25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gera þessa umr. öllu lengri. Þó vildi ég segja örfá orð til að fullkomna framsóknarkórinn, eins og minnst var á áðan.

Ég vil segja það fyrst, að sem nýliði á Alþ. verð ég að viðurkenna að þegar málefni landbúnaðar ber á góma gerast menn dálítið æstir. Ég nefni engin nöfn. Þetta á við fjölmarga, bæði þá, sem eru dyggir talsmenn landbúnað­ar, en ekki síður um hina sem stundum láta falla orð í garð landbúnaðar á þann veg að ýmsum landbúnaðar­manninum líka þau ekki.

Ég ætlaði að segja að þegar málefni landbúnaðarins hefur borið á góma í þinginu gerast menn dálítið æstir. Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, sem hljóð­uðu eitthvað á þá leið, að ekki væri til framdráttar mál­efnum landbúnaðar að viðhafa æsingaumræður. En það er ekki sama hvernig umr. ber að, það skal viðurkennt. Ég veit ekki betur en Alþfl.-menn viðurkenni að land­búnaðurinn eigi við afskaplega mikil vandamál að stríða. Alþfl.-menn hafa sagt iðulega að sá vandi væri ekki bændum að kenna.

En þá komum við að málefnum Búnaðarþings. Búnað­arþing starfar á þann hátt að þar koma saman fjölmargir aðilar, og þá fyrst og fremst bændur sjálfir, og ræða sín mál, mál fortíðar, nútíðar og framtíðar, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason orðaði það áðan. Hv. síðasti ræðu­maður taldi ekki eðlilegt að Alþingi Íslendinga tæki ráð­um Búnaðarþings. Ég er ósammála. (Gripið fram í. ) Ein­hver greip fram í og sagði að þm. hefði ekki látið svo vera. Hins vegar skildi ég það svo. Ég tel einmitt mjög nauðsynlegt að á Alþ. njótum við leiðsagnar þeirra sem gerst vita, þeirra fulltrúa sem sitja Búnaðarþing. Þar er saman komin margvísleg þekking, sem er mjög nauð­synleg okkur.

En um vandamál landbúnaðar í heild er kannske ekki tilefni til umr. hér. Ég vil einungis að lokum segja það, að ég skora á alla þá, sem taka þátt í umr. um landbúnaðar­mál eftirleiðis, að leita sannleikans, reyna í sátt og sam­lyndi að komast til botns í því, hvernig við á allra bestan hátt getum rekið blómlegan landbúnað í þessu landi í sátt við alla þjóðina.