16.04.1980
Neðri deild: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

109. mál, tollskrá

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil að flestu leyti taka undir það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan. Mér finnst að við getum haft ýmislegt við meðferð till. okkar að athuga. Það er afskaplega erfitt að sjá hvers vegna er svona flókið að gera breytingar á þessari löggjöf eins og hún nú er, þó í smáu sé og vera kunni að lögin þarfnist allsherjar endurskoðunar. Ég vil benda á að það frv. til l., sem hér liggur fyrir á þskj. 167, er auðvitað smávægileg breyting og einungis breyting á hluta laganna, og mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna var svona erfitt að samþykkja till. okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Árna Gunnarssonar. Það er óumdeilanlegt og hefur verið vitað lengi að loforð um breytingu á eignartíma þessara bifreiða er ekki neitt sem hægt er að treysta. Þetta hefur verið ályktunarefni hvers bandalagsþings sambanda öryrkja um árabil og aldrei fengist nein lausn á því, og þess vegna varðandi brtt. mína var meiningin að festa það nú í lög þannig að það færi ekki á milli mála hver eignartíminn væri.

Ég vil einnig taka undir flest sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan. Vitaskuld er það fáránlegt að Alþingi Íslendinga skuli ákveða hversu margir öryrkjar þurfi á bifreið að halda hverju sinni. Vitaskuld er þjóðfélagið skyldugt til að greiða fyrir því, að það fólk, sem er gersamlega háð bifreið vegna sjúkleika eða fötlunar, fái bifreið og fyrirgreiðslu í sambandi við hana. En með tilliti til þess loforðs, að nú verði rn. skrifað bréf með beiðni um tillögur, þá væntanlega um breytingu á lögum nr. 120 frá 1976, hlýt ég að fallast á að draga till. mína til baka svo að ekki verði henni um kennt að ekki sé hægt að afgreiða þær bifreiðar eða þau leyfi sem þegar hafa verið veitt. En ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það mun grannt verða fylgst með hverjar efndir verða á þessu máli. Það eru allir orðnir dauðþreyttir að bíða eftir þessari lagfæringu.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég minnast á það, og mætti þá kannske skila því til rn., að í húsi Sjálfsbjargar býr mjög fatlað fólk sem margt átti sínar bifreiðar áður en það flutti inn í þetta sérhannaða hús þar sem það átti að geta lifað mannsæmandi lífi í íbúðum sérhönnuðum við þess hæfi og síðan átti það að ferðast um á sínum bifreiðum. Það sakar ekki að upplýsa hv. Alþ. um að flestum þessara bifreiða hefur að sjálfsögðu verið lagt vegna þess að það eru alls engir peningar til að reka þær og auðvitað ekki heldur að kaupa nýjar, ef skipta þarf, þar sem það fólk, sem fyrir er greitt af sjúkratryggingum uppihald, hefur núna 20 þús. kr á mánuði til þess að lifa af.

Ég held að hv. Alþ. ætti að fara að huga alvarlega að því, að við erum ekki að tala hér um nein smámál. Við erum beinlínis að tala um hluti sem skipta því máli, hvort ákveðnir meðbræður okkar, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson sagði svo fallega áðan, geta haft minnstu möguleika á að lifa eins og annað fólk í þessu þjóðfélagi. Bílamálin, sem við erum nú að biðja um endurskoðun á, eru verulegur liður í því máli, þar sem þessu fólki er meinað að ferðast um á sama hátt og annað fólk gerir. Og ég vil ítreka að ég mun leggja á það mikla áherslu og ganga fast eftir því, að ekki degi seinna en 10. okt. í haust verði komið svar frá rn. og eitt allra fyrsta frv., sem lagt verður fram á hv. Alþ. á næsta þingi, verði frv. um þetta efni.