25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Alhert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að það er heldur óþægilegt, að mér finnst, að vera barinn augum í hvert skipti sem hv. 6. landsk. þm. kemur í ræðustól, og má segja að það sé alveg sama hvar ég sit í salnum. En ég verð víst að þola það.

Ég vil taka undir með honum, að að sjálfsögðu ber að leiðrétta allt það misræmi sem er í þjóðfélaginu á þann hátt sem heildinni er fyrir bestu. Ég býst við að það sé það sem hv. þm. hafði í huga.

Hvað varðar þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég taka undir með þeim hv. þm. sem telja rétt að verða við þeim tilmælum sem hv. flm. hefur þar sett á blað, þó ég skilji hann ekki nógu vel. Það stendur t.d. í grg., með leyfi forseta:

Till. þessi til þál. er flutt til að bæta úr ástandi deilna um mismun á framfærslukostnaði eftir landshlutum.“ Ég skil það þannig, að hv. flm. vilji komast að þeirri niðurstöðu, hvort þessar deilur séu réttlætanlegar eða ekki. Á þeim forsendum er ég sammála og mun styðja þáltill. En síðan heldur áfram í grg.:

„Hliðstæð kjör innan sömu starfsstétta eru forsenda þess, að viðkomandi stétt dreifist eðlilega um landið.“ Nú vill svo til að það eru margar stéttir í Reykjavík og í þéttbýliskjörnum eins og Reykjavík sem ekki finnast annars staðar á landinu. Þetta er ekki hártogun af minni hálfu, heldur aðeins ábending.

Breiðholtshverfi og ég vil bæta við Árbæjarhverfi eru orðin það fjölmenn að nær helmingur borgarbúa, má segja, býr þar nú, á milli 30 og 40 þús. manns. Það segir sig sjálft að lífskjörin milli borgarhluta verða aldrei jöfnuð. Það er gersamlega útilokað. Ég vil geta þess, að þeir, sem stunda atvinnu í borginni; því stærsti vinnu­markaðurinn er í kringum Reykjavíkurhöfn eða annars staðar innan gömlu borgarmarkanna, eru aldrei undir 1/4 af þeim sem búa í Breiðholtinu, við skulum segja upp undir 10 þús. manns. Þessi 10 þús. manns þurfa að ferð­ast a.m.k. klukkutíma á dag með strætisvögnum ef umferðin er skapleg á þeim tíma sem þeir fara í vinnu. Það fer því gríðarlega mikill vinnustundafjöldi í að ferð­ast á milli. Það eitt er ójöfnuður t.d. miðað við okkur sem búum við hjarta borgarinnar og erum í göngufæri við vinnustaði og hins vegar þá sem verða að fara hingað í borgina ofan úr Breiðholti.

Því til viðbótar er hægt að segja að þessi stærri helm­ingur borgarbúa hafi svo til enga þjónustu, heilsugæslu­stöðvar að vísu, en enga þjónustu aðra, hvorki löggæslu, sjúkraflutninga né sjúkrahús. Á sumum tímum sólar­hrings, t.d. þegar fólk er að fara í eða úr vinnu í stórum hópum, komast þjónustutæki alls ekki á milli með þeim hraða sem nauðsynlegt er. Oft getur munað mannslífum. Það hefur komið fyrir að kviknað hefur í í Breiðholtinu og slökkvibíla hefur tekið óvenjulangan tíma að komast á staðina. Sama er uppi á teningnum ef slys eiga sér stað á þessum tíma o.fl.

Það er margt sem verður aldrei jafnað að fullu innan borgarinnar. Og það gerir ekkert til þó að það komi hér fram, að þjónustugjöld stofnana í Reykjavík, sem hafa komið hér á dagskrá, hafa ekki hækkað í hlutfalli við aukinn rekstrarkostnað. Ég held að slíkt eigi sér stað í öllum þjónustustofnunum borgarinnar. Hækkana­beiðnir borgarstjórnar hafa venjulega ekki verið sam­þykktar, vegna þess að þær fara inn í vísitölureikning. Hvað þýðir þetta fyrir Reykjavíkurborg? Tökum dæmi um eitt fyrirtæki sem hér hefur líka verið talað um, þ.e. Strætisvagna Reykjavíkur, vegna þess að fargjöldin hafa ekki hækkað reglulega. Niðurgreiðsla borgarsjóðs á s.l. ári er um 1 milljarður kr. Hefðum við fengið þessi þjón­ustugjöld hækkuð hefðu þau komið inn í vísitöluna. Það er m.a. sá hluti sem kemur eingöngu niður á borgarsjóði, en dreifist ekki á þjóðfélagið í heild. Það var talað um það einhvern tíma, ég man ekki hvað langt er síðan, að á líkan hátt hvíldu milli 4 og 5 milljarðar á borgarsjóði vegna þess að ýmis gjöld stofnana borgarinnar hefðu ekki fengið að hækka reglulega og eðlilega.

Það hefur komið fram í umr. hér, að ýmsar aðrar þjónustustofnanir á vegum einstaklinga, eins og t.d. heildverslanir, væru hér á Reykjavíkursvæðinu og það væri ákveðinn aukakostnaður við að ná sambandi við þann vörumarkað, sem er á stór-Reykjavíkursvæðinu, og svo aukakostnaður af sendingu til annarra landshluta. Þetta er alveg rétt. En það er langt síðan gerðar voru tilraunir, sem eru því miður enn þá á tilraunastigi í þeim landshlutum það sem mætti kannske halda að skilningur væri meiri vegna fenginnar reynslu, til að lækka vöruverð og lækka allan tilkostnað. Á ég þar við tollvörugeymslu á Reykjavíkursvæðinu sem var reist til að hafa vörur á lager í Reykjavík og geta dreift þeim með litlum tilkostn­aði til neytenda og þá í tiltölulega litlu magni hverju sinni þótt vörubirgðir í tollvörugeymslu væru miklar. Oft eru þessar vörubirgðir á kostnað erlendra aðila. Tollvöru­geymslan í Reykjavík hafði forgöngu um að stofna toll­vörugeymslu á Norðurlandi. Með því að flytja vörur í stórum stíl beint í tollvörugeymslu á Norðurlandi átti að minnka allan flutningskostnað til neytenda frá þeirri miðstöð og þar með létta á landsbyggðinni, þ.e. á Norð­urlandi. Hún átti líka að vera fyrir Austurland, en kostn­aðurinn við að dreifa vörum frá Norðurlandi til Austur­lands var ekki miklu minni en að dreifa vörunni beint frá Reykjavík til Austurlands. Þá var gerð tilraun til að stofna tollvörugeymslu á Austurlandi. Sú tilraun er að sjálfsögðu ekki enn komin í framkvæmd.

Við hér í Reykjavík höfum boðið öðrum landshlutum alla þá aðstoð við að ná sömu hagkvæmni í innkaupum og þar með minnka dreifikostnaðinn og Reykvíkingum er boðið. En skilningurinn er ekki enn þá þannig í við­komandi landshlutum að því boði hafi verið tekið, a.m.k. ekki enn þá á Austurlandi. Þegar skilningurinn verður fyrir hendi geta Austfirðingar, eins og Norðlendingar eru byrjaðir að gera, sameinast um miklu stærri innkaup, miklu hagkvæmari innkaup, látið erlenda framleiðendur eiga vöruna á staðnum og þar með stórminnkað allan tilkostnað. Þannig eru það ekki bara vondir Reykvíking­ar sem reyna að hafa af landsbyggðarmönnum, við erum líka að reyna að hjálpa til. — Þetta er meira til að svara því, sem komið hefur fram í umr. um þessa till., en um till. sjálfa.

Þá vil ég segja að það tók þá aðila, sem standa að tollvörugeymsluhugmyndinni sem er alveg nýr við­skiptamáti hér á landi, tvö ár að fá ráðamenn, sem voru ekki sú ríkisstj. sem nú situr, til að skilja hugmyndina.

Það tók annað ár að koma reglugerð í gegn vegna tor­tryggni um að hér væri um nýja viðskiptahætti að ræða. En eftir að öll pappírsvinna var fullunnin hefur ekkert fyrirtæki verið eins traust í tollgæslu og meðhöndlun á vöru og tollvörugeymslurnar eru, ekki einu sinni toll­þjónustan sjálf. Þetta sýnir að við erum oft fastir í göml­um vinnubrögðum. Við erum í viðjum gamalla vinnu­bragða. Það er kominn tími til þess að við hættum að reka stórfyrirtæki — við skulum jafna þjóðinni við stórfyrir­tæki — með úreltum aðferðum. Ég held að við getum allir verið sammála um að þjóðfélagið verður best rekið með því að taka upp nýtískulegri vinnubrögð á flestum og helst öllum sviðum en hingað til hafa verið tíðkuð og stórhuga vinnubrögð, breyttar aðferðir sem allir lands­hlutar og þá öll landsins börn njóti góðs af.

Ég tel ekki að Reykvíkingar standi að því að skapa hér einhvers konar borgríki. Það er langt frá því. Það er alveg rétt, að höfuðborgin má ekki verða neinn risi innan samfélagsins. Það er engum til góðs, ekki höfuðborginni sjálfri og síst af öllu Reykvíkingum, því viss kvöð og fjárhagsleg byrði, sem hefur verið reiknuð út og ég gat um fyrir einum tveimur árum úr þessum ræðustól, hvílir á höfuðborgum almennt og er höfuðborgarskylda. Það kostar peninga að vera höfuðborg, en auðvitað kemur annað á móti, það segir sig sjálft.

Ég vil benda á og taka sem dæmi tvær till. sem ég flutti á síðasta þingi og varða Póst og síma. Þær voru í þá átt, að símaskólinn og öll viðgerð á símatækjum, allur innflutn­ingur á símatækjum og öll fjárfesting í varahlutum í slík tæki verði lagt niður. Sú gríðarlega mikla upphæð, sem fer í að fjárfesta í varahlutalager sem verður kannske úreltur og tapast, er gjaldeyrir sem fer í súginn. Fjárfest­ing í símatækjunum sjálfum verði lögð niður sú gríðar­lega stóra upphæð, sem fer í þann þátt starfrækslu Pósts og síma, verði notuð til að símvæða landið. 200 þús. manna borg er ekkert voðalega stór borg erlendis. Við erum ekki miklu fleiri. Við skutum reikna með að við séum 250 þús. Við þurfum kannske um tvisvar, þrisvar sinnum fleiri símatæki, en ekki miklu fleiri númer í lang­an tíma. Það er engin risaframkvæmd, en það eru miklar fjarlægðir: Ég hef þá trú, að ef við símvæðum landið með sjálfvirkum síma ættum við að geta haft mjög lítinn mun á langlínusamtölum og innanbæjarsamtölum og sama mun á langlínusamtölum hvort sem þau eru til eða frá höfuðborginni eða ekki.

En hvað vildi ég fá í staðinn? Ég vildi fá sjálfstætt fólk. Ég vildi að rafvirkjar lærðu að gera við síma, lærðu að setja upp síma, að sjálf aðveitan ætti sér stað á nákvæm­lega sama hátt og er með vatnsveitur, hvort sem það er heitt eða kalt vatn, eða rafmagn, að Póstur og sími legði að og inn í hús, en allt sem færi fram innan dyra væri á vegum hins frjálsa fagmanns, innflutningsfyrirtæki flyttu inn símatækin á nákvæmlega sama hátt. Það væri alveg óhugsandi hér að hafa einokun á eldavélum eða einokun á útvarpstækjum — það hefur verið reynt — eða einokun á rafmagnskaffikönnum. Það er gjörsamlega útilokað að breyta til og gera slíkan innflutning að einokunarfyrir­bæri. Það á að aflétta einokun. (Gripið fram í: Það er ekkert útilokað.) Það er hreint útilokað að það sé hægt.

Það er hægt að lækka hinn gríðarlega mikla stofn­kostnað sem Póstur og sími hefur. Það fé, sem lagt er í tæki og varahluti og skólahald, á að myndast á hinum frjálsa markaði, en nota þá peninga, sem nú eru notaðir í þennan þátt rekstrar póst og símaþjónustunnar, til að símvæða landið og þar með jafna aðstöðu landsmanna allra.

Ég vil ljúka máli mínu með því að taka undir þessa till. svo sem margir aðrir hafa gert. Ég hef fengið á merkja­máli staðfestingu frá flm. á því, að ég skilji hana rétt. En ég er ekkert viss um að útkoman úr könnun eins og till. gerir ráð fyrir verði þéttbýliskjörnum óhagstæð. Það verður þá bara að koma fram.