22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

14. mál, tekjuskipting og launakjör

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég undrast dálítið vinnubrögð hv. atvmn. í þessu máli. Hér liggja fyrir hv. Sþ. tvær þáltill. um nokkurn veginn sama efni og mér er því til nokkurrar undrunar að n. sá ekki ástæðu til að fjalla um báðar þessar till. í einu. Nú kann að vera að þannig sé ekki unnið hér, en ég hlýt að búast við því, að fram komi seinna nál. um till. hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur um þetta sama efni.

Enn þá meira undrast ég að svo löng og mikil þáltill. sem till. þeirrar þremenninga, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o. fl., skuli koma úr n. svo til gersamlega athugasemdalaust. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á nokkur atriði, sem væri hægt að ræða um, svo að ekki sé meira sagt. Ég get t. d. spurt hv. þm. hvernig eigi að láta meta „heilsufræðileg,félagsleg og hagfræðileg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna“, eins og segir hér í 7. gr., ef menn ætlast til að slíkt sé framkvæmt, og það hljóta þeir að gera ef þeir ætla að samþykkja slíka tillögu.

Í 14. gr. segir, með leyfi forseta: „og stuðla að aukinni hlutdeild láglaunafólks, lífeyrisþega og annarra minnihlutahópa.“ Ég hlýt að spyrja: Úr hvaða sveit er fólk sem semur svona lagað? Halda menn að láglaunafólk á Íslandi séu einhverjir minnihlutahópar? Ég leyfi mér að fullyrða hér að ég veit betur. Og ýmislegt annað er hægt að gagnrýna sem hér stendur. Í 4. mgr. grg. stendur t. d., með leyfi forseta: „Næg atvinna síðustu áratuga hefur útrýmt almennri fátækt.“

Mér þykja það vera mikil tíðindi ef almennri fátækt er útrýmt á Íslandi. Ég er hrædd um að fátækt sé enn töluvert almenn á Íslandi.

Ég vil þrátt fyrir allt þetta lýsa því yfir, að auðvitað er ekki hægt annað en að samþykkja slíka þáltill. sem þessa. Ég vil hins vegar taka undir það með þeim, sem hér hafa talað, og legg á það áherslu, að ekki verði stofnað nýtt „apparat“ í kringum slíkar umfangsmiklar rannsóknir. Stundum finnst manni að bráðum verði stór hluti þjóðarinnar önnum kafinn við rannsóknir, og við erum ekki svo mörg að ég held að við vitum nú töluvert um okkur sjálf þegar öllu er á botninn hvolft.

Hitt kemur mér svo á óvart, að engan skyldi langa til að koma með þáltill. í leiðinni um að rannsaka hinn hluta þjóðarkökunnar, þjóðarframleiðslunnar, eins og hv. þm. Karvel Pálmason mundi orða það þegar honum tekst upp um hinar vinnandi stéttir, að kjör þeirra, sem taka hin hlutann af kökunni, yrðu könnuð. Mikið dæmalaust væri gaman að fá að vita hvað fjölmargir Íslendingar fá í umboðslaun fyrir áfengi og tóbak án þess að vinna nokkurn tíma handarvik við það. Mikið dæmalaust væri gaman að vita hvað er mikið af íslenskum peningum, þ. e. peningum sem Íslendingar hafa unnið fyrir, í erlendum bönkum. Það er þetta fólk sem ég hefði áhuga á að láta kanna. Ég held að ég viti nokkurn veginn hver eru kjör íslenskrar alþýðu, íslenskra launamanna. Ég veit nokkurn veginn hvað það kostar fyrir þá að fá sér íbúð. Og ég veit líka að það er alveg sama hvað há laun þeir hafa, þeir geta ekki hugsanlega leyst húsnæðismál sín á þeim grundvelli sem þeir verða nú að gera. Allt þetta væri skemmtilegt að fá kannað. Og það fer ekki hjá því, að manni finnist svona till., sem ég efast ekki um að er vel meint, verka svolítið yfirborðskennd á fólk sem hefur unnið um árabil við það að tala við fátækt íslenskt fólk. Ég get sagt hv. þingdeild heilmikið um það án allra rannsókna, og ég er alveg sannfærð um að hagstofustjóri og hans starfslið og Kjararannsóknarnefnd, — allt þetta fólk veit heilmikið um þetta. Það er hitt fólkið sem við vitum ekkert um, sem fær að ég hygg miklu stærri hluta af því sem íslenskt fólk vinnur fyrir og framleiðir.