29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

Umræður utan dagskrár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Mig langar að gera örstutta aths. um þingsköp. Það er aðallega vegna fyrri fundar í Sþ. hér í dag, þar sem fyrir lá fjöldi fsp. Hér á dagskrá var fsp. frá 6. þm. Norðurl. e., sem að vísu kann að líta nokkuð sakleysislega út, þannig að hægt hefði verið að leggja hana til hliðar án þess að hafa mikið fyrir því. En þessi fsp. er búin að vera á dagskrá tvisvar sinnum í Sþ. og nú liggur svo mikið á að hraða fundum Sþ., að það er ekki hægt að afgreiða mál sem eðli máls samkv. ætti að taka afskaplega skamman tíma að afgreiða. Og það sem meira er, það er ekki haft samráð við þm. um þau mál sem tekin eru út af dagskrá, þó að ráðh., sem þessum fsp. svara eða eiga að svara, sitji hér í salnum. Þessu vil ég mótmæla og ég geri ákveðna kröfu til þess, að þessi fsp. frá mér, sem var á dagskrá fyrri fundar, verði afgreidd á næsta fundi þar sem fsp. verða teknar fyrir í Sþ.