27.03.1980
Neðri deild: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

123. mál, sönnun fyrir dauða manna af slysum

(Pétur Sigursson):

Herra forseti. Ég flutti mál þetta á 99. löggjafarþingi og hef leyft mér að endurflytja það nú ásamt hv. varaþm. sem hér sat um tíma, Tryggva Gunnarssyni skipstjóra.

Ástæða þess, að ég flyt þetta nú, er m.a. sú, að ekki alls fyrir löngu hlustaði ég á það í einum af fjölmiðlum okkar, að einn virðulegur lagaprófessor hafði orð á því, að nokkurt seinlæti ríkti í störfum Alþingis. Þegar ég flutti þetta mál upphaflega, á árinu 1978, var mér tjáð að einn úr þeirri stétt, einn af lagaprófessorum landsins, væri með mál þetta í endurskoðun á lokastigi. Og þar sem mér sýnist nokkuð hafa dregið úr afköstum hans við að koma þessu máli frá sér, þá endurflyt ég mál þetta nú, þó að ekki væri til annars en að reka á eftir því frá þeim sem að málinu vinna.

Í þeirri stuttu grg., sem nú er flutt með frv., bendi ég m.a. á tækniframfarirnar, sem eru ævintýri líkar á liðnum árum. Ég bendi á þróun véla- og öryggisbúnaðar skipa, á tæknibyltingu fjarskipta. Ég bendi á sams konar búnað í landi, sem hefur tekið sömu þróun. Ég bendi á að á þeim tíma, þegar þessi lög voru samþykkt — það eru nær 60 ár síðan — var ekki ótítt að vélarbilanir yrðu í skipum í hafi og að skip festust í ís dögum og jafnvel vikum saman, að þau strönduðu og færust án þess að um það fréttist langtímum saman. Ég bendi í þessari stuttu grg. jafnframt á ferðalög á landi, þegar menn lögðu upp í langar ferðir ríðandi eða gangandi, bæði í hópum og einir sér, án þess að til þeirra fréttist, kannske langtímum saman.

Nú er þetta gjörbreytt. Það er undantekning ef farið er í ferð án þess að vitað sé um ferðaleiðir og greint sé frá áætluðum komutíma viðkomandi aðila. Ef ferðamanna eða flugfars er saknað á landi uppi eru með stuttum fyrirvara komnar til starfa þrautþjálfaðar leitarsveitir á landi og flugvélar í lofti. Þessar leitarsveitir eru vel búnar til ferða um fjöll og óbyggðir í verstu veðrum og geta haft samband sín á milli og við stjórnstöð leitar með fullkomnasta fjarskiptabúnaði sem völ er á. Sama gildir um skipin. Minnstu skipin eiga að tilkynna um brottför og áætlaðan komutíma. Öðrum skipum, sem eru utan hafnar, ber að tilkynna sig til næstu strandstöðvar á ákveðnum tímum sólarhringsins. Þetta er lagaskylda nú. Auk þessa eru mörg þeirra í afmörkuðum hóp með fast fjarskiptasamband innbyrðis. Má þar til nefna þann góða og gamla sið, að fiskiskip frá sömu verstöð hafi reglulegt samband sín á milli. Ef minnsti ótti kemur upp um að skipi hafi hlekkst á eru þegar gerðar ráðstafanir til leitar af sjó og úr lofti og á landi eru fjörur gegnar.

Í ljósi þessa, með slík viðbrögð í huga og vitneskjuna um hve lengi menn geta hugsanlega haldið lífi, þótt í björgunarbát hafi komist, virðist með öllu óþarft að halda lengur í úrelt ákvæði laga nr. 23 frá 1922 um allt of langan tíma sem þarf að líða uns lögformlegur úrskurður er gefinn um að menn séu látnir hafi farist af slysum. Með því er ekki aðeins verið að ýfa upp sár aðstandenda, heldur er einnig um fjárhagslegt tjón erfingja að ræða.

Frv. þetta var á sínum tíma flutt að gefnum tilefnum og þau tilefni gefast því miður enn í dag. Eftir að hafa tilkynnt um áættaðan komutíma í höfn hafa bátar horfið á heimsiglingu og aldrei komið fram. Stundum hefur fundist úr þeim brak, stundum ekki. Allir, sem skynbragð bera á, vita að skipin hafa farist og að áhöfn er látin. Þetta vita aðstandendur ekki síst.

Þegar ég flutti frv. þetta í fyrra sinnið var nýlegt dæmi um að haldin var kirkjuleg minningarathöfn um skipshöfn sem farist hafði á heimsiglingu með skipi sínu. Ekkert lík hafði fundist. Sýslumaður gat þó eigi úrskurðað að mennirnir væru látnir fyrr en fimm mánuðum síðar vegna ákvæða gildandi laga. Þá fyrst er skylt að greiða lögbætur, og gildir hið sama um samningsbundnar tryggingabætur. Oft þarf að gera ýmsar fjármálalegar skuldbindingar fyrir aðstandendur þegar fyrirvinna fellur skyndilega frá, og þá er bóta- og tryggingafé bundið.

Hjá Tryggingastofnun ríkisins er sá háttur hafður á, að bætur eru greiddar þegar skiptaráðandi gefur fyrirmæli þar um. Skiptaráðandi getur hins vegar ekki gefið slík fyrirmæli fyrr en að sýslumaður eða bæjarfógeti hefur fellt úrskurð um dánardægur. Tryggingastofnunin greiðir þá bætur aftur í tímann eða frá úrskurðuðum dánardegi, en enga vexti.

Verið getur að um stærri upphæðir sé að ræða en hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna annarra lög- og samningsbundinna líf- og örorkutrygginga, sem eru þá á vegum einstakra tryggingafélaga. Óhætt er að fullyrða, að þar gilda ekki rýmri reglur um greiðslu bóta en hjá Tryggingastofnun ríkisins. Má því segja að um sé að ræða bæði fjárhagslegt tjón aðstandenda vegna vaxtataps, vegna fjárskorts, t.d. til íbúðakaupa vegna ekkna og barna en hvað frekast þó vegna rýrnunar þessara fjármuna í verðbólguþjóðfélagi okkar.

Í 4. og 5. gr. frv. er lagt til að bætt verði við lögin nýjum ákvæðum svo sem þar segir. Efni 4. gr. á að sjálfsögðu að skoða í ljósi þeirra atburða, sem skeð höfðu hér á landi þegar frv. var flutt, þegar menn hverfa af völdum annarra manna.

5. gr. skýrir sig sjálf, þótt finna megi sambærileg rök og við fyrri greinar frv. um að þar skuli tímamörkin einnig vera einn mánuður. Á móti kemur sú röksemd, að undir slíkum kringumstæðum sé hvað auðveldast fyrir mann að láta sig hverfa. En flm. telja samt sem áður að þriggja mánaða mörkin séu réttlætanleg, sérstaklega ef um fyrirvinnu maka og barna er að ræða, og eins vegna tækniþróunar í lögreglurannsóknum.

Ég veit að hæstv. núv. dómsmrh. þekkir til vandamála sem stafa af því, að þessi gömlu, úreltu lög eru enn í gildi og þeim hefur eigi verið breytt. Og ég treysti því, að hann ýti á eftir því, að þessari löggjöf verði breytt.

Ég legg til, herra forseti, að þegar umr. um málið er lokið verði því vísað til hv. allshn.