22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

112. mál, útboð verklegra framkvæmda

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég er í meginatriðum sammála því sem kom fram hér hjá ræðumönnum, að sjálfsagt er að hugleiða útboð í æðimörgum tilfellum og oft geta þau orðið hagkvæmari. Ég hef t. d. nýlega tekið þá afstöðu, að boðin skuli út hafnarframkvæmd í Hafnarfirði. Mér finnst það eðlilegt þegar verk er nálægt góðum verktakamarkaði, þar sem ætla má að menn geti tekið slíkt verk að sér. Hins ber þó að gæta, að í mjög mörgum tilfellum getur þetta verið erfitt í framkvæmd, t. d. í vegagerð. A. m. k. þm. utan Reykjavíkur þekkja mjög vel hvernig fjármagni er skipt á fjölmarga smærri spotta, getum við næstum því sagt, og í flestum tilfellum og á flestum svæðum er þegar kominn upp nokkur hópur — ég vil kalla það verktaka — þ. e. eigendur vörubifreiða, sem byggja bókstaflega afkomu sína á því að fá slíka vinnu. Þessir eigendur vörubifreiða, svo ég taki þá sem dæmi, eru ákaflega mikilvægir fyrir viðkomandi byggðarlag. Auðvelt væri að hreinsa nokkurn veginn út slíkan rekstur úr ýmsum byggðarlögum, ef stærri aðkomuverktökum yrði gefinn kostur á að taka slíkt að sér. Þetta breytir ekki því, að ég er hlynntur útboðum, eins og ég sagði, en ég tel að í útboð megi þó ekki ganga svo blint að ekki séu jafnframt hafðir í huga svona hagsmunir.

Vitanlega er um allt annað mál að ræða hér í Reykjavík, þar sem vinnumarkaðurinn er miklu fjölhæfari. En einmitt þetta atriði, sem ég nefni, hefur mjög víða verið tekið með í reikninginn þegar skoðað hefur verið hvort ráðast ætti í útboð með einstakar vegaframkvæmdir.

En ég vil geta þess, að Vegagerð ríkisins, sem er stærst af umræddum aðilum, á varla nokkra jarðýtu lengur. Hún á, held ég, fjórar gamlar. Vitanlega eru það jarðýtueigendur sem taka að sér verkin, og þó að það sé kannske ekki beinlínis á útboðsgrundvelli, þá hygg ég að þeir flestir geti borið það, að sá taxti, sem þeim er greiddur og er nánast ákveðinn af Vegagerðinni, er ansi lágur. Þetta hefur ekki verið boðið út í slíkum tilfellum vegna þess að verktakar, sem taka þessi verk á samningi, eru svo smáir að þeir ráða ekki við að bjóða í heil verk. Þannig eru það ýmsar aðstæður um landsbyggðina sem ráða því, að ekki hefur verið talið fært að ráðast í útboð.

Ég vil ljúka þessu með því að taka undir það almennt, að vitanlega ber að skoða hvert dæmi fyrir sig, og í mörgum tilfellum kemur vel til greina að ákveða útboð meira en gert hefur verið. En þetta mun hafa verið ástæðan fyrir því, að fjmrn. heimilaði árið 1970 þeim stofnunum, sem hér eru til umr., að ganga til verka án þess að um almenn útboð væri að ræða.