02.04.1980
Neðri deild: 55. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

135. mál, orkujöfnunargjald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er svona eftir öðru með hvílíkum hætti þetta mál hefur verið rakið. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að frsm. — ég veit ekki hvort á að kalla það 1. minni hl. — fjh.- og viðskn. fór með fleipur hér áðan, var með óviðurkvæmileg ummæli í garð þn.-bræðra sinna og svigurmæli. Mér þykir að vísu hálfóviðkunnanlegt að hann skuli ekki vera viðstaddur þegar honum er svarað, en hins vegar eftir öðru að sá háttur skuli vera á hafður í þessu þinghaldi, að ekki sé hægt að koma við eðlilegum aths. og leiðréttingum við þá menn, sem þykjast hafa það í hendi sér að þetta þinghald standi yfir hátíðisdagana. En það, sem þessi hv. þm. gaf í skyn og talaði um með miklum ábyrgðarþunga, var að það væri eitthvað einsdæmi — ég sé að hann er kominn, hv. þm., — það væri eitthvert einsdæmi í þingsögunni þótt Alþ. tæki sér tíma til þess að athuga skattaálögur eins og þær sem hér eru til umr. Það er alger misskilningur hjá hv. þm., eins og glöggt kemur í ljós þegar þessi saga er rakin. Og þá mun það einnig koma í ljós, sem þessi hv. þm. ætti einnig að vita, að einmitt með því að fresta því, að ríkisstj. komi fram skattaálögum sem þessum, hefur hvað eftir annað tekist að fá þær lækkaðar í meðförum þingsins, jafnvel allt fram á síðasta dag, jafnvel í síðari þd., vegna þess að þm. hafa þá fundið þann andbyr, sem þessar ráðstafanir ríkisstj. mæta, og gert sér grein fyrir því, að með nýrri skattlagningu af þessu tagi eru þeir að fara ofan í vasa skattborgaranna með þeim hætti sem almenningur í landinu kann ekki við og allra síst á tímum eins og núna, þegar kaupmátturinn fer ört minnkandi og ríkisvaldið hefur úti öll spjót til þess að níðast enn meira en ella á lítilmagnanum, svo að ég fullyrði að þess eru engin dæmi í þingsögunni, að ríkisstj. hafi á jafnskömmum tíma og nú sýnt með jafnmargvíslegum og fjölbreytilegum hætti fjandskap sinn við launafólkið í landinu.

Ég vil minna á það, að hinn 1. apríl árið 1960 lagði hæstv. núv. forsrh. á 3% söluskatt, — hinn 1. apríl árið 1960. Sú löggjöf var mjög vel undirbúin og fór ekki leynt. Sérstök nefnd var skipuð í málið og engin ummæli þá höfð um það, þegar það frv. kom fram, að það yrði afgreitt á einum degi í gegnum þingið, eins og nú er krafist. Næst gerist það, að þessi sami maður — þá fjmrh. enn þá — hækkar söluskattinn 1. febr. 1964 upp í 5.5%. Hækkunin var í tengslum við ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Málinu var útbýtt á fundi Nd. 23. jan. og samþ. á fundi viku síðar. Þá fékk Alþingi m. ö. o. heila viku til þess að fjalla um málið, og þótti eðlilegt og sjálfsagt á þeim tíma, jafnvel þótt þá væri gert ráð fyrir því að hækka söluskattinn úr 3% í 5.5%, sem er enn hærra hlutfall en nú er og nær tvöfalt meiri hækkun söluskattsins en hér er um að ræða, þar sem talað er um 1.5%. Hinn 1. jan. 1965 hækkar söluskatturinn enn og að þessu sinni upp í 7.5%. Frv. um þá hækkun var lagt fram á Alþ. 15. des. 1964, og ef þingtíðindi eru lesin kemur í ljós að Framsfl. sennilega — eða a. m. k. stjórnarandstaðan óskaði eftir útvarpsumr. um málið sem fram fóru sex dögum síðar eða 21. des. Ef þetta er haft í huga þarf ekki að lýsa því ábyrgðarleysi sem flokksbræður hv. 3. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, hafa sýnt með þessu tiltæki sínu, að ætlast til að þetta mál fáist ítarlega rætt á Alþ. í tengslum við fjárl. Það kom aldrei til greina að þetta mál yrði sýnt á mánudegi og síðan gusað út úr þinginu tveim dögum síðar án þess að það fengist tekið upp og rætt í tengslum við fjáröflunarleiðir ríkissjóðs í heild, eins og eðlilegt hlýtur að teljast. En það er eftirtektarvert, að í þetta skipti voru lögin gefin út 24. des. eða á aðfangadag, en það mátti heyra á þessum þm. í dag, þegar hann talaði um að þinghaldið ætti að halda áfram núna á skírdegi, að hann óskaði sér þess helst að þessi söluskattshækkun yrði undirskrifuð á föstudaginn langa, og mun hann þá hafa í huga að hátíð sé til heilla best.

Hv. 9. þm. Reykv. segir svo í ljóðinu Kveðja:

Við dauðlegir menn

eigum líf

sem við árangurslaust gróðursetjum

í eyðimörkum vona okkar.

Í samfélagi þar sem vinir hata

eða óvinir skilja

þar lifnar ást okkar

og deyr.

Þar kveðjast vinir

og hlátur og söknuður

heyja hæglátt stríð:

Partir c'est mourir un peu.

Á stundum eru langir föstudagar

en engir páskar.

Og það er einmitt þetta, sem verið er að boða hér, að föstudagurinn langi haldi áfram, í líkingum talað, það verði ekki aftur bjart fljótt á eftir og minnir á vísu úr Krukkspá:

Er frægðarþjóðin fjálga

festir sig upp í gálga,

veit heimurinn hálfur

fyrr en haninn sjálfur,

hverjum er verið að sálga.

Mun svo vera, að eins og komið er nú meiri hl. hér á Alþ. og þeirri ríkisstj., sem kaus að bjarga sæmd þess, þá sé sú þjóð, sem henni treystir til þess að hækka ekki skattana og reyna að bæta heldur lífskjörin í landinu, komin langt með að sálga öllu framtaki hér, þannig að fram undan verði daprir dagar, langur föstudagur og lítil upprisuhátíð.

Hinn 1. mars 1970 var söluskatturinn hækkaður upp í 11%. Frv. um það var útbýtt 11. des. 1. mars 1973 var lagt á sérstakt viðlagagjald, 7. febr. var það frv. lagt fram. 25. mars 1974 var söluskatturinn enn hækkaður, svokallaður söluskattsauki upp fundinn, 4%, þannig að söluskattur 11%, viðlagasjóðsgjald 1%, olíugjald 1% og 4% söluskattsauki voru samtals 17%. Þessu var útbýtt 6. mars. Ég minnist þess sérstaklega í þessu sambandi, að í þessu frv. hugðist þáv. vinstri stjórn hafa söluskattsviðaukann hærri, ég man ekki hvort það voru 5 eða 6%, en í meðförum þingsins og þegar þm. fengu þrýstinginn að heiman, fundu andstöðuna frá fólkinu í landinu og fundu að þeir voru að tapa fylgi, þá reyndu þeir þó að bjarga því sem bjargað yrði með því að gefa eftir, eins og hæstv. núv. ríkisstj. hefur gefið eftir og hrokkið úr 2% niður í 1.5%.

Söluskatturinn er hækkaður 1. okt. 1974 með brbl. Söluskatturinn er hækkaður 1. mars 1975, og raunar ekki söluskatturinn, heldur er viðlagasjóðsgjaldið þá hækkað upp í 2%. Þetta mál gengur fljótt í gegnum þingið vegna þess að þar var um ráðstafanir að ræða vegna snjóflóðanna á Norðfirði og kemur þessu máli ekki við og er ekki um eiginlega söluskattshækkun að ræða. Síðan hefur söluskatturinn ekki verið hækkaður fyrr en 15. sept. 1979, þegar hann var með brbl. hækkaður upp í 22%.

Eins og af þessu sést er það alger misskilningur og beinlínis rangt hjá hv. þm., að það sé eitthvert einsdæmi, að það sé eitthvað óeðlilegt, að Alþ. óski eftir því að fá að ræða ítarlega um þá söluskattshækkun, sem fyrir þingið hefur verið lögð. Þvert á móti er það skylda alþm. að fara nákvæmlega ofan í hvert einasta atriði í þessu sambandi og gæta vel að því, hvort ríkisstj. sé ekki á villigötum, hvort það sé t. d. svo, að ekki megi koma fram sparnaði innan ríkiskerfisins í staðinn fyrir að auka skattheimtuna eða hvort — eins og nú sýnist — ríkisstj. sé ekki fullfrek til fjárins og ætli sér um of og hyggist fara dýpra ofan í vasa skattborgaranna en efni standa til. Og ég verð að segja það, að það þætti saga til næsta bæjar, þar sem hér á sæti t. d. maður í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, ef sá hv. alþm. mundi ekki lýsa afstöðu sinni til þessa frv., útskýra fyrir sínum umbjóðendum, bæði kjósendum sínum og umbjóðendum sínum innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hvaða skoðun hann hefur á þeirri samþykkt sem gerð hefur verið í stjórn BSRB í sambandi við ofurskattlagningu ríkisstj., sem bitnar með ofurþunga á launafólki í landinu. Ekki síst vil ég segja það um þá skattlagningu sem hér um ræðir, að það kemur illa við þá mörgu menn innan BSRB sem munu vera skilvísustu skattgreiðendur beinna skatta í landinu, þannig að beinu skattarnir koma þyngra á þá heldur en flesta aðra í þjóðfélaginu, að svo virðist sem þessi stjórnarmaður í BSRB muni nú óhikað og af fúsum og frjálsum vilja vera reiðubúinn til þess að samþykkja þessa skattlagningu ofan á þá knöppu og kröppu skattstiga, sem hæstv. fjmrh. hefur gerst svo djarfur að veifa framan í þjóðina — og leyfir sér að segja um leið að hann ætli að bjarga hinum lægst launuðu. Ég verð að segja það, að ósvífni af þessu tagi á sér varla hliðstæðu í þingsögunni, nema þá með því að koma hingað inn á hið háa Alþingi í skjóli loforða og yfirlýsinga Sjálfstfl. um að berjast ekki aðeins gegn allri frekari skattheimtu, heldur einnig troða öllum sköttum vinstri stjórnarinnar ofan í ruslakörfuna, þar sem þeir eiga þó svo sannarlega heima — og væri í því sambandi líka fróðlegt og skemmtilegt að fá að sjá hvernig hæstv. iðnrh. varði því fé, sem hann fékk á síðasta ári til þess að draga úr orkukostnaði í landinu, til margs konar orkusparandi aðgerða. — [Fundarhlé.]