25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, hafa oft farið fram hér umr. um þessi mál á svipuðum grundvelli og orðið hafa í kvöld. Menn líta misjöfnum augum á það, hvernig eigi að standa að því að reyna að jafna aðstöðumuninn í landinu. En ég skil ekki að það sé auðvelt að jafna þennan mun nema kannað sé til hlítar hvað hann er mikill. Og hvað er á móti því að slík úttekt sé gerð?

Þessi þáltill. er að mínu viti kannske of þröng, vegna þess að ef á að athuga þennan aðstöðumun í raun og veru, þá er t.d. ekki nóg að taka höfuðstað Norðurlands, ef ég hugsa til míns kjördæmis. Það mundi allt annað koma út úr þeirri athugun heldur en ef tekið væri t.d. strjálbýlið, sem mest er í N-Þingeyjarsýslu. Það er hægt að taka sýsluna í einu lagi, jafnvel suðursýsluna líka. Þetta stafar af því að það eru, betri kjör sem fólk á Akureyri býr við, miðað við t.d. raforkuverð o.fl., sem hefur ekkert lítið að segja eins og þau mál standa í dag.

Ég skil það ekki, að menn skuli vera á móti því að þessi könnun fari fram, svo að menn standi þá frammi fyrir því hver þessi munur er. Menn verða að athuga það, að ekki verður til frambúðar búið í þessu landi nema þessi munur sé minnkaður frá því sem hann er.

Hv. þm. tala um símakostnaðinn. Hvað halda menn að kosti margfalt meira að reka fyrirtæki norður á Húsavík eða norður á Akureyri eða austur á Egilsstöðum en að reka fyrirtæki og hafa samband við opinberar stofnanir á þessu svæði hér. Þetta er svo stór liður, — ég hef horft á þennan lið hjá mörgum fyrirtækjum, — að það er of­boðslegt. Það er auðvitað líka ýmis annar kostnaður og aðstöðumunur.

Það er ekki verið að tala um að jafna allt. Það er verið að tala um framfærslukostnaðinn. Mér fannst það vera dálítill misskilningur sem kom fram hjá hæstv. félmrh. Við vitum að það er mikill launamunur í landinu. Í þessu tilviki er aðeins verið að ræða um einn þátt þessara mála, þ.e. hvað framfærslan kostar í sjálfu sér á hverjum stað á landinu, og reyna að jafna hana eða gera okkur grein fyrir því hver hún er a.m.k.

Tveir hv. þm., hæstv. félmrh. og hv. þm. Vilmundur Gylfason, sögðu að það væri ein þjóð sem byggi í land­inu. Það er það sem við höfum álitið. Og við höfum álitið að þeir, sem stjórna landinu, ættu að gera svipað við sín börn. En réttlætið nær ekki svo langt. Þegar á að fara að jafna þennan mun, þá stendur í mönnum. Þetta er nú jafnaðarmennska í lagi. Nei, menn verða að gera sér fulla grein fyrir því, að borgríki stenst ekki í þessu landi. Ég er alveg klár á því, að við þurfum að viðhalda höfuðborg­inni. Hún þarf auðvitað að þróast á eðlilegan hátt. En hún má ekki verða risi, allt of mikill risi á þjóðarlíkam­anum, vegna þess að ég held að við munum ekki hafa góð lífskjör í þessu landi þegar fram líða stundir nema við getum nytjað gögn þess og gæði til lands og sjávar. Það hlýtur að vera hagur fólksins úti á landi, að mannlíf þróist hér á eðlilegan hátt og með góð lífskjör. Á sama hátt er það hagur Reykvíkinga að það sé t.d. ekki of ör flutning­ur fólks til Reykjavíkur. Það hefur komið fram hjá sum­um hv. þm., að atvinnuuppbyggingin hér sé ekki nógu góð. Ég er alveg á sama máli. Ég hef bent á það oft, að á undanförnum árum hafi einkaframtakið hér í Reykjavík ekki beitt áhrifum sínum og afli nógu mikið til þess einmitt að undirbyggja hér atvinnulífið. Við höfum unnið að því úti á landi, yfirleitt á félagslegum grundvelli, eftir því sem hægt hefur verið. Ég held að það væri ekkert gott fyrir það fólk, sem býr hér, ef nýr straumur kæmi utan af landsbyggðinni hingað. Það væri ekki heldur gott fyrir þjóðina í heild.

Ég held að með því að breyta þessari þáltill. þannig, að gerð yrði úttekt á svæðunum, ekki beinlínis í kjördæm­unum, heldur á svæðunum, þannig að menn geti gert sér grein fyrir því, hver þessi aðstöðumunur er í raun og veru, þá sé frekar hægt að vonast til að samstaða náist á Alþ. til þess að minnka þennan mun a.m.k. Og ég er alveg sammála hv. þm. Helga Seljan um það, að við erum tilbúnir að ræða jöfnun atkvæðaréttarins samtímis því að önnur aðstaða er jöfnuð í þessu landi.