25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar merkilegu umr. Ég vil aðeins taka undir það, sem ég tel alveg réttmætt hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að það er síst að lasta að menn leiti sér upplýsinga og spyrjist fyrir um þau efni sem þeir eru ekki nægilega vel heima í.

Ég vil svo að öðru leyti minnast á aths. hv. þm. Vilmund­ar Gylfasonar, þar sem hann er enn með aðdróttanir í garð tiltekinnar stofnunar, Búnaðarfélags Íslands, og rek­ur til þess að munur er á fjárlögum 1978 og ríkisreikningi þess árs sem nemur 37 millj. kr., eftir því sem hann segir. Segir hann að hluti af þessu sé vegna eðlilegra orsaka, en hluti vegna óstjórnar. (VG: Ég er að tala almennt um mun á ríkisreikningi og niðurstöðum fjárlaga.) Ég held að ég hafi skilið hv. þm. rétt áðan. Hann hefur kastað þessari aðdróttun í garð Búnaðarfélags Íslands.

Ég kom upp í þennan ræðustól til að óska eftir því, að hv. þm. geri grein fyrir því, ekki á þessari stundu, heldur síðar, vegna þess að nú á ég að heita yfirmaður þessarar stofnunar, að hve miklu leyti Búnaðarfélag Íslands hefur eytt fjármunum vegna óstjórnar á undanförnum árum.