09.04.1980
Neðri deild: 58. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

135. mál, orkujöfnunargjald

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þó að ekki væri vanþörf á að endurflytja þá ágætu ræðu sem ég flutti áðan ætla ég samt sem áður að hlífa þm. við því. Erindi mitt upp í ræðustól var að mæla fyrir lítilli brtt. sem ég ætla að flytja við 3. umr.

Áður en ég geri það ætla ég þó að vekja athygli á einni mjög athyglisverðri staðreynd. Hún er sú, að ríkisstj. hefur ekki þingmeirihl. í þessari deild til að afgreiða þetta mál. Nú er fullskipað stjórnarlið, sem hefur verið á þingfundi í dag, og þeir eru hér aðeins 20, þannig að af þeim stjórnarsinnum, sem sækja þingfund og hafa setið þingfundi í dag í hv. Nd., eru ekki til staðar nema 20. Í Nd. Alþingis er ekki þingmeirihl. fyrir málinu og væri ekki hægt að afgreiða málið frá ef ekki kæmi til, að stjórnarandstaðan hefur nú við 2. umr. tekið þátt í atkvgr. við nafnakall. Ef stjórnarliðar sætu einir á fundi hefðist málið ekki í gegn því að þá skortir til þess atkv. M. ö. o.: málið er komið í sjálfheldu hjá hæstv. ríkisstj. og þó að hún blási öllum sínum stuðningsmönnum til leiks hefur hún aðeins 20 atkv. í hv. Nd. og málið er stöðvað.

Það er athyglisvert fyrir þessa óskastjórn þjóðarinnar að hugleiða nú stöðu sína, enda sjáið þið það, hv. þm., á ráðh. sem sitja á ráðherrabekk, að ekki er djarft á þeim upplitið. Það verður að koma í ljós við atkvgr. á eftir hvort þessi 20 atkv. nægja ríkisstj. til að koma málinu frá sér. Stjórnarandstæðingar eiga að sjálfsögðu þar þann auðvelda leik að láta nú lokið að sinni, og ef stjórnarandstæðingar taka þann pól í hæðina er meirihlutaaðstaða ríkisstj. til að afgreiða mál nú sem stendur þar með úr sögunni. Málið er þá stöðvað, söluskattshækkun verður ekki komið fram. Menn þurfa ekki annað en líta á hæstv. ráðh. til að sjá að þeim er þetta aldeilis ljóst. Nú vantar hæstv. ríkisstj. málaliða. Nú er ekki seinna vænna að fara af stað, því að nú vantar hæstv. ríkisstj. atkv. Nú duga ekki þessi sem fengust á uppboðinu fyrir 8 vikum. Nú vantar meira. — Það má vel vera að ég eigi eftir að fara í framboð aftur, en ég er ekki alveg viss um að hæstv. landbrh. eigi eftir að gera það.

Ég ætla, áður en ég mæli fyrir þessari stuttu brtt. minni, að vekja athygli hæstv. fjmrh. og ríkisstj. allrar á mjög athylgisverðri yfirlýsingu sem einn af stjórnarþm. gaf áðan og hlýtur að hafa farið fram hjá hæstv. ráðh. því þeir voru ekki viðstaddir. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson lýsti því yfir úr þessum ræðustól fyrir um það bil 20 mínútum, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki þingmeirihl. fyrir áframhaldandi skattahækkunum. M. ö. o.: hv. þm. lýsir því yfir að hann muni ekki veita ríkisstj. atfylgi og styðja þau áform ríkisstj. sem hún hefur uppi um að hækka eigin skattstiga frá þeim tillögum sem hún hefur kynnt þinginu. Ég vona að menn hafi veitt þessu athygli, því að annaðhvort verður hæstv. ríkisstj. að beygja sig í þessu máli eða hv. þm. að ganga á bak orða sinna.

Í öðru lagi er talað um að senda þingið heim kringum 15. maí til þess að hæstv. ríkisstj. geti fetað þá braut, sem hefur nú komið fyrir fleiri, að setja brbl. þegar að því kemur að kreppa fer að ríkisstj. um aukna tekjuöflun. Hæstv. ríkisstj. veit að hún hefur ekki þingmeirihl. fyrir slíkri lagasetningu og getur því ekki gripið til hennar, því að einn af stjórnarstuðningsmönnunum hefur lýst yfir úr þessum ræðustól að hann sé slíku andvígur og hann viti til þess að það hljóti að vera fleiri stjórnarliðar. Ríkisstj. hefur því ekki þingmeirihl. fyrir neinum slíkum aðgerðum.

Ég vildi vekja athygli hæstv. ríkisstj. á þessu athyglisverða máli, að nú er hana farið að bresta þingmeirihl. ekki aðeins hér í d. til að koma þessu máli í gegn, þar skortir hana atkv., heldur hefur einn af framámönnum stjórnarliðsins gefið þá yfirlýsingu hér úr ræðustól að hana bresti þingmeirihl. einnig fyrir aðgerðum sem hæstv. ríkisstj. hefur látið í veðri vaka að séu væntanlegar frá henni, þ. e. tillögum um hækkun á skattstiga, og hæstv. ríkisstj. hafi ekki þingmeirihl. fyrir neinum brbl. sem hún kynni að hafa áhuga á að gefa út um skattahækkanir í sumar. (AG: Hver segir það?) Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur að vísu ekki gefið neina yfirlýsingu í þessu sambandi, en ég reikna fastlega með því að hv. þm. Albert Guðmundsson geti haldið fram á vor í þá sannfæringu sem hann hefur í dag. Geri hann það er víst og ljóst að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson styður ekki ríkisstj. í frekari skattaálögum. Hann hefur lýst því yfir.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson svaraði hins vegar engu þeirri spurningu minni, hvort hann væri sammála umsögn Alþýðusambands Íslands. Hann svaraði ekki þeirri spurningu minni, ef hann væri það, hvers vegna hann ætlaði engu að síður að greiða atkv. sitt þessu frv. Hann svaraði engu þeirri spurningu minni hvort hann teldi að slík atkvgr. af hans hálfu mundi torvelda kjarasamninga í þeim félögum sem hann sjálfur veitir forstöðu. Það er mál sem hv. þm. gerir upp á öðrum vettvangi.

Hins vegar vil ég taka það fram við hv. þm., að sú kjaraskerðing, sem þegar er orðin með því, sem boðað var í fjárlagafrv, og með þeim aðgerðum, sem ríkisstj. hefur nú þegar ýmist knúið í gegnum þingið eða er að knýja í gegnum þingið, er orðin meiri en hefði orðið ef fylgt hefði verið tillögum Alþfl. samkv. þeirri niðurstöðu sem Þjóðhagsstofnun komst að raun um. Hv. þm. getur ekki borið það fyrir sig að með því að greiða atkv. með ráðstöfunum ríkisstj. sé hann að koma í veg fyrir að kjaraskerðing verði jafnmikil og Alþfl. gerði ráð fyrir. Hún er nú þegar m. a. með stuðningi hv. þm., orðin meiri en jafnvel þó fylgt hefði verið tillögum Alþfl. frá því í desembermánuði s. l. og ég vil enn fremur rifja það upp fyrir hv. þm., að það er ekki rétt að hann og einhverjir félagar hans hafi ekki getað gengið til liðs við Alþfl. Ég veit ekki betur en þeim hafi komið mjög vel saman, hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni og hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni og Karli Steinari Guðnasyni þegar þeir ræddu um samstarfsgrundvöll fyrir þessa tvo flokka. Hv. þm. var búinn að samþykkja þann samstarfsgrundvöll. En þá komu aðrir til, sem kannske eiga aðild að því félagi sem hv. þm. hefur sjálfur gefið nafngiftina „gáfumannafélagið“. Það voru þeir sem réðu úrslitum um að ekki tókst samstaða um grundvöllinn sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og Alþfl. höfðu orðið ásáttir um.

Ég ætla nú ekki að ræða það frekar, en vek athygli á því, að við 2. umr. benti ég á tvö atriði í þessu frv. sem væri ástæða fyrir menn að gefa gaum að. Í fyrsta lagi, að ekkert ákvæði væri í frv. sem byndi tekjuöflunina, sem á að ná samkv. þessu frv., við þau útgjöld sem látið er í veðri vaka að tekjuöflunin sé til. Hér er um að ræða almenna tekjuöflun ríkissjóðs og 1.5% söluskattshækkun án þess að þær tekjur séu með einum eða öðrum hætti í frv. bundnar þeim þörfum sem látið er í veðri vaka að teknanna sé aflað til. Hér er því um að ræða almenna tekjuöflun. Ég benti einnig á að það væru ekki í frv, nein ákvæði um gildislok þessarar söluskattshækkunar, þannig að til að nema hana úr gildi og breyta 23.5% söluskatti í 22% þarf að samþykkja lög á Alþ. um að fella þau lög úr gildi sem hér er verið að reyna að fá afgreidd. Þetta tel ég mjög varhugavert og ég trúi því vart að t. d. tveir þm., hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, vilji standa að því að ákveða með þessum hætti til frambúðar að söluskattur skuli vera 23.5% án tillits til þess hvernig teknanna er aflað. Þess vegna hef ég við 3. umr. leyft mér að flytja sérstaka brtt., sem er mjög einföld, við frv. þetta, þess eðlis að við 3. gr., síðustu grein frv. áður en kemur að ákvæðunum til bráðabirgða, þar sem fjallað er um gildistöku frv., bætist svo hljóðandi setning: Lögin falla úr gildi frá og með 1. jan. 1981. — M. ö. o standi þessi sérstaka fjáröflun aðeins út árið 1980. Strax í ársbyrjun 1981 falli þessi söluskattshækkun úr gildi, þannig að mönnum gefist þá ráðrúm til þess við fjárlagagerð að gera upp við sig hvort þeir ætli áfram að viðhafa þá söluskattshækkun, sem hér er verið að reyna að afgreiða, ellegar leysa kyndikostnaðarvandann með öðrum hætti.

Ég vil, eftir að hafa komið fram með þær ábendingar sem ég gaf áðan, að hv. stjórnarliðar taki afdráttarlaust afstöðu til þess, þ. á m. hv. stjórnarliðar Guðmundur J. Guðmundsson og Guðrún Helgadóttir, hvort þeir eru að afgreiða viðvarandi hækkun á söluskatti upp í 23.5%, sem skuli standa um aldir alda eða þangað til breytt verður þessu söluskattskerfi og án tillits til þess, hvaða ríkisstj. er við völd í landinu, eða hvort hér er um að tefla, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson lét í veðri vaka, nauðvörn þessara hv. þm. í þeirri stöðu sem þeir nú eru þegar þeir telja nauðsynlegt að afla fjár á árinu 1980 til að jafna kyndikostnað í landinu, vilja gera það með þessum hætti, en vilja þó gera mögulegt að endurskoða þessa tekjuöflun og aðferðirnar til að afla fjárins fyrir gerð næstu fjárlaga, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson gaf í skyn að þyrftu að vera betur úr garði gerð en þau fjárlög sem var verið að afgreiða. M. ö. o er brtt. að leggja til að við 3. gr. bætist að lög þessi falli úr gildi frá og með 1. jan. 1981. Þar með vil ég láta leiða afdráttarlaust í ljós hvort t. d. hv. þm., þeir sem ég nefndi, eru að afgreiða viðvarandi söluskattshækkun eða hvort það er rétt, sem þeir hafa látið í veðri vaka, að hér sé af þeirra hálfu um að ræða tímabundna nauðvörn sem yrði að viðhafa á árinu 1980 vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem þar er við að etja.

Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að leitað verð afbrigða fyrir þessari skriflega fluttu brtt.