25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að víkja hér að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í umr.

Það eru fyrst örfá orð um þá typpilsinnuðu ráðherra sem hér eru gerðir að umræðuefni. Ég held að menn verði að taka því eins og það er sagt, en umr. hér á Alþ. eru sannarlega misjafnlega brýnar og misjafnlega merkilegar. Þeir, sem finnst t.d. að umr. um stefnuræðu forsrh. hafi verið merkilegar eða brýnar, þessar umr. sem fóru hér fram eftir að fundur hófst í dag, geta sannarlega kallað okkur hina typpilsinnaða, — okkur sem fannst þær nauðaómerkilegar og algerlega óþarfar. En það er bara okkar hjartans sannfæring að svo sé. Dálítið svip­uðu máli gegnir um utandagskrárumræður eins og þær sem hér fara fram. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar, hvort sem ég á sæti í ríkisstj. eða ekki að utandagskrár­umræður eigi þá helst rétt á sér að eitthvað óvenjulegt sé á seyði, eitthvað sem ekki þoli bið að ræða, eitthvað sem sé brýnt að fá skýr svör ríkisstj. við strax. Ég held að engum detti í hug að þannig standi á í því máli sem hér er verið að ræða.

Það hefur áreiðanlega engum dottið í hug að ákvörðun bensínverðs yrði nú í dag eða á morgun eða hinn daginn með eitthvað allt öðrum hætti en verið hefur á undan­förnum misserum og árum. Menn vita að vísu að hug­myndir hafa verið uppi um að breyta þarna til, en ég held að öllum sé 1 jóst að breyting af því tagi þarfnast rækilegs undirbúnings, enda mundi hún hafa stórfelld áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs og ekki vera gerð nema fyrst færu fram breytingar á einum eða fleiri lögum, þannig að hún gæti formsins vegna alls ekki átt sér stað á örfáum dögum, það er alveg útilokað. Þess vegna hefur engum dottið í hug að nein sérstök breyting yrði á þessu núna þessa dagana. Þess vegna segi ég það og sagði það áðan, að þessi utandagskrárumræða nú flokkast ekki undir neitt af þeim brýnu umræðuefnum sem þola ekki bið og verð­ur því að taka á undan öllum öðrum málum og ræða sér á parti. Þannig tel ég að utandagskrárumræðuefni þurfi að vera, til þess að hægt sé að réttlæta að þau séu tekin fram fyrir öll önnur mál. Þessa skoðun hef ég haft, hvort sem ég hef átt sæti í ríkisstj. eða ekki, það kemur því máli ekkert við.

Síðan voru það örfá orð til hv. þm. Halldórs Blöndals sem ekki hefur rænu á því að vera viðstaddur þegar honum er svarað, en hann er einstaklega laginn, eins og margir vita, að misskilja það sem sagt er.

Vegáætlun 1980 var þannig úr garði gerð fyrir einu ári, að horfur voru á því að veruleg aukning yrði í vega­framkvæmdum á þessu ári frá því sem var á árinu 1979. Það er hins vegar ljóst, að verðbólguþróunin hefur rýrt í stórum stíl þá aukningu sem vonir stóðu til að yrði. Þó stendur krónutalan áfram, sú sem ákveðin var í vegáætl­un fyrir einu ári. Ekki hafa þó allir verið sammála um að láta krónutöluna standa, því að eins og menn vita lagði fyrrv. fjmrh., úr hópi Alþfl.-manna, til að framkvæmda­tala vegáætlunar yrði skorin niður um 2.5 milljarða. En sem sagt, við höfum gengið út frá því í því fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram, að krónutalan stæði áfram. Síðan var ég spurður að því í sjónvarpsþætti nú nýverið, hvort þar yrði einhverju bætt við upp í þá verðrýrnun áætlunarinnar sem fyrir liggur. Ég svaraði þeirri spurn­ingu játandi. Ég var einnig spurður að því, hvort ég ætti von á því, að vegaframkvæmdir mundu aukast frá því sem var á árinu 1979. Ég svaraði þeirri spurningu einnig játandi. Þetta er mergurinn málsins og ekkert annað.