09.04.1980
Efri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

142. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki ætlun mín eða ríkisstj. að reka svo á eftir þessu máli að menn fái ekki tækifæri til þess að kanna það í þaula hér á hv. Alþingi. Tilgangurinn með framlagningu þessa máls er þvert á móti sá, að reyna að leita eftir samstöðu um þær lagfæringar sem reynslan hefur sýnt okkur að nauðsynlegar eru á lögum um heilbrigðisþjónustu. Við þm. Norðurl. e. vil ég segja það, að auðvitað væri eðlilegast að þeir reyndu að taka á því í sinn hóp, við sína umbjóðendur í héraði, hvaða lausn er æskilegust á því vandamáli, sem hér er um að ræða og birtist í því að ómögulegt hefur reynst að fá lækni til Raufarhafnar og mjög erfitt að fá lækni til Þórshafnar. Það kann að vera að viðkvæmnismál séu á báðum svæðunum slík að erfitt sé að höggva á þennan hnút, en það er skylda þm. að gera það, að finna lausn á þessum málum, því að núverandi fyrirkomulag er í raun og veru gersamlega óþolandi fyrir það fólk, sem á þessu svæði býr, og þá líka og kannske sérstaklega fyrir þá sem eiga að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni í landinu.

Ég vil einnig minna á það, að samkv. lögum nr. 56/1973 var sá háttur hafður á, sem hér er gerð till. um núna, og það gafst í raun betur en það fyrirkomulag sem ákveðið var með lögum nr. 57 frá 1978. En ég held að það sé sem sagt nauðsynlegt að þm. kjördæmisins, Norðurl. e., sjái til þess, að umbjóðendur þeirra geti sem best fjallað um málið, og sjálfsagt að heilbrigðisráð kjördæmisins líti á það.

Ég vil einnig deila þeim sjónarmiðum með hv. 3. þm. Norðurl. e., sem hér komu fram hjá honum varðandi viðhaldskostnað sjúkrahúsa. Það er atriði sem þarf að athuga nánar. Við lítum ekki þannig á í heilbrmrn., að við séum hérna með hinn endanlega „átoriseraða“ sannleik í þeim efnum. Ef hv. Alþ. gæti komið þarna með aðra „formúleringu,“ þá yrði því vafalaust vel tekið. En þessi málefni eru í ólestri að mínu mati, þessi kostnaðarskiptingar- og stjórnunarmál, víða í heilbrigðisþjónustunni. Á þessu verður að taka. Jafnvel þó að málin séu viðkvæm á ýmsum svæðum verðum við að taka á þessum málum. Og til þess er nú Alþ. einu sinni kjörið að fást við mál, jafnvel þó að þau séu erfið.

Ég vil einnig — úr því að ég kom hér í ræðustólinn aftur — ítreka það sem ég sagði áðan, að heilbr.- og trn. d. fær einnig fyrir milligöngu rn. þær till. aðrar, sem fram hafa komið um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, þó að rn. hafi ekki tekið afstöðu til þeirra, þannig að heilbr.- og trn. Ed. og kannske nefndir þingsins geti fjallað um endurskoðun á þessum lögum í nokkurri heild. Og þá verður það auðvitað að vera þannig, þó að ekki sé rekið á eftir með afgreiðslu á þessu vori, að menn gangi þannig að verkinu, að það sé nokkurn veginn ákvörðunartækt með haustinu og menn láti þetta ekki niður falla vegna þess að ríkisstj. sé ekki með pískinn á lofti um það, að málið þurfi að afgreiða á fáeinum vikum. Þannig vill það því miður oft verða þegar ekki er rekið harkalega á eftir málum, þá vilja þau sofna í nefndum. Það má ekki verða í þessu tilfelli, þó að ekki sé endilega ætlast til þess að málið sé afgreitt svo að segja á næstu vikum.