25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

70. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., hefur tvívegis áður verið flutt á Alþ. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við efni hennar og jafnframt tek ég undir flest það sem fram kom í ræðu frsm., Stefáns Guð­mundssonar. Það að þessa till. skuli hafa dagað uppi hér á hv. Alþ. tvívegis vona ég að stafi ekki af því, að hér hafi ekki verið stuðningur við þetta málefni, og ég vænti þess enn að sá stuðningur hljóti að vera fyrir hendi og þessi till. hljóti nú þinglega afgreiðslu.

Á síðustu árum hefur verið á það bent, að framleiðni í atvinnurekstri okkar væri mjög tág, bæði í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum. Í stjórnarmyndunarviðræð­um nú í vetur voru till. Alþb. um aukna framleiðni at­vinnuveganna sem leið til viðnáms gegn verðbólgu mjög til umr. Nú er komin ríkisstj. sem Alþb. er aðili að, og þótt sú stjórn hafi ekki markað stefnu í þessu máli eins ákveðið og við sumir hverjir hefðum óskað, má þó við þá stefnumörkun una ef við hana verður staðið, og sjálfsagt er engin ástæða til, að ætla að svo verði ekki gert.

Sjálfsagt liggja til þess ýmsar ástæður, að framleiðni í íslenskum atvinnurekstri er ekki góð. Framfarir á þessu sviði hjá sjávarútveginum og úrvinnslugreinum hans hafa verið miklar á undanförnum árum. Það er t.d. líklegt, að hvergi við Norður-Atlantshaf sé jafnlítill vinnulaunakostnaður á hverja verðeiningu fisks komna frá veiðiskipi og hér á Íslandi. Við erum með stóran hluta af fiskiskipaflota okkar vel búinn og næstum því með þjálfaðan og valinn mann í hverju skiprúmi. Ýmsar fræðikenningar hafa samt verið uppi um óhagkvæmni íslenska fiskiflotans. Þær kenningar hef ég aldrei heyrt rökstuddar með samanburði við fiskiveiðiflota og nýt­ingu á flota annarra fiskveiðiþjóða. Ég er þó ekki í nein­um vafa um að auka megi framleiðni fiskiflotans enn nokkuð og þó sérstaklega i sambandi við meðferð afla og jafnvel með ódýrari olíu eða minni olíueyðslu. Hitt er ljóst, að ef halda á áfram þeirri óheillastefnu að stöðva endurnýjun og uppbyggingu fiskiflotans, eins og gert hefur verið nú að undanförnu, er stutt í það að íslenski fiskveiðiflotinn dragist aftur úr og verður þá innan tíðar engin leið önnur en að taka eitt stóra stökkið í uppbygg­ingu flotans, eins og hér hefur áður verið gert.

Alþm. hafa kannske orðið sér úti um álitsgerð starfs­hóps um skipasmíðaiðnað, en sá starfshópur hefur verið uppi með tillögur um það, hvernig skuli endurbyggja íslenska fiskveiðiflotann. Ef þær eiga að verða stefnu­markandi í sambandi við aukna nýtingu í sjávarútvegi, þá líst mér ekki á að vel sé farið af stað. Þessi starfshópur leggur til að aðalendurnýjun íslenska fiskveiðiflotans eigi sér stað í stærðinni milli 20 og 50 tonn. Það eru þau skip sem ég held að flestir sjómenn og meginhluti út­vegsmanna vilji algerlega leggja til hliðar, en þeir góðu sérfræðingar telja — og virðast hafa fundið einhver rök fyrir því — að þetta sé þó hinn æskilegi skipafloti sem eigi að byggja upp hér. Ég mótmæli þessu alveg og tel að það sé allt annar hluti fiskveiðiflotans sem á að byggja upp, ef á að hugsa um það að íslenski fiskveiðiflotinn nýtist vel. Út frá einhverju öðru sjónarmiði má kannske finna það, að þessi stærð sé æskileg.

Þótt segja megi það um stóran hluta fiskiflotans, að hann sýni og geti sýnt góða framleiðni, er öfugt farið um fiskvinnslufyrirtækin. Allt of stór hluti þeirra er vanbú­inn til þess að geta sýnt góða nýtingu og framleiðni. Skýringin á þessu misræmi sýnist mér oft og tíðum vera dálítið einföld. Þegar byggt er nýtt skip komast lána­stofnanir ekki undan því að lána kaupandanum samkv. ákveðnum reglum, jafnvel þótt verðið fari nokkuð fram úr því sem gert hefur verið ráð fyrir í upphafi. Bankastjóra tekst ekki að segja: Þú skalt hafa alla skipshöfnina og eldhúsið í einum sal, eða: Þú skalt engan lóra hafa í skipinu, eða: Þú skalt ekki hafa fisksjá o.s.frv. Skipið fer á flot og til veiða fullbúið þeim tækjum sem reynsla íslenskra fiskimanna segir til um að þurfi og eigi að vera í íslensku fiskiskipi. Ég held að hagfræðingur eða tölvu­fræðingur hafi aldrei komið þar neitt nálægt.

Á hinn veginn er það svo, að við uppbyggingu fisk­vinnslustöðvar skammtar hinn ábyrgi fjármálastjóri bankanna aðgerðir. Hafi verið byggður góður vinnslu~­staður og frost- eða birgðageymsla er eins víst að ekki fáist fjármagn fyrir hráefnismóttöku.

Undirstaða góðrar framleiðni og nýtingar er gott starfsfólk. Fiskvinnslan byggist að nokkrum hlut á því fólki, sem nú ber heitið farandverkafólk, en hefur ekki verið flokkað á neitt sérstakt nafn í íslenskum fiskiðnaði fyrr en nú á allra síðustu mánuðum. Það er því höfuðat­riði, að fiskverkunarstöðvar geti boðið góða aðstöðu í verbúðum. Sums staðar er þessi aðstaða í góðu lagi, víða ekki. Mér er kunnugt um stað þar sem sveitarstjórn, fiskverkendur og útvegsmenn með stuðningi verkalýðs­félags höfðu komið sér saman um byggingu verbúða með sæmilega félags- og mötuneytisaðstöðu. Bankastjórar væntanlegs viðskiptabanka svo og stjórn Fiskveiðasjóðs neituðu um lánsfé til þessara framkvæmda vegna þess að þessi framkvæmd væri of fín. Rökstuðningurinn, sem þeir höfðu, var sá, að hér væri ekki verið.að byggja yfir verkafólk, hér væri verið að byggja ferðamannahótel.

Spurningunni um það, af hverju þeir álitu að ferðafólk á skemmtireisu þyrfti betri aðbúnað en fiskvinnslufólk og sjómenn, svöruðu þeir með því að neita enn ákveðnar um lán til slíkrar þjónustubyggingar. Afleiðing neitun­arinnar er sú, að hvert atvinnufyrirtæki á þessum stað um sig hefur orðið að verða sér úti um aðstöðu fyrir sitt verkafólk, — aðstöðu sem er margfalt lakari og stundum varla boðleg ferðafólki, hvað þá því fólki sem jafnan vinnur erfiðan og langan vinnudag. Kostnaðurinn er margfaldur á við það fjármagn sem hefði þurft til þess að byggja verbúðina. Neitun bankastjóranna hefur valdið því, að fyrirtækin hafa minna fjármagn til bættrar hag­ræðingar, og um leið eru líkur fyrir því og reyndar vissa, að fyrirtækin halda ekki eins góðu starfsliði að sínum fyrirtækjum.

Það má telja mörg dæmi um það, hvernig furðulegar fjármagnsneitanir hafa gert fyrirtækjunum ómögulegt að koma á hjá sér sæmilegri vinnuhagræðingu og öðru því er þurft hefur til bættrar framleiðni. Aðalrökin gegn lán­veitingu til slíkra hluta hafa verið þau, að slíkar lánveit­ingar væru verðbólguhvetjandi, þegar væri komið of mikið fé í umferð o.s.frv. Oft hefur verið sagt að við þessi mánaðamót mætti ekki lána meira og við þessi áramót mætti ekki lána meira. Þetta þekkja allir sem leitað hafa eftir fjármagni til þessara hluta.

Flestir munu gera sér grein fyrir því, að fátt mun þó hafa verið jafnhvetjandi á verðbólguna og sú lánapólitík sem rekin hefur verið gagnvart atvinnuuppbyggingu og rekstri. Þessi stefna hefur haldið niðri möguleikum fyrirtækja á bættri nýtingu og framleiðni. Bætt nýting og framleiðni í íslenskum sjávarútvegi getur orðið á marga vegu. Möguleikarnir eru margþættir. Allar prósentutöl­ur og prósentuútreikningar eru í þessu efni dálítið vara­samir. Hún verður stundum ansi leiðinleg nýtingar­prósentan, ef við tökum þorsk upp úr sjó, sem veiðist þegar allt er fullt af loðnu á miðunum og fiskur er út­troðinn af þeim fiski. Hún segir engan stórasannleik, meðalprósentan í þessu eða hinu frystihúsinu. Hráefni getur verið svo breytilegt að það frystihús, sem kemur út með besta nýtingu í einhverju úrtaki, getur fallið niður í að vera í neðsta sæti, við þó óbreytta framleiðsluaðstöðu hjá fyrirtækinu sjálfu, vegna breytinga á hráefni.

Herra forseti. Við upphaf umr. um þá till., sem hér er til umr., flutti hv. þm. Tryggvi Gunnarsson mjög athyglis­verða ræðu. Um leið og ég tek undir meginefni ræðu Tryggva Gunnarssonar vil ég þakka honum fyrir það, að hann skuli hafa gefið sér tíma frá sjómennskunni og skipstjórninni til að sitja hér á Alþ. og láta heyra í sér um þetta málefni.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér tilvitnun úr ræðu Tryggva. Hann sagði: „Ég vildi aðeins til frekari áherslu koma inn á annað svið, sem snertir nýtinguna, ekki síður en það, er varðar stjórnun fiskveiðanna, hvernig við förum að þessu öllu saman. Við vitum öll, sem höfum áhuga á þessu máli, að mikið vantar á að fiskur sá, sem sjómenn okkar veiða, komi að landi í því besta ástandi sem hann getur verið. Er þetta af ýmsum orsök. um. Stundum eru veiðiferðir of langar og fiskur skemm­ist af þeim sökum. Stundum er hreinlega um trassaskap í meðferð að ræða. Reyndar verður það alltaf að nefnast trassaskapur ef fiskinum okkar, þessu ágæta hráefni, er spillt.“

Ég tel að hér hafi verið nefnt málefni, sem skiptir mjög miklu máli í fiskveiðum okkar, og málefni, sem of lítið hefur verið rætt í sambandi við nýtingu og framleiðni, einnig i sambandi við stjórnun fiskveiðanna. Það fólk, sem við fiskvinnsluna vinnur, verður vart við það nær daglega, að það hráefni, sem til vinnslu kemur, reynist gallað. Af 35 þús. tonna saltfisksútflutningi á árinu 1979 reyndust 11 þús. tonn fara í 3. og 4. gæðaflokk. Það jafngildir 35 þús. tonnum af fiski upp úr sjó. Skreiðar­framleiðsla ársins 1979 mun hafa verið hátt í 3 þús. tonn eða 15–20 þús. tonna afli upp úr sjó. Samtals hefur þá á árinu 1979 verið um 50 þús. tonna fiskafli sem hefur fallið í hina lágu gæðaflokka í framleiðslu.

Ég held að varla sé ofsagt að hér geti verið um allt að helmingsverðmun að ræða, miðað við þá framleiðslu sem verðmætust er. Hér er um að ræða meðalafla 10–15 togara af minni gerð. Ég læt tölvumeisturunum og öðrum reiknimeisturum eftir að reikna út þau verð­mæti sem þarna hafa farið í súginn. Þær eru margar ástæðurnar fyrir því, að ástandið er svona vont, en ég held að hér megi laga margt með tiltölulega lítilli fyrir­höfn.

Hv. þm. Tryggvi Gunnarsson kom einnig inn á ann­að þátt fiskveiða og fiskvinnslu, sem einnig snertir mjög það mál sem hér er til umr. Það er stjórnun fisk­veiðanna. Það verður nú æ fleirum ljóst, að sú bann­stefna eða tímabilaaðferð, sem notuð hefur verið til að stjórna veiðunum, hefur svo augljósa galla að leita verður annarra aðferða í þessu efni. Skoðanir manna í þessum efnum eru breytilegar, og að sumu leyti fer það eftir landshlutum og veiðisvæðum hvað menn telja best í þessum efnum. Tryggvi lýsti sig samþykkan kvóta­kerfi á skip. Ég hef verið andvígur þeirri stefnu. En nú þegar ókostir bannstefnunnar fara að sýna sig, m.a. með því að allur fiskveiðiflotinn stöðvast langan tíma með tilheyrandi atvinnuleysi í fiskvinnslustöðum, tel ég rétt að mjög komi til athugunar hvort kvótaskipting sé ekki framkvæmanleg með bestu manna stjórnun og þar sem tekið yrði fullt tillit til séraðstæðna á ýmsan hátt.

Við þær aðstæður, sem nú eru í þessum málum, þar sem við blasir jafnvel stöðvun bátaflotans fljótlega upp úr páskum og fram í maí, finnst mér heldur djúpt í árinni tekið hjá hæstv. sjútvrh. hér á fimmtudaginn var, þegar hann ræddi um þessa till. Hann lýsti því yfir, að hann væri algjörlega andvígur þessari leið. Þessa leið finnst mér að þurfi að athuga að það þurfi einmitt að ræða þessa leið ásamt öðrum í þeirri nefnd, sem sjútvrh. boðaði að hann mundi skipa eftir tilnefningu þingflokkanna til umræðna um bætta fiskveiðistjórnun og samræmingu veiða og vinnslu.

Sú leið, sem nú er farin, að hver og einn skipstjóri keppist við að ná sem mestu þar til að banninu kemur og fiskvinnslustöðvarnar neyti allra bragða til að koma afl­anum undan, leiðir til lélegrar nýtingar á aflanum. Til þess að ná hámarksnýtingu á þeim sjávarafla, sem á land kemur, eins og sú till. sem hér er til umr. gerir ráð fyrir að kannaðar verði leiðir til, tel ég nauðsynlegt fyrst og fremst að kannaðar verði leiðir til útbóta á eftirfarandi þáttum:

1. Vinnuaðstaða og kjör fólks þess, er vinnur að sjávarút­veg, verði stórlega bætt.

2. Lánafyrirgreiðsla til fiskvinnslustöðva verði stórlega aukin.

3. Aukið eftirlit verði með gæðum þess afla er að landi berst, og meðferð hans í fiskvinnslustöðvunum.

4. Tekin verði upp ný stefna í sambandi við fiskveiði­takmarkanir og stefnt að meiri jöfnun afla og stjórn­un sem samræmir veiðar og vinnslu.