27.03.1980
Neðri deild: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

123. mál, sönnun fyrir dauða manna af slysum

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta er um breyt. á lögum nr. 23 frá 19. júní 1922, um sönnun fyrir dauða manna, sem ætla má að farist hafi af slysum. Þessi lög eru komin til ára sinna, eins og hv. 1. landsk. þm. gat um. Það er því nauðsynlegt að breyta þeim á ýmsan hátt miðað við núverandi aðstæður.

Við höfum, ég og hv. 1. landsk. þm., rætt þetta mál nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum eða árum. Okkur er báðum fullljóst að þessum lögum þarf að breyta. Við þekkjum dæmi, sem gerst hafa, sem sanna það áþreifanlega, eins og hv. frsm. vék að.

Ég fagna því þessu frv. og tel það allra góðra gjalda vert og raunar alveg nauðsynlegt. En hins vil ég geta jafnframt, að á vegum dómsmrn, hefur um alllangt skeið verið í undirbúningi frv. af þessu tagi. Ég hygg að það sé nú komið á lokastig undirbúnings og væntanlega verður málið athugað þar allra næstu daga. Vonandi tekst að leggja það fram hér á þinginu — við skulum segja eftir páska. Mun þá verða talað fyrir því við fyrsta tækifæri, þannig að það komist til nefndar. Mætti þá væntanlega, miðað við þann gang mála, skoða þessi frv. bæði samtímis í sömu nefnd. Er þá vel farið og von um góðar úrbætur á þessu sviði.