15.04.1980
Efri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. 2. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið urðu menn ekki sammála í hv. fjh.- og viðskn. um þetta frv. Við, sem skipum 2. minni hl. n., hv. þm. Lárus Jónsson og Sigurlaug Bjarnadóttir ásamt mér, leggjum til að frv. verði fellt.

Í þessu sambandi vil ég minna á það, hvernig þetta flugvallagjald varð til. Ég skal vera stuttorður um það, vegna þess að ég vék að því máli við 1. umr. þessa máls. Flugvallagjald þetta er frá því árið 1975. Það var þá liður í víðtækum efnahagsráðstöfunum sem gerðar voru jafnhliða gengisbreytingu í febrúar það ár. Til þess að draga úr kostnaðaráhrifum gengislækkunarinnar voru lækkaðir skattar. Tekjuskattur var lækkaður, söluskattur var felldur niður af sérstökum vörutegundum og tollar voru lækkaðir og í sumum tilfellum felldir niður. Þetta hlaut að hafa í sér fólgna tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð. Það þurfti líka að líta á þá hlið málsins. Það var m. a. gert með því að samþykkja víðtækar heimildir til þess að lækka ríkisútgjöldin. Það var gert með því að stofna til skyldusparnaðar. Og það var gert með því að lögfesta flugvallagjaldið. Þannig kom þetta flugvallagjald til við sérstakar tímabundnar aðstæður, og ég held að enginn hafi látið sér koma til hugar að það ætti að vera áfram um næstu framtíð, hvað þá alla framtíð.

Nú er það svo, að við búum nú við ástand og aðgerðir í efnahagsmálum sem ganga þvert á það sem verið var að gera með efnahagsráðstöfununum 1975 og ég vitnaði til. Nú er ekki verið að lækka eins og þá var gert. Nú er ekki verið að lækka eða afnema tolla af tilteknum nauðsynjavörum. Nú er ekki verið að lækka söluskatt á tilteknum nauðsynjum. Hvað er verið að gera núna? Það er verið að hækka söluskattinn. Og það er ekki verið að lækka tolla. (GeirG: Er það ekki?) Ég held að það sé rétt, hv. þm. Geir Gunnarsson, að það sé ekki verið að lækka tolla, en ef ástæða er til að gera aths. við þá yfirlýsingu mína, þá veit ég að hv. þm. gerir það, (GeirG: Ég geri það.) Það, sem ég hef nú sagt, undirstrikar það, að þó að ástæða hafi verið til að leggja flugvallaskattinn á á sínum tíma, þá er ekki ástæða til þess núna að hækka þennan skatt eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Þá vil ég og vekja athygli á því, að öll skattlagning og allir skattar hafa að sjálfsögðu sína ókosti. En sum skattlagning hefur ókosti sem önnur hefur ekki, og í því efni er það verst ef fólkinu í landinu er mismunað með skattlagningu. En það er einmitt það eðli flugvallaskattsins sem við þurfum að gjalda varhug við.

Ég þarf ekki að lýsa því hér, að þessi skattur kemur fyrst og fremst niður á fólkinu í dreifbýlinu sem verður að sækja margháttaða þjónustu til höfuðborgarinnar, — þjónustu, sem hvergi annars staðar er að fá, og þjónustu, sem þetta fólk getur ekki verið án. Það verður að ferðast til og frá höfuðborginni, oft og tíðum með ærnum tilkostnaði. Og þróunin hefur orðið sú í samgöngumálum okkar á undanförnum árum og áratugum, að fólkið úti á landsbyggðinni hefur orðið sífellt meira og meira háð flugsamgöngum. Þess vegna er flugvallagjaldið óréttmætt gjald. Það á að létta af því misrétti sem hér er um að ræða, en ekki að auka það.

Með tilliti til þess, sem ég hef þegar sagt, er augljóst að það ákvæði sem er að finna í þessu frv. og gerir ráð fyrir að flugvallagjaldið hækki framvegis samkv. vísitölu, er ekki af hinu góða, vegna þess að það stuðlar beinlínis að því að festa þennan skatt. Það er enn fremur mjög varhugavert að fara þá leið að hækka skatt eins og flugvallagjaldið í samræmi við byggingarvísitölu því að það kann að vera að hreyfingar á byggingarvísitölunni — og þá hef ég fyrst og fremst í huga hækkanir á byggingarvísitölunni — geti orðið svo miklar, og hafa orðið svo miklar, að hækkun flugvallagjaldsins eftir þeim mælikvarða geti raskað því sem einhverjir kynnu að segja að þyrfti þó að vera hæfilegt hlutfall milli þessa gjalds og verðlagningar flugfélaganna á flugfargjaldinu.

Það er sama hvar drepið er niður í þessu máli, alls staðar verður komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé annað svar við þessu frv. en snúast gegn því og fella það. Þess vegna höfum við í 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. lagt það til.