14.04.1980
Sameinað þing: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

108. mál, ávöxtun skyldusparnaðar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er alfarið sammála hv. flm. þeirrar þáltill., sem hér er á dagskrá, um að ávöxtun skyldusparnaðar ungs fólks hefur frá byrjun verið mjög ábótavant. Einkum og sér í lagi á þetta við eftir að óðaverðbólga síðustu allmargra ára kom til sögunnar. Aftur á móti fæ ég með engu móti séð né skilið hvers vegna þeir, þ. e. hv. flm., telja sig þurfa að rangtúlka svo mjög efni frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins varðandi þetta atriði. Einmitt vegna þess að ég er sammála hv. flm. þáltill. um nauðsyn skjótra úrbóta í þessum málum beitti ég mér fyrir gerbreytingu í þessum efnum með frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, en þar er einn kaflinn um þetta atriði sérstaklega og er svo einnig í núgildandi lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Í 70. gr. þess frv. segir m. a. um endurgreiðslu skyldusparnaðar, með leyfi forseta:

„Skal hann eiga þess kost að fá endurgreitt sparifé sitt samkv. 1. mgr. með sömu vöxtum og gilda á hverjum tíma fyrir lán samkv. 1. tölul. 10. gr. frá þeim tíma, er það var lagt inn, að viðbættum verðbótum samkv. lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands samkv. 39. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979. Enn fremur skulu þeir sitja fyrir um lán til íbúðarbygginga frá Byggingarsjóði ríkisins og mega þau lán vera allt að 5% hærri en gildandi lánahlutfall samkv. 32. gr. þessara laga er á hverjum tíma.“

Í lögum nr. 13 frá 1979, sem oft eru nefnd Ólafslög, en til þeirra er vitnað í frv., og í reglum, sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga, er skýrum stöfum sagt hvernig fara skuli með verðtryggingu fjárskuldbindinga. Lánskjaravísitalan er reiknuð út mánaðarlega og er að 2/3 hlutum bundin framfærsluvísitölu og að 1/3 hluta bundin byggingarvísitölu.

Hv. 12. þm. Reykv. segir að lánskjaravísitala Seðlabankans eigi eingöngu við um lánsfé, ekki spariinnlán, ekki verðtryggð ríkisskuldabréf. (Gripið fram í: Útlán.) Útlán, já, eingöngu um útlán, en ekki verðtryggð ríkisskuldabréf. Í 39. gr. laga um efnahagsmál o. fl., sem lánskjaravísitalan byggist á, er á mörgum stöðum tekið fram að lánskjaravísitalan eigi við bæði um inn- og útlán. Þar segir t. d., með leyfi forseta:

„1) Að verðtryggðir sparifjárreikningar, kröfur og skuldbindingar séu ætíð skráðar á nafn;

2) að við endurlán verðtryggðra peningalána standist verðtryggingarákvæði í aðalatriðum á í báðum samningum.“

Enn fremur: „Seðlabankinn skal birta vísitölur, sem heimilt er að miða verðtryggingu sparifjár og lánsfjár við, ásamt vaxtakjörum.“

Greinilegt er því, að löggjafinn ætlast til sams konar verðtryggingar inn- og útlána. Þar við bætist svo, að einmitt þessa dagana er Seðlabankinn að auglýsa sölu á verðtryggðum ríkisskuldabréfum sem bera 3.5% vexti og eru verðtryggð samkv. sömu lánskjaravísitölu og gengið er út frá í frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Í þessum efnum fer því ekkert á milli mála og ekkert gefur hv. flm. tilefni til að segja: Ekki er kveðið á um hversu reikna skuli o. s. frv.

Í 70. gr. frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins með tilvitnun til laga um efnahagsmál o. fl., nr. 13 frá 1979, og reglum, sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga, er þessu m. a. slegið föstu:

1) Að reiknaðir skuli 3.5% vextir af skyldusparnaðarfénu, en það eru sömu vextir og áætlaðir eru af almennum útlánum Byggingarsjóðs ríkisins.

2) Að vextir og verðtrygging skuli reiknað frá þeim degi, sem skyldusparnaðarféð er lagt inn, og til þess dags, er sparnaði lýkur og féð er tekið út.

3) Að höfuðstóll, áunnir vextir og verðbætur skuli hækka samkv. lánskjaravísitölu Seðlabankans mánaðarlega. — M. ö. o. að skyldusparnaðarféð skuli a. m. k. jafnvel verðtryggt og væri það í verðtryggðum ríkisskuldabréfum.

Texti 70. gr. frv. var sérstaklega borinn undir sérfræðinga Seðlabankans til þess að ganga úr skugga um að verðtryggingin væri eins góð og um verðtryggð ríkisskuldabréf væri að ræða. Voru sérfræðingarnir á einu máli um að svo væri.

4) Er því slegið föstu að skyldusparendur fái framlög sín dregin frá tekjum við álagningu tekjuskatts og útsvars, sbr. 69. gr. frv., en það fá menn hvorki við kaup verðtryggðra ríkisskuldabréfa né við skyldusparnað hátekjumanna, svo tekin séu dæmi hv. flm. þessarar þáltill. Slíkt skattfrelsi fylgir reyndar engum öðrum sambærilegum sparnaði. Vextir og verðtrygging skyldusparnaðarins svo og endurgreiðsla hans er einnig skattfrjáls. Enn fremur er hann skattfrjáls sem eign.

5) Að skyldusparendur sitji fyrir um lánveitingu frá Húsnæðismálastofnun og eigi auk þess rétt á hærri lánum en aðrir.

Um þetta allt segja hv. flm. þeirrar þáltill. sem hér er á dagskrá: Er þá litlu eða engu betur komið en í eldri lögum. — Hvílík fjarstæða.

Ég er sammála flm. þáltill. um nauðsyn skjótra breytinga frá því sem nú er í þessum efnum. Aftur á móti er þáltill. óþörf með öllu ef frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins verður að lögum á þessu þingi, því þar er gengið mun lengra til móts við hagsmuni skyldusparenda en þáltill. gerir ráð fyrir. Á blaðamannafundi í sept. s. l., þar sem stefnumótun þáv. ríkisstj. í húsnæðismálum var kynnt, kom ég inn á galla núv. kerfis varðandi ávöxtun skyldusparnaðar ungmenna og lýsti því þá yfir að úr yrði bætt með nýjum lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Auk þess sem áður segir um efni frv. að þessu leyti er þetta ítrekað og undirstrikað í grg. þess og í framsöguræðu minni með því. Fullyrðingar hv. flm. þáltill. um þetta atriði frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins eru því að mínu mati bæði ómaklegar og algjörlega rangar.

Hitt er svo annað mál, að ekkert útlit virðist vera fyrir að núv. hæstv. ríkisstj. ætli að standa við það loforð í stjórnarsáttmálanum að ný löggjöf um húsnæðislánakerfi komi hið fyrsta til framkvæmda, eins og það er orðað. Í nýsamþykktum fjárlögum eru markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna skornir niður um tæplega 3.9 milljarða kr., hvorki meira né minna, eða um meira en þriðjung. Með þessu er verið að eyðileggja alla möguleika til uppbyggingar öflugs veðlánakerfis í næstu framtíð og þar með allar meiri háttar umbætur í húsnæðislánamálum. Þar við bætist að þessi niðurskurður markaðra tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna er brot á samkomulagi sem á sínum tíma var gert við launþegasamtökin.

Það er auðvitað hægt að bjargast eitt og eitt ár með auknum lántökum til veðlánakerfisins, en það er ólíku saman að jafna: lántökum annars vegar og tekjum af mörkuðum tekjustofnum hins vegar. Við byggjum aldrei upp öfluga lánasjóði með auknum lántökum og endurlána síðan féð með lægri vöxtum og til lengri tíma. Þvert á móti tæmum við sjóðina með þeim hætti. Það liggur í augum uppl.

Það er algjört grundvallaratriði fyrir meiri háttar umbótum í húsnæðislánakerfinu, sem aldrei verður nægilega undirstrikað, að núv. tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna verði óskertir næstu 10–12 árin. Ef þannig verður á málum haldið og ef frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins verður lítt breytt að lögum geta umræddir sjóðir aukið í áföngum lán sín til húsbyggjenda úr 10–30%, eins og þau eru, í 80% á næstu 9–10 árum og geta að þeim tíma liðnum staðið á eigin fótum án verulegra ríkisframlaga. Eftir þann tíma þyrftu ríkisframlögin einungis að mæta vaxtamismun á útlánum Byggingarsjóðs verkamanna.

Ég endurtek: Fyrst verður að byggja sjóðina upp, en það verður aldrei gert ef markaðir tekjustofnar þeirra verða skornir niður eins og nú er gert í fjárlögum. Það verður aldrei gert ef stefna fjárlaganna í þessum efnum verður ráðandi.

Ef svo illa fer, sem ég óttast vegna þessa niðurskurðar í fjárlögum, að lítið verði gert til raunverulegra umbóta í húsnæðismálum eða húsnæðislánamálum og ef tafir verða á afgreiðslu frv. þess um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem ég lagði fram í des. s. l., má segja að samþykkt þáltill., sem hér er til umr., gæti orðið til bóta. Þó finnst mér hún í aðra röndina sýndarmennskan einber. Þá skoðun mína rökstyð ég með því að önnur aðalforsenda þáltill. er sú, að ekki sé nægilega tryggilega gengið frá þessum málum í frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi. Ég tel mig hafa sýnt fram á að sú forsenda sé röng.