þeirra til framdráttar að vera með ádrepur í garð þeirra þm. sem vilja leita sér upplýsinga um tiltekin málefni innan landbúnaðarins eða þeirrar greinar.

Hin aths. var við þau ummæli sem hv. þm. Vilmundur Gylfason kom með áðan og ég get ekki stillt mig um að mótmæla harðlega þó við séum flokksbræður. Það er sú fullyrðing hans að þetta, sem hann telur vera af hinu illa, sé til komið vegna þess að það sé röng kjördæmaskipun í landinu og misvægi atkvæða, eins og hann orðaði það, sé lykillinn að því hvernig hér hefur til tekist, óréttlætið sé orðið svo mikið að það sé ekki þolandi og þetta sé einn anginn af því. Ég mótmæli því harðlega.

Ég vil ekki syndga upp á náð hæstv. forseta, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason gerði, en það væri ærið tilefni til að ræða það mál eitt og sér og taka langan tíma í það sem menn kalla misvægi atkv. og ranga kjördæmaskipun. Ég fyrir mitt leyti held því stíft fram, að það sé ekki til það misvægi varðandi atkv. sem hv. þm. Vilmundur Gylfason heldur fram og fleiri, — hann er ekki einn um það, það væri í tagi ef hann væri einn um það, en þeir eru því miður fleiri sem halda því fram að dreifbýlisfólk hafi allt of mikil áhrif á löggjafarsamkomuna. Þetta er alrangt. Þessu er þveröfugt farið. Þéttbýlissvæðin á Reykjavíkurhringnum, sem telja sig afskipt, hafa of mikil áhrif á löggjafarsamkomuna. Það má svo spyrja hvort slík séu áhrif þm., þessara kjördæma, það geta menn gert upp við sig. En eigi að síður hefur það svæði á Suðurnesjunum, sem ég nefndi áðan, of mikil áhrif á löggjafarsamkom­una og það sýna einmitt merkin.

Ég vildi ekki láta hjá líða að mótmæla þessu harðlega, og ég mun gera það í hvert einasta skipti og hvaðan sem slík rödd kemur, frá hvaða flokksmanni sem það kemur.