20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og kom fram þegar ég mælti fyrir frv. því sem hér er komið til 2. umr., var ég frá upphafi fús til að fallast á breytingar eins og þær sem gerðar hafa verið á frv. í hv. fjh.- og viðskn. og er mjög sáttur við niðurstöður n. Vera má að Alþ. það sem kemur saman að loknu jólaleyfi þurfi að taka málið upp að nýju, ef ekki reynist unnt að afgreiða fjárlög fyrir 15. febr., og verið getur að þá þurfi að framlengja bráðabirgðafjárgreiðsluheimildina til ríkisstj. eitthvað lengur, en þetta er þó alla vega til að ýta á að Alþ. og fjvn. hraði störfum sínum eftir föngum.

Ég vil aðeins láta það koma fram í sambandi við þá breytingu sem gerð er á 3. gr., að e.t.v. væri ástæða til fyrir hv. fjvn., sem er fjölmenn og skipuð mönnum víðs vegar að af landinu, að taka til athugunar á fundi sínum hvort hægt væri að fallast á að undirnefnd fjvn. fengi umboð n. til að samþykkja fyrir hönd n. framkvæmdir á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja og endurlán til samtaka á þeirra vegum, sem eru skilyrði fyrir því að fjmrn. geti veitt umbeðna fyrirgreiðslu, vegna þess að mér er kunnugt um að mjög fljótlega um og eftir áramót, jafnvel á milli jóla og nýárs, þarf að svara ýmsum aðilum, t.d. bæði Orkubúi Vestfjarða, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og fleiri aðilum sem þurfa að fá tafarlaus svör við því hvort þeim sé heimilt að stofna til lántöku eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. Þá getur verið torvelt að kalla saman fjvn. alla, sem eins og kunnugt er er skipuð 9 mönnum víðs vegar að af landinu.

Ég vil því beina því til formanns fjvn. og til fjvn., hvort hún gæti ekki á fundi sínum tekið til athugunar að veita undirnefnd fjvn. þá heimild, sem hér er gert ráð fyrir, til þess að samþykkja fyrir hönd fjvn. slíkar fyrirgreiðslur. Ég held að ekki væri gott ef það kæmi upp að svara þyrfti erindum af þessu tagi, sem brýn nauðsyn væri að svara, og það væri ekki hægt af þeirri einföldu ástæðu að torvelt væri að ná saman þeirri nefnd sem verður að samþykk)a slík erindi til þess að við beiðninni sé hægt að verða. Ég vil því gjarnan beina því til fjvn., hvort hún geti fallist á að undirnefndin hafi umboð til slíks frá fjvn.