28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Hér er nú til 3. umr. í Ed. Alþingis frv. til l. um breyt. á tekju- og eignarskattslögunum. Tekur þetta frv. einkum til þeirra ákvæða laganna sem fjalla um álagningu, svo sem skattstiganna, persónuafsláttar, barnabóta o. fl. þar að lútandi. Ákvarðanirnar um álagningarreglur hafa að þessu sinni orðið nokkru flóknari og valdið alþm. og fulltrúum í fjh.- og viðskn. meiri heilabrotum en undanfarin ár. Vegna þeirra grundvallarbreytinga sem gerðar hafa verið á skattakerfinu og þar sem nú er í fyrsta skipti lagt á samkv. hinum nýju lögum.

Samhliða ákvörðun um álagningarreglur er ekki óeðlilegt að nokkur umræða og vangaveltur verði um skattamálin almennt, og hefur mikill hluti af störfum Alþingis í vetur farið í breytingar og lagfæringar á lögum þeim um tekju- og eignarskatt sem samþ. voru vorið 1978 undir handleiðslu og forsjá þáverandi hæstv. fjmrh., Matthíasar Á. Mathiesen. Lög þessi, sem nú skal í fyrsta skipti telja fram og leggja á skatta samkvæmt, marka í raun þáttaskil þar sem nú á að taka inn í skattadæmið áhrif verðbólgunnar á þau hugtök sem skattlagningin er miðuð við, þ. e. tekjuhugtakið og eignarhugtakið. Þetta eru veigamestu breytingarnar, en ýmis önnur nýmæli eru í lögunum, svo sem sérsköttun hjóna, gjörbreyttar reglur varðandi frádráttarliði og fjölmörg atriði varðandi skattlagningu atvinnurekstrarins sem hvorki er tími né ástæða til að ræða sérstaklega nú.

Allar þessar breytingar, sem upptök sín eiga í skattalögum Matthíasar frá vorinu 1978, hafa gert ákvörðunina um skattstigana bæði vandasama og flókna og stöðugt eru einstök skattdæmi borin saman við hugsanlega útkomu miðað við gömlu lögin. Svo hátt lætur í sumum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í umr. þessum, er þeir framkvæmda slíkan samanburð og lýsa honum af miklum fjálgleik, að maður spyr sjálfan sig: Til hvers voru breytingarnar gerðar? Voru gömlu skattalögin svona góð? Er sérsköttunin mistök sem aldrei átti að fara út í? Á aftur að taka upp misjafnan og breytilegan persónufrádrátt o. s. frv.? — Skattalög eiga að miða að því, að þeir, sem búa við sambærilegar aðstæður, greiði sambærilega skatta. Skattstigann þarf síðan að byggja á þann hátt að skattbyrðinni verði dreift á þjóðfélagsþegnana á sem réttlátastan hátt miðað við efni og aðstæður. Við það mat verður að taka tillit til ýmissa þátta í þjóðlífinu. Og enn vakna ýmsar spurningar: Hvar eiga annars vegar svokölluð skattleysismörk að vera og hvað mega hins vegar skattar einstaklingsins vera háir svo þeir verki ekki letjandi og dragi úr viðleitni fólks og vilja til að vinna? Að hve miklu leyti eiga skattstigarnir að taka tillit til aðstæðna einstakra þjóðfélagshópa ef hægt er og réttara að mæta þörfum þessara hópa með almannatryggingakerfinu og annarri félagslegri samhjálp? — Að þessu sinni er gengið út frá að tekjuaukningin sé um 45% milli áranna 1978 og 1979 og heildarskattbyrði á nánast að standa í stað milli áranna. Er með því móti náð þeirri tekjuáætlun sem fjárlög gera ráð fyrir. Hér á undan og eins í fyrri umr. um mál þetta hafa stjórnarandstæðingar gert mikið veður út af og haft hátt um það sem þeir kalla skattaálögur hæstv. ríkisstj. Fjmrh. svaraði þessum áróðri í ræðu sinni hér á undan, svo ég sé ekki ástæðu til að orðlengja það frekar.

Við 2. umr. sagði hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, að málflutningur okkar stuðningsmanna ríkisstj. væri mjög mikil blekking og frv. þetta fæli í raun í sér 2–3 milljarða kr. hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Þetta endurtók hann áðan. Reyndi hann að rökstyðja mál sitt með tilvitnun í grg. frá Þjóðhagsstofnun, dagsetta 10. apríl 1980, þar sem greint er frá hugsanlegri tekjubreytingu milli áranna 1978 og 1979 og byggt er á úrtaki á nokkrum framtölum úr Reykjavík og Reykjanesi. Síðan las hann upp orðrétt, með leyfi forseta:

„Meðaltal þessara staða vegið með tekjum ársins 1978 er 47%.“

Hv. þm. sleppti hins vegar framhaldinu sem er svo, með leyfi forseta:

„Hér er nær eingöngu um niðurstöðu úr framtölum launþega að ræða, enda hafa einstaklingar með atvinnurekstur enn frest til þess að skila framtölum. Áætlanir, sem að nokkru eru studdar athugun á framtölum, benda til þess að meðalbrúttótekjur á ofangreindum stöðum hækki minna en atvinnutekjur, e. t. v. um 45–46% ef miðað er við sambærilegt tekjuhugtak bæði árin.“

Á þessu sést að Þjóðhagsstofnun telur ekki mögulegt að spá með nokkurri vissu um meiri tekjuaukningu en gert hefur verið, þ. e. 45%, þó e. t. v. gæti örlítillar tilhneigingar til hækkunar í því úrtaki sem þegar hefur verið gert.

Þá er rétt að minna áþá miklu óvissu sem ríkir í öllum spám vegna hinna róttæku breytinga á skattalögunum sem ég gat um í upphafi máls míns og sérstaklega hefur verið varað við af hálfu þeirra aðila sem aðstoðað hafa við gerð þessara skattstiga.

Í grg., sem dr. Þorkell Helgason hefur samið fyrir fjh.- og viðskn. um þessi mál, segir m. a. að vegna stórbreytinga á fyrningarreglum og fleiri þáttum telji margir að varlega megi treysta því að atvinnurekstrartekjur hækki til jafns við aðra verðþróun. Hækki t. d. atvinnurekstrartekjur einungis um 40% í stað 45% skerði það álagningargrunninn um rúma 2 milljarða kr.

Enn hafa engin framtöl borist frá einstaklingum í atvinnurekstri og er því ógerlegt að meta þá tekjuhreyfingu milli ára. Þó er vitað að mikil tekjuhækkun var hjá bændum á árinu 1978 og því heldur ólíklegt að tekjuhækkun þeirra milli ára nú verði svo há sem áætlunin gerir ráð fyrir, ekki síst ef tekið er tillit til þess erfiða árferðis sem var í mörgum landbúnaðarhéruðum á s. l. ári.

Giskað er á að óvissan í mati á tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga sé allt að 2 milljörðum kr. til eða frá og mætti jafnvel ætla að heildaróvissan geti verið mun meiri. Er á þessu stigi með öllu ógerlegt að fullyrða hvort heldur verði. Þeir skattstigar, sem nú er gerð tillaga um, miða að því að ná þeim tekjum sem fjárlög áætla, eins og ég gat um áðan, og er því um að ræða lækkun um 1.5 milljarða kr. frá upphaflegu skattatillögunum, en þá var gert ráð fyrir nokkru svigrúmi hjá ríkissjóði eða borði fyrir báru vegna hinna mörgu óvissuþátta.

Þó heildarskattbyrðin standi í stað er óhjákvæmileg einhver tilfærsla milli einstakra hópa skattgreiðenda sé tekin viðmiðun við hugsanlega álagningu samkv. gamla kerfínu. Gætir þar mest áhrifa frá sérsköttuninni, sem hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar að hjón, þar sem bæði hafa verulegar tekjur, hækka nokkuð í sköttum.

Ljóst er að mikill fjöldi framteljenda velur fasta 10% frádráttinn frá tekjum sínum, og leiðir það til þess að skattbyrðin flyst frá þeim, sem lítinn frádrátt höfðu áður, til þeirra sem höfðu hærri frádráttarliði, t. d. vaxtafrádrátt, sem skapaði viss forréttindi þeim sem bestan aðgang höfðu að lánsfé. Til að tryggja enn betur hag tekjulítilla einstaklinga, en í þeim hópi eru m. a. námsfólk, einstæð foreldri og lífeyrisþegar, hefur fjmrh. lagt til í samráði við stuðningsmenn sína að þessi fasti frádráttur verði aldrei lægri en 550 þús. kr.

Barnabætur fara hækkandi með fjölda barna og er þannig reynt að létta verulega undir með barnmörgum fjölskyldum. Þá er sérstök hækkun á frádrætti fyrir börn yngri en sjö ára, og kemur hún mest til góða unga fólkinu, sem er að hefja búskap og oft og tíðum að byggja eða kaupa sér þak yfir höfuðið. Það heyrist að vísu og er rétt, að börn á skólaaldri og unglingar séu kostnaðarsamari, ef svo má taka til orða, en ungbörnin. En með þessu formi fjölskyldubóta er fremur litið á fjölskylduna sem eina heild. Lítum á yngsta fólkið, sem er að leggja út í lífsbaráttuna. Makinn er þá oft og tíðum bundinn heima við vegna smábarna og tekjumöguleikarnir því miklu minni en hjá þeim sem betur hafa komið undir sig fótunum.

Einstæð foreldri fá hæstu barnabætur með hverju barni, 280 þús. kr. án tillits til barnafjölda, og er á þann hátt komið verulega til móts við vandamál þeirra. Einnig njóta þau hinnar sérstöku hækkunar með börnum yngri en sjö ára, en hún nemur 65 þús. kr. fyrir hvert barn.

Hv. stjórnarandstöðuþingmenn leggja fram brtt. um verulegar skattalækkanir. Auðvitað væri ekki nema gott eitt um það að segja að lækka skattana og minnka álögurnar ef hér væri um raunhæfar tillögur að ræða, en svo er því miður ekki. Þetta eru sýndartillögur. Þeir segjast vera til viðræðu um það, hvar megi draga saman, en koma sér undan að benda á ákveðna þætti. Þó hafa þeir nefnt lækkun á niðurgreiðslum. Er það nú raunhæfasta leiðin til að koma til móts við skattgreiðendur? Minnkaðar niðurgreiðslur þýða auðvitað hækkað vöruverð, hækkað verð á matvörum sem kæmi að sjálfsögðu verst við þá sem minnstar tekjur hafa og flest börnin, stærstu fjölskyldurnar. Þeir hafa nefnt Lánasjóð námsmanna. Lánasjóðurinn þarf mikið fjármagn og sjálfsagt er að athuga reglurnar um hann eins og margt annað sem gefa þarf gaum að í okkar ríkisfjármálum, en ætli það væri ekki að koma nokkuð hastarlega aftan að ýmsum námsmanninum, sem treyst hefur á væntanlegt lán úr sjóðnum, að skera þar verulega niður þegar komið er fram í apríllok? 7–10 milljarða skattalækkun væri hægt að ná með því að skera niður framlög til sjúkrahúsa og skólabygginga og hafnarframkvæmda í svo sem eitt ár, fresta öllum þessum framkvæmdum í eitt ár eða svo. En er þjóðin reiðubúin til þess? Ég held ekki. Aðhalds verður að sjálfsögðu að gæta í ríkisfjármálunum og sparnaðar til hins ýtrasta þar sem það er hægt, en við megum ekki undrast og láta sem það komi okkur á óvart þó ríkisreksturinn verði dýrari ár frá ári, ef við tökum mið af þeim kröfum sem til ríkisins eru gerðar um stöðugt bætta og aukna þjónustu á hinum ýmsu sviðum. Bygging skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva krefst stóraukins rekstrarkostnaðar. Það er til lítils að byggja mannvirkin ef þau eiga síðan að standa auð.

Við framsóknarmenn höfum lagt áherslu á aukna samhjálp í þjóðfélaginu. Við viljum styðja og stuðla að því, að öldruðum og sjúkum geti liðið sem best. Við viljum gefa gaum málefnum öryrkja og þroskaheftra. Til þess að svo megi verða verða þeir, sem hraustir eru og heilbrigðir og hafa til þess aðstæður, að leggja nokkuð af mörkum. Jöfnuður, velferð og öryggi öllum til handa eru grundvallaratriði í stefnu Framsfl. Framsfl. mun vinna markvisst að framförum og bættum lífskjörum. Framsóknarmenn leggja höfuðáherslu á að árangur náist í efnahagsmálunum. Að því munum við markvisst vinna með aðhaldi og ráðdeild á öllum sviðum. Það ástand, sem ríkt hefur í íslenskum stjórnmálum í vetur og skapaðist er þjóðinni var steypt út í vetrarkosningar og það stjórnleysi sem þeim fylgdi, hefur gert nýjum stjórnvöldum erfiðara um vik að ná fram þessum markmiðum. En ábyrgðina á þeim atburðum bera þeir aðilar sem nú skipa stjórnarandstöðu. Því skulu menn ekki gleyma. Ég þakka áheyrnina.