17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, 2. þm. Reykn., að það er með fullkomnum ólíkindum, og er maður þó ýmsu vanur af núv. hæstv. ríkisstj., hvernig hún hefur staðið að verkstjórn í því að ræða þessi skattstigamál.

Í hv. fjh.- og viðskn. Ed. var lögð á það mjög rík áhersla fyrir páska að n. féllist á, ef hugmyndir kæmu fram frá ríkisstj. um skattstiga fyrir páskahátíð, að þetta mál yrði keyrt í gegn á tveimur eða þremur dögum eftir páskaleyfi þingmanna. Það leið og beið og ekki komu hugmyndir frá hæstv. ríkisstj. um skattstiga fyrir páskahátíð. Síðan var tekið til fyrir nokkrum dögum og þá lágu frammi nýjar hugmyndir frá hæstv. ríkisstj. um skattstiga. Þá skyldi málið keyrt það hratt fram að það var í rauninni gert ráð fyrir að það væri þegar afgreitt frá hv. Ed. eða yrði a. m. k. í síðasta lagi í dag. Raunar var út frá því gengið að það hefði getað orðið í gær. Síðar var ákveðin útvarpsumræða í Ed. sem átti að fara fram í kvöld. Þessi ákvörðun var tekin í gær, en svo berast okkur fjh.- og viðskn.-mönnum þau boð seint í gærkvöld að það væri komin fram ósk frá hæstv. fjmrh. um að fresta þessari umr. fram yfir helgi.

Ég vil láta í ljós þá von að þessi frestun og nánari umfjöllun verði til að draga úr þeirri óvissu sem skattborgarar í þessu landi hafa verið í á meðan fjallað hefur verið um þessi mál hér á hinu háa Alþingi með þeim ólíkindum sem ég hef rakið. Það hefur komið mjög fram í máli hæstv. ráðh. að ástæða væri til þess að vera hræddur um að ríkissjóður yrði fyrir einhverjum skakkaföllum út af óvissu sem væri á þessu sviði. Ég hefði viljað leggja áherslu á að það eru ekki síður skattborgararnir í landinu sem hefur verið haldið í óvissu allt of lengi út af því hvaða skatta þeir ættu að greiða á þessu ári. Eru það í rauninni algjörlega óviðunandi og forkastanleg vinnubrögð.

Það hefur komið fram hér að lagðar voru fram í þessu máli tillögur frá stjórnarandstöðunni í hv. Ed. Grundvallartillögur okkar sjálfstæðismanna byggðust á því, að horfið væri frá að leggja á þær auknu álögur á tekju- og eignarskatta, sem vinstri stjórnin gerði 1978 og hafa haldist í skattalögum í einu eða öðru formi síðan, og jafnframt að skapa nokkurt svigrúm fyrir skattborgarana á móti þeirri hækkun útsvars sem fyrirhuguð er og heimiluð hefur verið af hv. Alþ. fyrir forgöngu ríkisstj. og stuðningsliðs hennar. Ég vil vekja athygli á því, að hv. þm. Alþfl. í Ed. treystu sér ekki til að fylgja þessari stefnu okkar sjálfstæðismanna. Þeir bera ábyrgð á vinstristjórnarsköttunum. Þeir bera ábyrgð á því, að íslenskir skattborgarar í heild greiða nú eða munu greiða, ef að líkum lætur, 4–5 milljörðum kr. meira í tekjuskatta, og ofan á það bætast stórar fúlgur í eignarskatta vegna þeirra ráðstafana sem vinstri stjórnin gerði á sínum tíma. Mér finnst því að þeir ágætu vinir mínir, kratarnir, megi muna að þeirra saga í skattamálum hefur ekki verið sérlega fögur hin síðustu ár þó þeir tali fagurlega núna.

Það hafa komið fram ýmsar nýjar upplýsingar, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. M. a. var búið að vekja athygli á því í hv. Ed., að það er staðreynd að tekjubreyting milli ára verður meiri en gert er ráð fyrir í öllum útreikningum hæstv. ríkisstj. Það leggur á skattborgarana 2–3 milljarða í auknum tekjuskatti ef ekki verður gert ráð fyrir þessari auknu tekjubreytingu frá 45%, sem gert er ráð fyrir í útreikningum hæstv. ríkisstj., í 47–48%, eins og kemur fram í upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. Síðast í gær komu fram upplýsingar um einstök dæmi sem sýna t. d. að tágtekjufólk fer illa út úr þeim breytingum sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera á skattstigunum. Er það að sjálfsögðu ekkert síður áhyggjuefni okkar í stjórnarandstöðunni en hæstv. ríkisstj.

Ég geri ráð fyrir að við sjálfstæðismenn munum leggja fram nýjar tillögur í ljósi hinna nýju upplýsinga við 3. umr. í Ed. Ég get greint frá því hér, að við höfum hugsað mikið út í það, að ef breytingar eru gerðar á skattþrepunum munu þær koma fleiri til góða en láglaunafólki. Þannig er einna nærtækast, a. m. k. í mínum huga, að gera nokkrar breytingar á sjúkratryggingagjaldinu til hagsbóta fyrir láglaunafólk að því er þetta varðar. Þá hef ég látið mér detta í hug að sjúkratryggingagjald ætti ekki að leggja á tekjur sem eru fyrir neðan 2 eða 3 millj. kr., sem mundi þýða að lægst launaða fólkið fengi þar nokkra ívilnun sem aðrir fengju ekki. Auðvitað koma fleiri leiðir til greina í þessu efni, en það er alveg ljóst að breyta þarf fyrirhuguðum hugmyndum hæstv. ríkisstj. þannig að þetta fólk fari ekki verr út úr skattlagningunni núna en það gerði áður.

Enn fremur er það svo, að hæsta skattþrep er orðið mjög hátt þegar farið er að greiða tæpar 65% af síðustu tekjum ársins í ríkissjóð og til sveitarfélaga. Við sjálfstæðismenn, sem höfum alltaf fylgt þeirri stefnu að jaðarskattur óbeinna skatta bæði til ríkis og sveitarfélaga fari ekki yfir 50%, teljum því að hér sé svo freklega að staðið að það komi fyllilega til greina frá okkar hálfu að leggja fram enn þá róttækari tillögur í þessum efnum en við gerðum við 2. umr. í Ed.

Ég legg áherslu á að það þarf að sníða þessa hnökra af hugmyndum hæstv. ríkisstj. og þess vegna fagna ég því öðrum þræði að það skuli gefast betra tóm til þess en á horfðist í gær vegna þess offors sem var þá á afgreiðslu þessa máls.