28.03.1980
Neðri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

104. mál, lögréttulög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. til lögréttulaga hefur þrívegis legið fyrir Alþ. á s.l. fjórum árum, og á 99. löggjafarþingi 1977–1978 komst málið til síðari deildar. Nú var málið lagt fram skömmu fyrir stjórnarskipti í febrúarmánuði.

Málið hefur hlotið nokkra umræðu í þinginu. Fyrir því hefur verið mælt mjög ítarlega í janúar 1977 og í mars 1978 af þáv. dómsmrh. og tel ég ekki ástæðu til að endurtaka þá framsögu. En til fyrri umræðna er vísað í upphafi grg. frv. nú.

Eftir umfjöllun málsins á þinginu 1978 óskaði þáv. dómsmrh. þess, að réttarfarsnefnd, sem samið hafði frv., tæki það til endurskoðunar. Skilaði nefndin því til dómsmrn. síðast í september. Voru síðan gerðar á því nokkrar breytingar á vegum rn. í janúar s.l. og í því formi var málið lagt fyrir Alþ. Ég tel á þessu stigi aðeins ástæðu til að gera stuttlega grein fyrir þeim breytingum, sem réttarfarsnefnd gerði á fyrra frv., og síðan þeim breytingum, sem gerðar voru af rn. hálfu.

Svo sem kunnugt er má lýsa höfuðtilgangi þess að stofna til nýs millidómsstigs, lögréttu, sem tvíþættum: að stíga enn eitt skref og það mikilvægt í þá átt að skilja að dómgæslu og stjórnsýslu og í öðru lagi að stuðla að auknum möguleikum á vandaðri málsmeðferð og þó fremur að hraðari meðferð dómsmálanna heldur en hitt.

Svo sem kunnugt er stefnir frv. að því, sem er óbreytt frá fyrri gerðum, að í framkvæmd verði dómsstig að mestu leyti tvö, þannig að minni háttar mál fái fyrri meðferð í héraðsdómi og verði aðeins áfrýjað til lögréttu, en meiri háttar mál fari fyrir lögréttu sem fyrsta dómsstig og megi áfrýja þeim til Hæstaréttar.

Breytingarnar, sem réttarfarsnefnd gerði á frv. 1979, voru þær veigamestar, að lögrétta skyldi vera ein, en ekki tvær, en haldið yrði ákvæðum um að þinga mætti hvar sem er á landinu, eftir nánari ákvæðum, þannig að sú breyting yrði ekki eins veigamikil fyrir landsbyggðina og ætla mætti. Er með þessu ætlað að draga úr þeim auknu embættisstofnunum sem hafa gert menn hikandi við að fallast á þessa nýskipun. Enn fremur er í tillögum réttarfarsnefndar gert ráð fyrir nokkuð breyttu fyrirkomulagi við ákvörðun dómarafjölda við meðferð hvers máls. Hins vegar takmarkar nefndin meira en í annarri gerð frv. heimildir til að einn dómari dæmi í lögréttu sem fyrsta dómsstigi. Þá er loks að geta hyggilegra ákvæða um heimild til upphafsmeðferðar lögréttumála til þingfestingar og annarra upphafsaðgerða í héraði, þótt lögréttan fái síðan málið til meðferðar. Er þetta nokkru auðveldari meðferð málanna úti um landsbyggðina.

Ekki er hægt að segja að breytingar þær, sem í rn. voru gerðar á frv. í janúar, séu mjög veigamiklar. En réttarfarsnefnd mun ekki vera þeim fyllilega samþykk. Ákvæðum um dómarafjölda er breytt og hámarkstala felld burt. Önnur skipan er ráðgerð á vali forseta lögréttunnar og varaforseta, þ.e. að dómurinn kjósi þá sjálfur úr sínum hópi. Þá er loks með breytingu rn. aftur aukið á heimildir til að einn dómari fari með mál ef lögréttan er fyrsta dómsstigið.

Ég vil, um leið og ég óska þess, að málið fái vinsamlega athugun, minna á að frv. um breyt. á lögum um meðferð einkamála í héraði, sem tengt er þessu frv. og lagt var fram í janúarmánuði, getur nú efnislega fengið sjálfstæða afgreiðslu, án tillits til þess hvort afgreiðslu á lögréttufrv. kunni að seinka. Er það á ýmsan hátt mikilvægt til aukins hraða á meðferð einkamála.

Ég vil svo óska þess, að lögréttufrv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.