21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

154. mál, Bjargráðasjóður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Norðurl. e. vil ég segja það, að ríkisstj. hefur fjallað um þær brtt. sem fram hafa komið varðandi lög um Bjargráðasjóð. Ákvörðun í þeim efnum hefur ekki verið tekin endanlega af ríkisstj., en henni er ljóst hvaða vanda er hér um að ræða. Ég held að í þessum efnum þurfum við líka að átta okkur á því, að hve miklu leyti þessi sjóður á að vera tryggingasjóður og að hve miklu leyti hann á að vera lánasjóður, að hve miklu leyti er eðlilegt að líta á hann sem sérstakan úrlausnarsjóð félagslegra vandamála eða að hve miklu leyti á að líta á hann sem sérstakan tryggingasjóð landbúnaðarvandans á hverjum tíma. Ég sé að verulegur hluti af útgjöldum þessa sjóðs hefur farið til þess að leysa úr vandamálum landbúnaðarins á undanförnum árum. Spurningin er þá sú, hvort sjóður af þessu tagi á ekki að tengjast landbúnaðinum meira en verið hefur. Þetta eru spurningar sem hafa komið upp í hug minn við meðferð þessa máls að undanförnu.

Ég get því miður ekki gefið hv. þm. nákvæmari svör en þetta á þessu stigi málsins. Ég skal reyna að sjá til þess, að undir lok vikunnar gætu þau orðið ljósari og ég gæti þá komið þeim á framfæri við hann og aðra þá þm. sem af þessum málum hafa sérstakar áhyggjur og á þeim áhuga.

Varðandi lánin er gert ráð fyrir því, að bankakerfið hlaupi undir bagga með Bjargráðasjóði vegna tjóna af harðindunum og hafísnum árið 1979. Gert er ráð fyrir að útlánageta Bjargráðasjóðs verði verulega aukin og verði í kringum 1.5 milljarðar kr. að meðtöldu því fé sem gert er ráð fyrir á lánsfjáráætluninni, eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt úr þeirri meðferð sem þetta mál fékk í fjvn.