09.04.1980
Neðri deild: 57. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

135. mál, orkujöfnunargjald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og menn minnast var það nú svo og sýnist ólíklegt, að þegar þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð gerðu ýmsir sér einhverjar vonir um að hún mundi standa sig a. m. k. fullforsvaranlega, þó fæstir gerðu sér háar hugmyndir. Satt að segja minnti þetta mig á litla limru sem Jóhann S. Hannesson fyrrv. skólameistari orti einu sinni:

Maður hlýtur að telja á því tormerki

að tala á þorra um vormerki

þótt svolítið hlýni

nema helst þá í gríni

og með hugsuðu öfugu formerki.

Sannleikurinn er náttúrlega sá, að eftir þá reynslu, sem nú er orðin, hlýtur „hugsað öfugt formerki“ að verða fyrir framan flestar þær vonir sem menn gerðu sér til þessarar hæstv. ríkisstj.

Ég hafði í ræðu minni fyrir páska gert það mjög að umtalsefni á hversu fölskum forsendum sá málflutningur væri reistur, að söluskattshækkanir hefðu á undanförnum árum alltaf farið á einum eða tveim dögum í gegnum þingið. Þvert á móti kom í ljós við athugun málsins að það var eins um þessa skattlagningu og margar aðrar, að þingið hafði séð ástæðu til að athuga vel sinn gang í þessum málum. Oftar en einu sinni hafði það komið fyrir, að sú sterka andúð, sem formælendur slíkra söluskattshækkana urðu fyrir, olli því, að þeir treystu sér ekki til að ganga jafnlangt í þeim efnum og þeir ella hefðu gert.

Hæstv. iðnrh. er nú ekki viðstaddur, en hann er alltaf að hrósa sér af að hafa staðið að því á haustdögum 1978 að fella niður söluskatt af matvælum. Þetta er að sjálfsögðu mjög ofsagt. Í stórum dráttum var það þannig, að söluskattur var ekki á matvælum á þeim tíma ef undan eru skildar landbúnaðarvörur, kjöt og mjólkurafurðir. Að öðru leyti var búið að nema söluskattinn brott af flestum landbúnaðarvörum, eins og ég veit að menn muna, nema af dósamat eða einhverju þvílíku. Þegar þeir Alþb.-menn eru nú að hrósa sér af því að hafa gert þetta á þessum haustdögum, þá er því um ýkjur einar að ræða. Hins vegar er ástæða til þess að minna á þær sjónhverfingar sem ráðherrar Alþb. og vinstri stjórnin viðhöfðu á þessum haustdögum, þegar tekjuskattur var lagður öðru sinni á sömu tekjurnar á sama árinu. Það var þá sem hið fræga sjónarspil var leikið og þannig farið með vísitöluna að hæstv. núv. heilbrmrh. lýsti því yfir í þessum ræðustól í byrjun febrúarmánaðar, að hann hefði fundið upp „patentið“ og væri búinn að koma verðbólgunni niður í 20%. Hann taldi að það væri ekki mikill vandi að finna leiðir til þess — með einu pennastriki og án þess að nokkur fyndi fyrir því — að koma verðbólgunni niður. Það verður að segja framsóknarmönnum til hróss, að þeir voru ekki jafntrúaðir á að þetta hefði tekist. Miklir vaxtaverkir voru á þessum tíma með ríkisstj. og mikið um það talað, bæði í fjölmiðlum, hér á Alþ. og annars staðar, að ríkisstj. hefði í undirbúningi miklar ráðstafanir í efnahagsmálum sem áttu að gjörbreyta þróuninni í landinu og valda því, að menn gætu horft björtum augum til framtíðarinnar. Eins og við munum varð niðurstaðan af þessu öllu Ólafslög, þau frægu lög þar sem skýrt er kveðið á um að ríkisvaldinu eða ríkisstj. sé skylt að hafa um það ítarlegar samræður og samráð við launþegasamtökin áður en gripið sé til ráðstafana í efnahagsmálum er snerta hvert einasta mannsbarn í landinu.

Þessi ríkisstj. hefur ekki setið lengi. Það var ofurlítið gaman að lesa það í Morgunblaðinu í dag, sem haft var eftir hæstv. fjmrh., að óvíst væri að bensínhækkun yrði núna í vikunni, sennilega mundi hann bíða með hana fram til helgarinnar til þess að saman gætu farið bensínhækkunin og söluskattshækkunin. Það minnir okkur á það, að eina vonin um að verðlag geti orðið nokkurn veginn stöðugt í landinu er orðin sú, að það séu svo margar hækkanir á vörum og þjónustu að bögglast fyrir ríkisstj. að hún komi þeim ekki frá sér öllum í einu og þess vegna geti orðið nokkurt hlé á hækkunum á meðan ríkisstj. er að koma þessu frá sér. Það er nú svo komið, að þetta er orðin helsta vonin til að eitthvert hlé verði á þessum málum.

En þó að þetta láti spaugilega í eyrum og menn geti haft af því nokkurt gaman, þá kemur það í ljós, að ýmsir aðilar í þessu þjóðfélagi líta þessa þróun mjög alvarlegum augum. Á ég þá fyrst og fremst við launþegasamtökin í landinu. Ég held að nauðsynlegt sé, þó að það liggi hér fyrir í þingskjölum, að rifja nokkuð upp í þessu samhengi sumar þær samþykktir sem gerðar hafa verið af aðilum vinnumarkaðarins.

Hinn 1. apríl sendi Alþýðusamband Íslands frá sér svo hljóðandi ályktun:

„Á fundi viðræðunefndar Alþýðusambands Íslands í dag var fjallað um þær auknu álögur sem boðaðar eru í formi útsvarshækkunar, hækkunar tekjuskatts og söluskatts. Alþýðusambandið minnir á að þetta gerist á sama tíma og kaupmáttur launa minnkar stöðugt. Aðgerðir stjórnvalda nú hljóta að auka dýrtíðina og rýra almenna kaupgetu. Aðgerðirnar eru þannig síst til þess fallnar að greiða fyrir kjarasamningum, og mótmælir viðræðunefndin þeim því harðlega.“

Sama dag sendi stjórn BSRB frá sér svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn BSRB mótmælir þeim starfsaðferðum ríkisstj. við undirbúning efnahagsráðstafana að hafa ekki samráð við samtök launafólks um heildarstefnu í þessum málum. Í lögum er gert ráð fyrir samráði við samtök launafólks og slík samráð eru einnig boðuð í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. En engin samráð hafa verið höfð við launþegasamtökin. Þær nýju stórfelldu álögur á almenning, sem þegar hafa verið samþykktar á Alþ. eða fyrirhugaðar eru samkvæmt stjórnarfrv., þ. á m. um orkujöfnunargjald, eru olía á verðbólgueldinn, sem enn hlýtur að magnast við gengislækkanir sem sífellt eru framkvæmdar. Því mótmælir stjórn BSRB eindregið þessum nýju álögum.“

Þannig kveður nú við hjá þessum tveim stærstu heildarsamtökum launþega. Það er einnig eftirtektarvert að kynna sér þau ummæli sem Ásmundur Stefánsson framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands hefur viðhaft í þessu sambandi í viðtali við dagblaðið Vísi hinn 2. apríl s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Að sögn Ásmundar Stefánssonar framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands eru þessar hækkanir ekki heppilegar því að þær komi í heild illa niður á launafólki. Einnig eru samningaviðræður nú í fullum gangi. Taldi hann að söluskattshækkunin nú væri svipuð í krónutölu áætluð og hækkunin í beinum sköttum, eða um 7 milljarðar hvor fyrir sig. Ásmundur var spurður hvert væri viðhorf Alþýðusambands Íslands til beinnar eða óbeinnar skattlagningar, og sagði hann að þar væri um fleiri en eitt viðhorf að ræða. Hefði það mál ekki sérstaklega verið rætt í sambandi við þessar álögur, enda væri hér ekki um að ræða val á milli skatta, heldur hækkun á báðum sviðum.“

Svo mörg voru þau orð. Og þau lýsa því sannarlega, hvernig komið er fyrir fólki í þessu landi. Það er ekki nóg með það, að í sambandi við fiskverðsákvörðun hafi ríkisstj., eins og hér var áður rakið af hv. 1. þm. Vestf., beitt sér fyrir ráðstöfunum sem ganga þvert ofan í það samkomulag sem áður hefur verið gert. Við sjáum það einnig í sambandi við hinar nýju álögur, sem verið er að leggja á atvinnureksturinn, að ekki er hægt að treysta ummælum ráðh., eins og annar þeirra manna, sem atkvæði greiddu með fiskverðshækkuninni, talaði um í viðtali við blöðin þegar hann sá að ríkisstj. ætlaði að svíkja þau fyrirheit sem hún hafði gefið í sambandi við þá fiskverðsákvörðun. Launþegar finna einnig að þeir eiga um mjög sárt að binda, sérstaklega þeir launþegar sem höfðu trúað því í blindni að Alþb. mundi — ef því sýndist svo og hvernig sem á stæði — standa á bak við launþega í landinu. Þessi gamla þjóðsaga hefur nú reynst vera uppspuni frá rótum. Í þessu sambandi má einnig rifja það upp, hvað varð á sínum tíma til þess að forveri Alþb., Sameiningarflokkur alþýðu sósíalistaflokkurinn, náði þeirri stöðu í íslenskri pólitík sem það hefur í dag. Það var í sambandi við gerðardóminn sem settur var á sjómenn, ef ég man rétt, í árslok 1941 eða um þær mundir. Fylgi Sameiningarflokks alþýðu sósíalistaflokksins margfaldaðist á skömmum tíma og það var m. a. þessi alda sem fleytti Sigurði Guðnasyni, Eðvarð Sigurðssyni og fleirum inn í stjórn Dagsbrúnar. Í nokkra áratugi gat Alþb. logið því að almenningi, að því einu væri treystandi í þeim efnum, að það mundi undir engum kringumstæðum setja gerðardóm á almenn launþegasamtök eins og sjómannasamtökin.

Á s. l. sumri kom í ljós að þetta var ekkert annað en yfirskin, ekkert annað en fyrirsláttur. Alþb. stóð þá að því að setja gerðardóm á sjómenn og hefur á valdatíma sínum síðan 1978 æ ofan í æ höggvið í þennan knérunn, ekki aðeins með ýmsum ráðstöfunum sem snert hafa fiskimenn, heldur einnig með — vil ég segja: afskaplega hatrömmum og óvenjulegum ráðstöfunum gagnvart farmönnum.

Þegar við stöndum frammi fyrir því nú á þessum apríldögum, hvaða ráðstöfunum ríkisstj. hyggst beita, þá kemur það í ljós, eins og margsinnis hefur verið tekið fram hér í þingsölum, að um ákveðnar áætlanir á sviði atvinnumála yrði ekki að ræða. Það sem sagt var um framleiðniaukningu í málefnasamningnum hefur reynst vera raus eitt, og það er ekki að sjá neina hreyfingu á því, að ríkisstj. ætli sér að liðka til í sambandi við ýmsar nýjungar á sviði atvinnumála sem sköpum gætu skipt í sambandi við þá þróun sem leitt hefur nú til versnandi lífskjara misseri eftir misseri. Og ég þori að fullyrða það um núv. hæstv. ríkisstj., sem heldur þannig á málunum, að þó svo að engar grunnkaupshækkanir verði á þessu ári, engar almennar grunnkaupshækkanir, þá mun samt enda með því að verðbólgan verður einhvers staðar í kringum 50%. Maður sér því að ekki er vel staðið á pedalanum, ekki er reynt að sporna mikið við, enda kannske síst af öllu við því að búast, eins og hugsunarhátturinn er, að engu máli skipti hvers þjóðin afli í heild, það komi hæstv. ríkisstj. ekkert við þótt minna sé til skiptanna fyrir allan almenning í landinu. Samt sem áður hafi ríkisstj. einhvern einkarétt á því að þeir menn, sem styðja hana á Alþ., að taka meira í hítina og þá frá öllum öðrum. Þegar minna er til skiptanna en áður er ómögulegt annað en að ríkisstj. sé að hrifsa þetta fé frá fólkinu í landinu. Það er ekki nóg með að til þess sé ætlast af öllum almenningi að hann láti sér nægja þeim mun minna sem þjóðartekjur á mann minnka í þjóðfélaginu, heldur á að ganga skrefi lengra. Ríkið ætlar ekki einu sinni að vera innan þess geira sem síðasta vinstri stjórn hafði þó víkkað út. Það á að víkka hann enn út. Þannig er haldið á þessum málum. Og það er þessi óskammfeilni hæstv. ríkisstj., að sýna enga sparnaðarviðleitni, sem veldur því að fólkið í landinu er nú almennt orðið dauðþreytt á úrræðaleysinu, finnst ofríkið og eyðslusemin keyra um þverbak og ætlast til þess að innan Alþingis séu til menn sem stöðvi þennan öfuguggahátt ríkisstj., en séu ekki bara hendur sem réttar eru upp með hverju sem er.

Ástæða væri e. t. v. til, eins og nú er komið, að þeir hv. þm., sem koma úr röðum launþega, láti til sín heyra hér úr ræðustólnum og segi hvað þeim þyki um aðfarirnar. Hvað segir t. d. stjórn Verkamannasambands Íslands? Hvernig finnst henni staðið að verki? Ætli menn eins og hv. 7. þm. Reykv., formaður Verkamannasambands Íslands, geri sér ekki fulla grein fyrir því, að þessi eyðslustefna ríkisstj. hefur torveldað gerð allra kjarasamninga og að þær vonir, sem ýmsir bundu á sínum tíma við að á þessu ári yrði hægt að stilla grunnkaupshækkununum í hóf, eru ekki eins sterkar og áður? Allur almenningur lætur ekki fara með sig eins og hunda. Það er náttúrlega hægt í þjóðfélögum þar sem lögreglan hefur töglin og hagldirnar að halda niðri almenningsálitinu og hinum almenna vilja mannsins, verkamannsins, mannsins sem stritar úti á götunni og hefur ekki allt of mikið fyrir sig að leggja. En í lýðræðisþjóðfélagi eru til sterk launþegasamtök og þau hljóta að taka afstöðu með hliðsjón af því, hvernig ríkisstj. stendur sig á hverjum tíma. Ef hinum almennu launþegasamtökum þykir ríkisvaldið fara of djúpt ofan í vasa launamannsins, þá hljóta þau að hrista sig. Þær kurteislegu og hógværu yfirlýsingar frá stjórn Alþýðusambands Íslands og stjórn BSRB, sem ég las upp áðan, eru aðvörun til ríkisstj. um að hafa sig hæga, að hún skuli aðeins hugsa um það sem hún er að gera.

Við getum farið um landið. Hvernig ætli byggingariðnaðurinn standi? Ætli sé við því að búast að umsvifin þar verði jafnmikil og þau hafa verið? Ég hef haft spurnir af því frá fleiri en einum stað úti á landi, en er ekki jafnkunnugur hér í Reykjavík, að ýmislegt bendi til þess að fólk hafi ekki jafnmikla möguleika og áður til þess að standa í framkvæmdum. Ég held það sé enginn vafi á því að þeir háu vextir, sem fólki er gert að greiða, sérstaklega ungu fólki sem stendur í húsbyggingum, valda því að ýmsir munu halda að sér hendinni sem gerðu það ekki áður. Menn beinlínis treysta sér ekki út í framkvæmdir, líka vegna þess að þeir vita ekki hversu djúpt verður farið ofan í vasann, vegna þess að þeir finna að atvinnuöryggið er minna en áður. Þetta á að sjálfsögðu fyrst og fremst við um byggingariðnaðinn, en þetta á ekki síður við um ýmsar útflutningsgreinar, eins og ég hef margsinnis talað um hér í þingsat og spurt hæstv. ríkisstj. einstakra spurninga í því sambandi, en ekki fengið nein svör, vegna þess að þótt alþm. hafi enn þá málfrelsi hér í þinginu, guði sé lof, þá virða hæstv. ráðherrar þm. ekki svars nema þeim sýnist.

Vegna þess að ég sé að hæstv. iðnrh. er sestur í stólinn verð ég að leiðrétta það sem hann hefur gaman af að tala um í fjölmiðlum, en fréttamenn gefa mér ekki sömu möguleika og honum, sem kannske er ekki von, til þess að tala í sjónvarpi og útvarpi — að ég er ekki alveg viss um að þingskjöl sýni að þessi hæstv. ráðh. hafi verið neinn sérstakur hvatamaður þess að myndarlega yrði staðið að við Kröfluvirkjun. Ég man ekki betur en hann hafi greitt atkvæði á móti því hér í þingsalnum í fyrra. Ég held því að það sé nokkuð vel í lagt að vera að tala um að iðnrn. hafi í hans tíð verið einhver sérstakur stuðningsmaður þess að Kröfluvirkjun yrði komið í gang. Eða verður maður ekki að ætla að ráðh. reyni að vera samkvæmur eigin atkvæðagreiðslu, nema skoðun ráðh. sé alltaf öfug við það hvernig höndin fer upp? Ég held að rétt sé að reyna að halda sig í aðalatriðum við staðreyndir málsins í yfirlýsingum í fjölmiðlum, fréttatilkynningum iðnrn. o. þ. h. Það er einmitt þess vegna m. a. sem haft er fyrir því að skrá það sem menn segja hér, að menn verði að standa við orð sín og gerðir. En þetta mál verður nánar tekið upp þegar rætt verður um lánsfjáráætlun á sínum tíma og er vissulega ástæða til.

Það er að sjálfsögðu alveg eins og einn verkalýðsleiðtogi sagði við mig í sambandi við orkujöfnunargjaldið sem nú er verið að leggja á, að það væri sök sér ef hér væri um eitthvert skyndilegt mál að ræða og ef ríkisstj. ætlaði að vera innan þess ramma sem orkujöfnunargjaldið réttlætir. En það var nú síður en svo, heldur var farið af stað með slíkum ofstopa að furðu sætir. Það átti að taka inn tvær krónur fyrir hverja eina sem átti að fara til að jafna orkuna í landinu. Og réttlætingin í gegnum þennan nýja skatt er svo rík, að það er með margvíslegum öðrum hætti veist að hinum dreifðu byggðum í sambandi við fjárlagafrv. og væri ástæða til að rekja það sérstaklega. Eins og fram hefur komið harma ég það alveg sérstaklega, að þessi ríkisstj. skuli ekki hafa treyst sér til að láta þó þá upphæð standa, sem var í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar, í sambandi við orkujöfnunargjaldið.

Þessi hæstv. ríkisstj. er að reyna að gera sinn fífil fagran með því, að hún ætli að búa til einhvern nýjan félagsmálapakka til að seðja launþega í landinu þegar búið er að skattpína þá með þessum margvíslega hætti. Og það á að verja til þess 5–7 milljörðum. Brauðin voru fimm og fiskarnir tveir sem Jesús Kristur mettaði mannfjöldann með forðum. En ég er ekki viss um að þessir 5–7 milljarðar endist þeim eins vel, verði þeim jafndrjúgir og brauðin og fiskarnir hjá frelsaranum. Ég er nefnilega ekki viss um að þar sé neinu saman að jafna. Ég er hræddur um að það verði lítið úr þessu þegar þar að kemur, enda er nú ekki slegið neinu föstu um það, hvenær menn eigi að fá þessa milljarða og hvernig. Það er talað um að við eigum að fá þá á þessu ári og næsta ári. Ætli það geti nú ekki farið svo, að ríkisstj. lifi ekki næstu áramót? Og þó hún lifi kannske fresti hún því þá bara um eitt ár. Annað eins hefur nú sést hjá þeim hæstv. ráðh. sem sitja í þessari ríkisstj.

Það væri býsna fróðlegt að fá upplýsingar um það einmitt í sambandi við skattaálögurnar og þynginguna á þeim, hvernig þessi hæstv. ríkisstj. hugsar sér að bæta launþegum þetta upp. Það væri líka býsna fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvernig launapakkinn hefur reynst launþegum, sá sem lofað var í desembermánuði 1978, sérstaklega þetta með tekjuskattinn, allar tekjuskattslækkanirnar sem átti að standa við þangað til næst yrði samið. Hvernig standa þær? Ætli launþegar verði feitir af þeim? Það er ósennilegt. Það má auðvitað reikna út lífskjör með margvíslegum hætti. En við sjáum það, ef við berum saman verðlag í byrjun árs 1979 og verðlagið: lok þess árs, að kaupið hækkar ekki jafnmikið og vörurnar, og við vitum að enn dregur í sundur. Það er enn að saxast á ráðstöfunarféð.

Hæstv. fjmrh. hefur haft orð á því, að hann ætli að bíða með samningana við BSRB þangað til búið sé að semja á hinum frjálsa vinnumarkaði. Það á að draga það þangað til búið er að semja þar. Nú hefur hann þó vissulega tækifæri til þess að láta að sér kveða og Alþb., þessi mikli launþegavinur sem Alþb. er. Ég man ekki betur en það hafi á undanförnum árum hrósað sér sérstaklega af því, hvað það hafi reynst einmitt opinberum starfsmönnum vel. Ég minnist þess að á sínum tíma, þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar var mynduð 1971, var því lofað fyrir ekki neitt, bara fullyrðing, að veita opinberum starfsmönnum fullan verkfallsrétt til jafns við hinn almenna launamarkað. Hvernig stendur það mál núna þegar Alþb. er búið að fá fjmrh.? Á þá að láta opinbera starfsmenn fá verkfallsréttinn að fullu og þá „gratis“? Við munum eftir því frá í fyrra, þegar átti að selja verkfallsréttinn, að sú ríkisstj., sem þá sat, var sannarlega rassskellt af hinum vinnandi manni. Á að reyna að endurtaka þá tilraun? Ég geri ekki ráð fyrir að ráðh. svari miklu. Það er helst að þeir geti talað um sína stefnu daginn eftir að þeir mynda ríkisstj., þá flagga þeir bæklingnum. En þegar vika er liðin fara að detta út einstakir stafir og eftir svona tvo mánuði er vaninn sá, að ekki standi mikið eftir nema kannske þetta: Nú á að fara að taka erlent lán til þess að reisa þjóðarbókhlöðu — eða innlent verðtryggt lán. Á sama tíma og verið er að leggja skatta á þjóðina, allan almenning, og þyngja þá, er helsta áhugamál þessarar ríkisstj. að taka lán til þess að byggja bókasafn. Ef menn vilja veita sér slíkan lúxus, þá held ég að þeir geti gert það af tekjum ríkissjóðs sjálfs, eða maður gæti a. m. k. látið sér detta það í hug.

Það var athyglisvert sem þeir sögðu fyrir austan. Málgagn Alþb. á Austurlandi, gefið út í Neskaupstað, segir svo í forustugrein fyrir skömmu, með leyfi hæstv. forseta:

„Launþegasamtökin og allur almenningur eiga að krefjast aukinnar samneyslu og þar með aukinna skatta. En það er ekki sama hvernig skattar eru á lagðir. Þar verður að gæta réttlætis af fremsta megni. Beinir skattar, svo sem tekjuskattur og útsvar, eru óvinsælir. Óbeina skatta, svo sem söluskatt og tolla, greiða menn án þess að vita af því og finna því varla til þeirra,“ segir m. a. í þessari forystugrein.

Þaðan hafa þeir ráðin. Það á að hækka beinu skattana eins og þeir treysta sér til og svo á að ná í það sem upp á vantar án þess að menn verði varir við það, með óbeinu sköttunum. Þarna er ráðið komið. Og auðvitað kemur það að austan. En ég verð að segja það, að ef þeir sæktu allt sitt austur til Norðfjarðar, a. m. k. í sambandi við sjávarútveginn, og spyrðu Ólaf Gunnarsson hvernig ætti að standa að þeim málum, þá mætti búast við að ríkisstj. gerði fleira af viti heldur en sýnt hefur verið, því að hann hefur stundum orðið að grípa pennann og tala um það við samherja sína í Alþb., að það sé ekki af hinu illa þótt fyrirtæki sé rekið með hagnaði. Það getur verið gott öðru hverju, að fyrirtæki hafi bolmagn til þess að ráðast í ýmsar aðgerðir og framkvæmdir til að auka framleiðnina. En það er ekki við því að búast, að þeir taki mikið mark á því þegar þannig er talað. Ég verð að segja það, að ef ég sæi nú allan bekkinn fullsetinn — sem ég veit ekki hvort gerist nema við þingslit og þingsetningu — þá gæti það rifjast upp sem stendur í Prédikaranum, að spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhöfum sem eru í borginni, því að ekki er krafturinn lýsandi frá þeim. Ekki er nú mikið um að þeir detti ofan á ráð sem dugi, það er ekki að sjá.

Ég hafði mjög gaman af því, að nú í sumar var skýrt frá því í fréttatilkynningu frá iðnrn., að hæstv. þáv. iðnrh., sem nú er aftur sestur í stólinn, hefði haft mikið gagn af því að koma til Akureyrar í sumar. Nú veit ég ekki í hverju þessi gagnsemi lýsti sér og vissulega óvanalegt að sjá það í sérstökum fréttatilkynningum frá rn., að ráðh. hafi haft gagn af því að ferðast um landið, en vissulega hefur hann það. Mér er ekki grunlaust um að Stefán Valgeirsson, sá ágæti maður, hafi jafnvel séð um að KEA bauð upp á „dinner“. Það gæti nú verið, það er hugsanlegt, a. m. k. brosir hann drýgindalega. En það væri náttúrlega gaman — einkum ef hæstv. iðnrh. hefði á þessum tíma farið um verksmiðjur SÍS — að þeim spurningum yrði svarað núna, sem maður hefur verið að spyrja hér úr pontunni og snerta vissulega kjör launþega og þau mál sem við erum hér að tala um: Hvernig hyggst ríkisstj. mæta þeim sérstaka vanda sem ullariðnaðurinn stendur nú frammi fyrir? Þetta er að sjálfsögðu erfið spurning. Það má hugsa sér ýmislegt. Hvernig hyggst hún gera það? (Gripið fram í: Niðurgreiðslur úr ríkissjóði.) Á t. d. að láta ullariðnaðinn borga hærri skatta? Væri það nú ekki ráð? Það virðist vera helsta ráðið núna að auka kostnaðinn á atvinnurekstrinum.

Það vita þeir menn náttúrlega, sem eru kunnugir atvinnulífinu, að sú mikla verðbólga, sem yfir hefur dunið og tröllríður þessu þjóðfélagi, er að sjálfsögðu sá skaðvaldur sem fyrst og fremst veldur því, hversu illa okkur sækist að búa þjóðinni forsvaranleg lífskjör, og veldur því m. a., hversu illa okkur sækist að standa þannig að húsnæðismálunum, svo að dæmi sé tekið, að ungt fólk geti með viðunandi hætti eignast þak yfir höfuð. Og við vitum það, að þá erfiðleika, sem útflutningsatvinnuvegirnir eiga við að etja, má rekja að mestu leyti til verðbólgunnar. Sömu sögu er að segja um vanda landbúnaðarins. Við verðum líka vör við það, að sparisjóðir og bankar eiga í æ meiri erfiðleikum með að fjármagna reksturinn, atvinnuvegina. Og almenningur á í enn meiri erfiðleikum með að láta enda ná saman. Þetta er eðlilegt. Hvernig á öðruvísi að fara þegar þjóðfélaginu er þannig stjórnað, að ekkert má fara yfir núllpunktinn, en í árslok þarf kannske helmingi fleiri krónur til að standa undir sama rekstri en næsta ár á undan? Hvernig getur öðruvísi farið? Og vitaskuld er það rétt, að þegar fólk horfir upp á það annars vegar, hvernig sparnaðurinn brennur í innlánsstofnunum, og hins vegar, hvernig ríkisvaldið níðist á þeim mönnum sem spara fé til að leggja í atvinnurekstur, þá vill fólk hvorugt gera og sá heilbrigði sparnaður, sem þannig yrði með því að leggja fé til hliðar eða þá með því að byggja upp atvinnurekstur í sínu plássi, getur alls ekki átt sér stað eins og ástandið er orðið í þjóðfélaginu. Það frumkvæði er ekki tengur til. Og sú þrautalending, sem farið hefur verið út í nú, er sú að gera 10% af launum manna upptæk í lífeyrissjóðunum og fá sparnaðinn þar í gegn, eða þá með nýrri skattheimtu, því að um aðrar leiðir er ekki að ræða. Af þessari óheillabraut verðum við auðvitað að snúa.

Það hefur sýnt sig í gegnum árin, að þótt ríkisvaldið reyni að gera einhverjar skynsamlegar ráðstafanir, þá renna þær fljótt út í sandinn ef fólkið í landinu vill ekki vera með, treystir ekki þeim mönnum sem við stjórnvölinn eru. Hvernig svo sem ástandið hefur verið — og það verður ekki að fullu mælt lengur — fyrst eftir að þessi hæstv. ríkisstj. settist að völdum, þá er það alveg ljóst og þá skiptir engu hvort talað er við mann í Grindavík eða á Blönduósi, á Skagaströnd eða jafnvel uppi í Hörgárdal, að almenningur er farinn að gera sér grein fyrir því, að það, sem einkum hefur einkennt feril þessarar ríkisstj. það sem af er, eru nýir skattar, meiri eyðsla, engin önnur ráð, ekkert annað. Aumingjaskapurinn getur meira að segja stundum verið svolítið skemmtilegur, eins og t. d. þegar 3% gengisfellingin varð. Þá stóð á forsíðu Tímans að það væri bara gengissig. Þjóðviljinn kallaði það þó réttu nafni, en faldi það á baksíðunni. Einhvern tíma hefði gengisfelling verið forsíðuefni í því blaði, en það er annað mál og kemur þessu kannske ekki við.

En svo að ég víki aftur að því sem ég var að segja áðan, þá kann það náttúrlega ekki góðri lukku að stýra þegar sömu mennirnir — ef við tölum t. d. hér um Reykjavík — sömu aðilarnir fara með völdin bæði í borginni og í stjórnarráðinu og báðir ætla að taka meira til sín á sama tíma og ráðstöfunarfé heimilanna minnkar. Hvernig geta menn búist við því að þjóðin nenni að styðja við slíka tíu valdhafa? Það er ekki von á því. Þessi litli skattur sem hér er, það stendur að hann sé 1.5%. Menn geta sagt sem svo, að 1.5% sé ekki mikið, en það er drjúgt sem drýpur. Menn verða að gæta að því, að á sama tíma og grunnkaupshækkanir á laun hafa svo til engar verið, á sama tíma og Ólafslög eru farin að verka að því leyti sem tekur til skerðingar á launum fólks vegna viðskiptakjara, þá munar um hvað eitt, þótt smátt sé, þegar menn hafa ónóg. Það er kjarni málsins.

Ég skal ekki orðlengja um þá erfiðleika sem eru samfara söluskattinum og álagningu hans, og væri þó vissulega ástæða til að gera úr því langt mál. En við megum ekki gleyma því, að eftir því sem söluskatturinn verður hærri margfaldast þessir ágallar. Og það er augljóst og enginn vandi að sýna fram á það, að í sumum greinum er farið fram á að kaupmenn skili söluskatti sem þeir geta með engu móti gert sér grein fyrir hversu hár er. Þar á ég við þær verslanir sem gera ýmist að selja vörur með söluskatti eða vörur án söluskatts. Við getum tekið í þessu sambandi allar matvöruverslanir landsins. Þær matvörur, sem þar eru seldar, eru allar án þessa 22% söluskatts sem verið hefur eða án 23.5% söluskatts, ef þetta frv. nær fram að ganga. Sumt af þessu er sekkjavara. Það er ógerningur, eða hefur ekki verið gert, að halda því fé aðskildu sem fæst fyrir hinar söluskattsskyldu vörur, þannig að kaupmaðurinn eða sá maður, sem sér um bókhald hans, verður að reyna að búa til einhverja skrá yfir það í lok mánaðarins, hversu mikill hluti sölunnar hefur verið af söluskattsskyldum vörum og hversu mikill hluti af vörum undanþegnum söluskatti. Og allir menn, sem hafa komið nálægt slíkum rekstri eða slíku bókhaldi, vita að þetta er ekki hægt. Með þeim ákvæðum, sem nú eru í gildi um söluskattinn, er ríkisvaldið að krefjast þess af einstökum borgurum, að þeir geri annaðhvort: að stela af sjálfum sér eða stela af ríkinu, vegna þess að þeir geta ekki hitt á hið rétta. Það er ógerningur fyrir þá. Og með því að hækka söluskattinn enn með þessum hætti er verið að auka á þennan mismun og valda þannig margvíslegu óhagræði og ég vil segja óþægindum fyrir þá menn sem vissulega vilja standa í skilum og greiða keisaranum það sem keisarans er. Og það er mikið af fólki til sem þannig hugsar.

Það lýsir þessum erfiðleikum kannske best að taka sem dæmi þá menn sem hafa þessa útreikninga með höndum fyrir stærstu fyrirtækin, t. d. samvinnuhreyfinguna. Það eru menn sem engra hagsmuna hafa að gæta um það, hvort söluskatturinn sé örlítið meiri eða minni um hver mánaðamót. En þessir menn hafa, eins og ég sagði, engan möguleika til að staðreyna það, hvort þær skýrslur, sem þeir gefa út og leggja drengskap sinn við, séu réttar eða ekki. Það söluskattskerfi, sem við búum nú við, hefur gengið sér til húðar og það er æ meira aðkallandi, eftir því sem lengra líður, að það sé hreinlega niður lagt og tekið upp það sem kallað hefur verið virðisaukaskattur og ég skal ekki rifja upp hér. Ég vil aðeins benda á eitt atriði sem sýnir rangindin í þessum efnum. Ef tveir menn flytja t. d. vöru til staðar sem er lengst frá Reykjavík, við skulum segja til Raufarhafnar, og annar þeirra kaupir sínar vörur í gegnum kaupfélagið á staðnum, þá verður kaupfélagið að heimta söluskatt af þessum varningi, ef hann fer þannig í gegn og varan er á annað borð söluskattsskyld. Við getum tekið hjólbarða sem dæmi, varahlut í traktor eða eitthvert heyvinnslutæki. En ef maðurinn hefur skynsemi til þess að kaupa tækið í Reykjavík og flytja það á eigin kostnað norður, þá sleppur hann undan söluskatti. Bara þetta litla dæmi sýnir það mikla óhagræði sem landbyggðin hefur af söluskattinum. Þess vegna er það gífurlegt réttlætis- og hagsmunamál einmitt fyrir það fólk, sem fjærst býr Reykjavík, að þetta kerfi sé lagt niður og virðisaukaskatturinn tekinn upp. En um leið undirstrikar þetta það, sem ég hef áður tekið fram, að bæði þessi ráðstöfun og ýmislegt annað í sambandi við afgreiðslu fjárlaga sýnir okkur hversu mjög þessi ríkisstj. ber fyrir borð hagsmuni þess fólks sem fjærst býr Reykjavík.

Þegar ég fór fram á það hér fyrir páska, að málið yrði ekki keyrt í gegnum þingið á einum degi, var það að sjálfsögðu til þess að ríkisstj. hefði svigrúm til að bera þetta frv. sitt undir launþegasamtökin og hafa þannig við þau það samráð sem henni ber skylda til lögum samkvæmt. Ég sé enga ástæðu til að efast um að það hafi verið gert og að ríkisstj. hafi notað þennan tíma, sérstaklega daginn í gær þegar gott tóm gafst, til að ræða við launþegasamtökin bæði um söluskattinn og ekki síður hækkun tekju- og eignarskattsins, sem liggur einnig fyrir þinginu að afgreiða, og önnur þau mál, sem þeim koma við, vegna þess að meiri hlutinn af ríkisstj., einir sjö ráðherrar af tíu, eru einmitt menn sem samþykktu Ólafslög á sínum tíma. Ég veit að það hlýtur að vera þeim mikið kappsmál að sýna við afgreiðslu þessa máls nú, hversu ágæt sú lagasetning hefur verið í öllum greinum og hvílík trygging hún hefur verið launþegasamtökunum fyrir því, að sjónarmiða þeirra gætti í sambandi við álagningu opinberra gjalda. Ég vil því vænta þess, að hæstv. ríkisstj., þeir ráðherrar hennar sem með þessi mál fara, geri Alþ. grein fyrir þessum málum nú við 2. umr. málsins, þannig að fyrir liggi hvaða augum launþegasamtökin líta á þetta mál. Grunur minn er sá, að það, sem framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands sagði, sé í raun kjarni málsins. Hér er ekki um það að ræða að þyngja annaðhvort beina skatta eða óbeina. Hér er hvort tveggja gert í einu og samtímis. Það er lagt fram í Ed. frv. um að þyngja beinu skattana um leið og lagt er til í Nd. að óbeinu skattarnir séu hækkaðir.

Að sjálfsögðu má ræða þetta mál frá mörgum sjónarhornum. Það má benda á það í þessu sambandi, sem raunar blasir við, að með því að ríkisstj. leiddist út á þessa braut gafst hún upp. Þessi tvö frv. ætti í rauninni að sameina og skíra frv. um uppgjöf ríkisstj., vegna þess að þau sýna það í fyrsta lagi, að hún hefur ekki getað staðið við það ætlunarverk sitt að hækka ekki skattana, eins og hæstv. forsrh. lýsti yfir í viðtali við Vísi að ríkisstj. mundi ekki gera. Í öðru lagi hefur henni ekki tekist að halda þannig á málum, að kaupmátturinn héldist sá sami og áður, sem ráðherrar Alþb. lýstu yfir að væri grundvöllur þess að þeir tækju þátt í stjórnarsamvinnunni. Og í þriðja lagi er það alveg ljóst, að á þeirri niðurtalningarleið, sem ráðherrar Framsfl. töluðu um, ætla þeir aldrei að geta stigið fyrsta skrefið, hvað þá meir.

Bólu-Hjálmar orti:

Oft hefur heimsins gálaust glys

gert mér ama úr kæti.

Hæg er leið til helvítis,

hallar undan fæti.

Ég er nú ekki að segja að við séum langt komnir þangað. En hitt er alveg ljóst, að þar sem hallar undan, það er ekki í verðbólgunni — það hallar undan lífskjörunum og í því að landinu sé almennilega stjórnað.

Menn leiða að því getum og eru oft að tala um það, hvernig þessi ríkisstj. sé mynduð. Ég man eftir því frá síðustu misserum, að ýmsir hafa verið að tala um að ekki væri hægt að stjórna þessu landi án þess að Alþb. væri í ríkisstj., vegna þess að það átti að hafa einhver tröllatök á verkalýðshreyfingunni sem tryggði að engu skipti hvað ríkisstj. gerði, sem þeir ættu aðild að, aðilar vinnumarkaðarins, það mundi ekki koma til vinnustöðvana og verkfalla. Við sáum það á árinu 1979, að verkfallsdagarnir urðu ekki síður margir á því ári en mörgum öðrum. Og við sjáum það á því, sem er að gerast fyrir vestan núna, að það er ekki afskaplega friðvænlegt í þjóðfélaginu. Og þó að ég vilji ekki skilja ummæli Ásmundar Stefánssonar í Vísi sem beina hótun til ríkisstj. um að hafa sig nú hæga, þá er enginn vafi á því, að mikill þungi fylgdi hans ummælum. Við skulum ekki gleyma því, að þeir ráðh. Alþb., sem sitja í ríkisstj., hafa síður en svo orð á sér fyrir að vera einhverjir sérstakir fulltrúar launþega. Ég veit ekki einu sinni hvort einn einasti þessara manna hefur setið eitt einasta Alþýðusambandsþing eða BSRB-þing. Ég veit ekki hvort þeir hafa einu sinni orðið varamenn í einhverju litlu verkalýðsfélagi austur á landi. (Gripið frsm í: Nei, nei.) Þeir hafa ekki verið það, nei, enda má nú oft heyra í ræðum þeirra að þeir eru ekki sérlega kunnugir hagsmunamálum launþega og vita ekki afskaplega mikið um þau. En það er enginn vafi á því, að hvað svo sem mönnum sýndist í versta skammdeginu, þá hefur sú ríkisstj., sem nú situr, ekki á sér yfirbragð þeirra manna sem hafa á undanförnum árum gert sér sérstakar grillur út af því fólki sem er lægst launað í þjóðfélaginu. Og það fer ekki fram hjá neinum, að það virðist vera nákvæmlega sama á hvaða nótur er slegið hér í sölum Alþingis í sambandi við kjaramálin. Það fólk, sem hæst hefur talað í þeim efnum á s. l. árum eða jafnvel áratugum, segir ekki eitt einasta orð núna, í hæsta lagi tekur í nefið. Og hvernig skyldi standa á því? Við þurfum ekki að leita langt eftir svarinu. Sá maður, sem loksins komst á þing á því herrans ári 1979, formaður Verkamannasambands Íslands, hv. 7. þm. Reykv., veltir því áreiðanlega fyrir sér oftar en einu sinni, hvers vegna hann hafi ekki haldið sig utan við sali þessa húss, því að hann finnur að það verður ekki létt verk fyrir hann frekar en fyrir 8. landsk. þm., Guðrúnu Helgadóttur, að verja þessa stjórn falli og ryðja henni veginn ofan í vasa þess fólks sem ég vil segja að annar þessara þm. hafi gert að ævistarfi sínu að berjast fyrir.

Það er út af fyrir sig alltaf skemmtilegt að hlusta á það, þegar þessir hæstv. ráðh. reyna að verja aðför sína að launafólki nú. Þannig hefur það oftar en einu sinni komið fyrir, eins og ég vék að áðan, að hæstv. iðnrh. talar um það eins og eitthvert sérstakt gustukaverk sem hann hafi-gert fyrir borgara þessa lands, þegar hann tók söluskattinn af nauðsynjavörunum. En hvað gerði hann í staðinn? Hann kleip nokkur prósent af laununum. Það var ekki eins og hann væri að gera eitthvað „gratís“, og það þarf enginn maður að halda það, að þegar ríkisstj. grípur til þeirra ráða að falsa framfærsluvísitöluna, þá sé það gert til þess að launþegar græði. Auðvitað er það gert til þess að launþegar tapi. Öll þessi vísitölusvik eru auðvitað gerð til þess. Ég veit vel að ef þeir menn, sem telja sig stuðningsmenn ríkisstj., sem telja sig vera sérstaka málsvara launafólks, kæmust með tærnar þar sem hv. 2. þm. Norðurl. e. er með hælana í sambandi við bændur, þá mundi frv. af þessu tagi ekki vera lagt fyrir þetta þing. Það er engin hætta á því, því að hv. þm. Stefán Valgeirsson sá fyrst um það að bændur fengju sitt. Ég á að vísu eftir að sjá að öll kurl séu komin þar til grafar, og ég öfunda ekkert þennan hv. þm. af því núna á næstu misserum að útskýra fyrir stéttarbræðrum sínum í Eyjafirði og víðar hvernig komið er hag landbúnaðarins eftir að Framsfl. er búinn að vera í ríkisstj. í 10 ár og hefur allan tímann haft þessi mál með höndum, allan tímann þangað til loksins núna að þeir hlupu til og náðu í einn úr okkar hópi, smygluðu honum út bakdyramegin til þess að gá hvort hann gæti ekki hresst upp á sakirnar. Og það þekki ég til hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar, þó svo að ég sé ekki sáttur við hann í bili og kunni honum litlar þakkir fyrir framtakið, þá ætla ég ekki að líkja því saman fyrir bændur hvaða munur það er að hafa hann þó fyrir sínum málum heldur en núv. formann Framsfl., þann mann sem gegndi því embætti áður, þó svo hann sé bandingi í ríkisstj. og þó svo ég viti að Framsfl, muni ekki hafa víðsýni til þess nú að láta sjálfstæðismenn alveg ráða ferðinni í landbúnaðarmálunum, því að það er það eina, sem verulega ríður á núna, að með heilbrigðum hætti sé að þessum málum staðið.

Það er svolítið merkilegt að hugsa sér það, eins og hv. 3. þm. Austurl. sagði fyrir páskana, að við í stjórnarandstöðunni mundum bera ábyrgð á því, ef þetta frv. næði ekki fram að ganga. Það yrði nú meiri þunginn, það hvíldi þungt á manni, ef maður gæti stöðvað þó ekki væri nema eitt einasta af öllum þessum skattahækkunarfrv. Maður mundi sofa betur eftir þá nótt. Það er alveg nægilegt þingfylgi fyrir því að koma til móts við þá sem búa við verst kjör í sambandi við húshitunarmálin, og við í Sjálfstfl. erum reiðubúnir til þess að ræða um það við ríkisstj., hvernig koma megi við sparnaði og hagsýni í ríkisrekstrinum til þess að koma til móts við þær þarfir. Við höfum aldrei skorast undan því. (Gripið fram í.) Nú sé ég að sómi Íslands er kominn í salinn. Hann hefur að vísu villst á deildum, en það verður að hafa það. Hann villist stundum á ýmsu og talar oft þar sem hann á að þegja, en það verður að hafa það. Ég held að sumir hefðu átt að hlusta á það sem haft var eftir Kaj Munk presti í Ríkisútvarpinu í morgun, þar sem hann talaði um að vel kristnir menn breiddu ekki yfir það þegar þjóðlöndum væri haldið niðri með ofbeldi og hroka og kölluðu slíkt frelsi. Ég held að ýmsir ættu að lesa meira eftir danska klerkinn, hvað hann hafði í þeim málum að segja, og kalla ekki hvítt svart.

Það er því miður svo, að þó að hægt sé að sýna fram á það með fullum rökum, eins og gert hefur verið bæði í fjvn. og hér í nefndum, þá er varla að þessi skattahækkunarfrv. fáist einu sinni rædd í þeim nefndum sem þeim er vísað til, að maður tali nú ekki um það, að aðilum vinnumarkaðarins sé gefið tækifæri til að skýra sín viðhorf. Þess vegna mun það vafalaust ganga í gegn, að söluskatturinn verður hækkaður með þessum hætti. Það hefur að vísu fengist fram, að hækkunin verði 25% minni en upphaflega var stefnt að, og má segja að það sé nokkur sigur. En auðvitað væri best að þetta frv. yrði fellt og ríkisstj. reyndi með þeim hætti að koma til móts við fólkið í landinu og meta að einhverju þær hógværu kröfur, sem Alþýðusamband Íslands hefur gert í sambandi við kjaramálin, þar sem aðeins er farið fram á 5% grunnkaupshækkanir. Ef það er borið saman við það sem gert var á vordögum 1977, þá var um það samið að grunnkaupshækkanirnar yrðu 42% á einu og hálfu ári, og þó var þá um fullkomnari verðbótavísitölu að ræða en nú er í gildi, svo að þetta er ekki mikið sem farið er fram á í 50–60% verðbólgu. En það mun sýna sig, ef þessi óskammfeilni heldur áfram, að það er nóg svigrúm upp á við. Það er hægt að auka kaupkröfurnar og það getur farið svo að launafólk eigi ekki annars úrkosta. Eða hvernig haldið þið að launafólkið í landinu hafi það núna í haust, ef ríkisstj. tekst það sem fjmrh. hefur raunar lýst yfir að hann ætli sér, að ekki verði samið við opinbera starfsmenn fyrr en búið verði að semja á hinum almenna launamarkaði? Ef engar grunnkaupshækkanir verða fyrr en guð má vita hvenær, kannske í haust eða kannske eftir ár, hvernig haldið þið að ástandið verði í landinu þegar skattseðlarnir koma? Menn geta rétt hugsað sér það. Þegar ofan á þetta koma afborganir af þeim verðtryggðu lánum, sem fólkið hefur orðið að taka á undanförnum árum, þegar verðbólgan þýtur svona upp og útlánavísitalan er miklu hærri en nemur kauphækkununum, þá geta menn rétt ímyndað sér hverjar afleiðingarnar verða. Þá mun það sýna sig, að það verður ekki létt verk að koma þessu saman.

Við skulum ekki gleyma því, að launþegar eru búnir að sýna mikla biðlund. Þetta er ólíkt því sem var þegar Geir Hallgrímsson var forsrh., þegar aldrei mátti bíða með neitt og þegar heil kosningabarátta var þannig háð að jafnvel gleymdist sá mikli launamismunur sem orðið hefur milli ýmissa aðila, eins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, BHM og Alþýðusambandsins, svo að eitthvað sé nefnt. Það var allt saman upp hafið og þeir gengu hér um, fóru hér ríðandi um héruð, fulltrúi frá Alþýðusambandinu, fulltrúi frá háskólamenntuðum mönnum og fulltrúi frá BSRB, og þeir sögðu að sá mikli sigur hefði nú unnist í baráttunni við íhaldið, að þessir þrír launþegahópar hefðu komið sér saman í eitt skipti fyrir öll um það heilaga mál, að samningarnir skyldu í gildi. Og það var á þessum vordögum sem hv. 7. þm. Reykv. talaði um það 1. maí hér á Lækjartorgi, að hann ætlaði ekki að róa með kóngsins þjón yfir Skerjafjörð, — í líkingum talað að hann mundi ekki sætta sig við það, að við völd væri í landinu ríkisstj. sem gengi á þann samningsbundna kaupmátt. En upplitið á honum er ekki jafnbjart nú og það var þá.

Það er náttúrlega umhugsunarefni ekki aðeins fyrir þingheim, heldur fyrir fólkið í landinu, ekki aðeins fyrir stjórnarandstöðuna, heldur fyrir fólkið almennt í landinu, hvaða völd borgarinn á orðið, þegar þeir menn, sem ráða ríkjum, kunna sér ekki hóf. Hversu langt hefur ein ríkisstj. heimild til að ganga? Hversu lengi getur þingmeirihluti varið fyrir sjálfum sér að verja vonda ríkisstj. falli? Þetta er mikið umhugsunarefni. Og svo aftur sé vitnað í Kaj Munk, þá komst hann að þeirri niðurstöðu, að kristnir menn gætu þolað ýmislegt. Þeir gætu jafnvel þolað það að svelta, það mætti ganga býsna langt á þá, vegna þess að maður á að borga keisaranum það sem keisarans er. Og ef maður fylgir þeim þankagangi og ef maður hugsar sér það, að Íslendingar eigi að sýna þessari ríkisstj. alla þá auðmýkt sem einn kristinn maður getur sýnt vondum valdhöfum, þá má segja að það sé kannske langt í rauða strikið, ég neita því ekki. En að hinu leytinu held ég því fram, að það sé hægt að hugsa sér að það sé öllu betri ríkisstj. í landinu. Og ég leyfi mér að halda því fram, að þjóðin eigi það skilið að hafa betri ríkisstj. en þetta. Sumir eru meira að segja svo bjartsýnir, að þeir halda að henni verði komið frá án kosninga. Ég veit það ekki, það má vera. Í ríkisstj. er einstaka maður sem ég er ekki alveg úrkula vonar um að muni standa sig betur en hinir, sérstaklega sá eini, sem situr hér inni núna, hæstv. menntmrh. Ég hef einhverjar vonir um að hann muni reyna að standa sig betur en hinir. En ég verð að segja það, að eins og aðfarirnar hafa verið og eins og tildrögin voru að því að þessi ríkisstj. settist að völdum, þá finnur maður að það, sem réð þeim gerðum, var ekki að ríkisstj. væri sammála um einhverja úrlausn í vandamálum þjóðarinnar. Hún hafði ekki fundið neina stefnu, neinn sannleika, sem gæti leitt okkur út úr þessari eyðimörk, heldur var það bara þráin í stólana sem réð ferðinni. Þegar svo er komið veit maður náttúrlega ekki hversu lengi þetta getur staðið. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því.

Ég vil sem sagt vara við þessu, vara hæstv. ríkisstj. við því í fullri góðvild og elskulegheitum að hún er að ganga býsna langt núna með því að bæta þessum sköttum ofan á þá skatta sem fyrir voru. Mér skilst að heildarskattheimta ríkis og sveitarfélaga þyngist um 54 milljarða á þessu ári og því síðasta. Það er 1.2 millj. á fimm manna fjölskyldu í landinu. Það er athyglisvert, að á sama tíma og þetta hefur gerst hafa þjóðartekjurnar minnkað jafnt og þétt. Það er ekki svo að ríkið sé að taka hlutdeild í auknum þjóðartekjum. Nei, þær hafa minnkað á mann. Öll þessi nýja skattheimta, 54 milljarðar, er af því sem atvinnureksturinn og fólkið í landinu höfðu áður. Það hafa ekki bæst við neinar nýjar tekjur. Þess vegna er það líka sem við sjáum að atvinnuvegirnir eiga alltaf erfiðara með að standa sig en áður. Þess vegna er það sem við verðum vör við að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa minnkað. Og ég verð að segja það, að þó að þessir ágætu menn geti huggað sig við að lesa það í einhverju blaði fyrir austan, að fólkið verði ekkert vart við það þótt söluskatturinn hækki, þá eru til allrar hamingju enn til í þessu landi hagsýnar húsmæður og ýmsir menn sem fylgjast nokkuð með, og það mun líka sýna sig þegar kemur að mánaðamótum, að margur mun eiga lítið eftir.