10.04.1980
Neðri deild: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

94. mál, sjómannalög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv., sem hér hefur verið lagt fram, hefur marga augljósa galla. Eins og menn vita er áhætta mikil í sjávarútvegi, og vegna þess hefur það lengi tíðkast að hlutafélög sæju um rekstur fiskiskipa eða réttara sagt að þau væru í eigu hlutafélaga. Þetta gerir það að verkum, að þó að ákveðinn sjómaður hafi nánast allt sitt líf verið á snærum sömu fyrirtækjanna eða. sömu aðilanna, þá getur hann verið í störfum hjá mörgum hlutafélögum á þessu tímabili. Vegna þess að svo er hagað þessum málum hlýtur það t. d. að vera ákaflega hæpið að setja hér upp bótakerfi með mismunandi rétti til greiðslubóta eftir því hve lengi hann hefur starfað hjá viðkomandi aðila. Ég held t. d. að mgr., sem hljóðar svo: „Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns“, eigi alveg skilyrðislaust að falla út.

Ég vil sérstaklega koma því á framfæri, að mér sýnist af þeirri ástæðu, sem ég hef getið hér að framan, að útgerð er yfirleitt rekin af hlutafélögum, að fráleitt sé að gera ráð fyrir að t. d. við tilkomu nýs skips, sem e. t. v. væri stofnað nýtt hlutafélag um, töpuðu skipverjar, sem hefðu verið að vinna hjá sömu aðilum að undanförnu og réðu sig í skiprúm á hinu nýja skipi, við það einhverjum réttindum sem þeir hafa áður unnið sér með störfum á eldra skipi hjá systurhlutafélagi sem er kannske með sömu hluthöfum.

Þessu vildi ég sérstaklega koma á framfæri, því ég skil mjög vel þá afstöðu sjómanna að þeir vilji ekki una þeirri uppsetningu sem hér er.